Staðan í Öskju og Bárðarbungu klukkan 23:33

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt. Ég mun ekki nota myndir núna, þar sem staða mála er orðin mjög flókin og stefnir í að verða flókari á næstunni.

Staðan í Öskju

  • Kvikuinnskotið hefur ekki ennþá náð inn í kvikuhólf Öskju. Það hefur náð inn í eldstöðina Öskju. Hvenær kvikinnskotið nær inn í kvikuhólf Öskju veit ég ekki.
  • Virkni hefur verið að aukast í Öskju vegna kvikuinnskotsins. Þetta er vegna stressbreytinga sem eru að eiga sér stað í eldstöðinni.

Staðan í Bárðarbungu

  • Staðan á kvikuinnskotinu er svipuð og hefur verið undanfarið. Það færist núna rúmlega 1 – 2 km á dag. Kvikuinnskotið hefur náð til Öskju. Það hefur hinsvegar ekki náð inn til kvikuhólfs Öskju ennþá. Hvenær það gerist veit ég ekki. Þegar það gerist þá mun jarðskjálftavirkni aukast í Öskju ásamt óróa.
  • Eldgosið sem varð þann 23-Ágúst-2014 hefur verið staðfest. Það entist aðeins í rúmlega 1 – 2 klukkutíma áður en það stoppaði. Ég held að þær hugmyndir sem hafa komið fram afhverju það hætti séu rangar. Það er mitt álitið að eldgosið átti sér stað vegna þess að þrýstingur var orðin svo mikill í kvikuhólfi Bárðarbungu að kvikan fór að leita að öðrum út-göngum í Bárðarbungu, þar sem kvikuinnskotið gat ekki annað þrýstingum. Þessi mikli þrýstingur varði þó eingöngu í rúmlega tvo klukkutíma. Þetta bendir sterklega til þess að kvika sé að koma af miklu dýpi inn í Bárðarbungu og það má því reikna með að þetta gerist aftur síðar. Núna er hinsvegar flæðið minna og því minni þrýstingur á kvikuhólfinu.
  • Ástæða þess að sigdældinar komu ekki fyrr fram er vegna þess að það tók tíma fyrir vatnið að finna sér farveg undir Vatnajökli. Ég veit ekki afhverju vatnið fór í Grímsvötn frekar en aðra leið.
  • Jarðskjálftavirkni er mjög mikil í norðurenda kvikuinnskotsins. Það er jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu sjálfri, þó svo að þessi jarðskjálftavirkni sé ekki stöðug eins og stendur. Það gæti breyst án viðvörunar.
  • Sprungur sjást núna á yfirborðinu þar sem kvikuinnskotið er og það bendir til þess að dýpst séu eingöngu rúmlega 2 km niður á sjálft kvikuinnskotið. Sigdældir hafa myndast við jökulsporðinn þar sem hann er þunnur vegna jarðhitavirkni sem er að taka sig upp núna á leið kvikuinnskotsins.
  • Kvikuinnskotið er búið að valda færslu upp á rúmlega 40 sm austur og vestur síðan þessi atburðarrás hófst. Það er ekkert sem bendir til þess að farið sé að hægja á þessari atburðarrás.
  • Þetta gæti orðið mjög löng atburðarrás. Sem gæti jafnvel varað nokkur ár, frekar en mánuði sé miðað við sögu Bárðarbungu í eldgosum.
  • Það hefur verið „rólegt“ í Bárðarbungu í dag. Óróinn hefur verið stöðugur og hefur ekki risið eða fallið eins og undanfarna daga. Ég tel líklegt að það muni breytast á næstu klukkutímum. Þar sem ég er nú þegar farinn að sjá breytingu á óróamælingum sem eru gerðar í kringum Bárðarbungu.

Þessi atburðarrás er mjög hröð og staða mála mun breytast mjög hratt. Það þýðir að þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt. Hægt er að skoða jarðskjálftavefsíðuna mína hérna.

Grein uppfærð klukkan 23:37.