Miðlungs jarðskjálftahrina austur af Brennisteinsfjöllum

Síðustu nótt varð jarðskjálftahrina í Brennisteinsfjöllum, þessi jarðskjálftahrina varð rétt austur af Brennisteinsfjöllum en innan sprungusveim eldstöðvarinnar í Bláfjöllum. Í þessari jarðskjálftahrinu komu fram merki um kvikuhreyfingar en mestur hluti þeirra jarðskjálfta sem kom fram átti upptök sín í jarðskorpuhreyfingum.


Jarðskjálftahrinan eins og hún kemur fram á korti á jarðskjálftavef Veðurstofu Íslands. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu var með stærðina 2,9 en aðrir jarðskjálftar sem komu fram voru minni að stærð. Í kringum 210 jarðskjálftar komu fram í þessari jarðskjálftahrinu. Um klukkan 07:00 fór að draga verulega úr jarðskjálftahrinunni og virðist sem að jarðskjálftahrinunni hafi lokið nokkrum klukkutímum síðar. Það er ekki hægt að vita hvort að ný jarðskjálftahrina mun hefjast á þessu svæði innan skamms eða ekki. Það er ekkert sem bendir til þess að eldgos verði þarna á næstunni, þó svo að kvika sé á ferðinni innan í eldstöðinni.