Staðan í eldgosinu í Bárðarbungu klukkan 22:01

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.

Staðan í eldgosinu er sú að í dag fór að gjósa á nýrri sprungu eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Þetta er í raun þrjár sprungur, en hugsanlegt er að þær muni renna saman í eina sprungu með tímanum ef það gýs þarna nógu lengi. Sigdældir hafa sést í Dyngjuökli fyrir sunnan núverandi eldgos og leiðni er farin að aukast í Jökulsá á fjöllum. Það bendir til þess að jarðhiti eða hugsanlega eldgos sé hafið undir jökli. Það verður þó ekki ljóst alveg strax.

Þenslan heldur áfram í kvikuinnskotinu eins og sést vel á mælingum Háskóla Íslands og er hægt að skoða hérna. Sjá einnig mynd hérna fyrir neðan.

DYNC_3mrap.svd.05.09.2014.at.20.56.utc
GPS færsla samkvæmt mælingum Háskóla Íslands. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Háskóla Íslands.

Jarðskjálftavirkni heldur áfram í Bárðarbungu sjálfri og eiga sér þar bæði stórir og litlir jarðskjálftar. Stærsti jarðskjálftinn síðan á miðnætti var með stærðina 5,3 og varð hann í öskjubarmi Bárðarbungu. Það eru engin merki um að núverandi eldgos sé að fara að enda eða að stutt sé í enda á núverandi atburðarrás.

Ég mun setja inn nýjar upplýsingar ef þörf er á því. Annars er mikið fjallað um þetta í fjölmiðlum og hefur það dregið úr þörf minni að skrifa um þessa atburði nema að eitthvað óvænt gerist.

One Reply to “Staðan í eldgosinu í Bárðarbungu klukkan 22:01”

  1. Það er nú samt ofboðslega gott að fá útskýringar frá þér og kannski samantekt, svona
    á einum stað. Þú átt skilið hrós fyrir alla vinnuna, ég held að það sé öllum orðið ljóst að þú varst fyrstur til að segja að gos væri hafið og dróst ekki í land með það, enda kom það á daginn að þú hafðir rétt fyrir þér, það gaus fyrst á sunnudeginum.

Lokað er fyrir athugasemdir.