Staðan í Bárðarbungu þann 19-Desember-2014

Virknin í Bárðarbungu heldur áfram eins og hefur verið síðustu þrjá mánuði. Enginn jarðskjálfti stærri en 5,0 hefur átt sér stað síðan Mánudaginn 15-Desember-2014. Fjöldi jarðskjálfta með stærðina 3,0 og yfir er ennþá mjög mikil, en það hefur eitthvað dregið úr henni á undanförnum vikum. Minnkandi jarðskjálftavirkni hefur fylgt minnkandi sigi í Bárðarbungu á sama tíma samkvæmt síðustu mælingum.

141219_2055
Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu síðustu 48 klukkustundirnar. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Nýja Holuhraun heldur áfram að stækka og er núna orðið næstum því 80 ferkílómetrar (km²) að stærð. Ég veit ekki hversu mikið magn hrauns er komið upp, þar sem það hefur gengið illa að mæla hraunið undanfarna daga vegna veðurs. Þykkt hraunsins er orðið nokkrir tugir metrar þar sem mest er. Eldgosið heldur áfram með svipuðum hætti og undanfarið, þó benda mælingar til þess að eitthvað hafi dregið úr magni þess hrauns sem er að koma upp núna, en ég veit ekki hversu mikið hefur dregið úr eldgosinu. Hraunið rennur núna í lokuðum rásum samkvæmt síðustu mælingum vísindamanna. Þetta hraun brýst síðan fram á jöðrum hraunsins og heldur áfram að stækka það, á einstaka stað kemur þetta hraun upp á yfirborðið í gegnum þessar lokuðu rásir í hrauninu.

Annað – myndir

Ef fólk man eftir þessari mynd hjá Veðurstofu Íslands sem var sett á vefinn hjá þeim fyrir nokkrum dögum síðan.

Ég var þarna, fyrir algera tilviljun þá ákvað ég að skreppa til Veðurstofunnar á þessum degi og kíkja í heimsókn. Þar sem tími til þess hafði myndast hjá mér þennan dag í slíka heimsókn. Ég fékk smá bita af kökunum sem þarna voru í boði.

2014-12-09_16-38-00
Mitt sjónarhorn af kaffinu og kökunum. Þessi mynd er undir Creative Commons leyfi, sjá nánar á CC leyfi síðunni.

Ég hef miklu fleiri myndir, en vegna þess hversu internetið er hægt þá ætla ég mér ekki að setja þær inn eins og stendur. Sérstaklega á meðan internet sambandið er svona hægt (þetta er 3G internet).