Staðan í eldgosinu í Fagradalsfjalli þann 15-Maí-2021

Þetta er stutt grein um stöðuna í eldgosinu í Fagradalsfjalli sem tilheyrir eldstöðvarkerfinu Krýsuvík-Trölladyngja.

Það eru ekki miklar breytingar á eldgosinu og hefur það verið mjög svipað og undanfarnar vikur. Það sem hefur verið að breytast undanfarið er að magn hrauns sem er að koma upp í eldgosinu hefur aukist um 70% síðan eldgosið hófst þann 19-Mars samkvæmt fréttum frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

  • Eldgosið heldur áfram í einum gíg eins og hefur verið undanfarnar vikur. Núna koma hinsvegar miklir kvikustrókar upp í eldgosinu með reglulegu millibili þegar þessi grein er skrifuð. Stærstu kvikustrókanir ná hæðinni að 400 til 500 metra hæð yfir gígnum. Þessir kvikustrókar sjást því vel frá Reykjavík og öðrum nálægum bæjarfélögum.
  • Hraunið er mjög nálægt því að komast niður í Nátthagadal og er núna verið að gera tilraun til þess að stöðva framvindu hraunsins. Ástæðan er að nærri Náttagadal er ljósleiðari og suðurstrandarvegur sem má ekki fara undir hraun. Ég reikna fastlega með því að tilraunir til þess að stöðva rennsli hraunsins niður í Nátthaga takist ekki þegar hraunið fer aftur að renna í átt að Nátthaga.
  • Stærsti gígurinn er núna í kringum 50 til 90 metra hár. Hæð gígsins er alltaf að breytast vegna þess að það hrynur stöðugt úr gígnum, bæði innan hans og utan. Þetta ferli hruns virðist vera hægt og rólega að stækka gíginn.
  • Kvikan sem er núna að koma upp er að koma upp af ennþá meira dýpi samkvæmt mælingum Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands. Samkvæmt breytingum á efnasamsetningu sem kemur fram í hrauninu.
  • Það eru engin merki þess að eldgosinu sé að fara að ljúka fljótlega.

Það er erfitt að segja til um það hvað gerist næst í þessu eldgosi. Það er möguleiki á því að nýir gígar opnist fyrir utan núverandi gígalínu sem er að mestu hætt að gjósa, fyrir utan einn gíg. Á meðan eldgosið í Fagradalsfjalli heldur áfram að vaxa þá er mjög erfitt að vita hvað gerist næst.