Staðan í Bárðarbungu þann 24-September-2014

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög hratt.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 22:42

  • Eldgosið í Holuhrauni er með svipuðum hætti og í gær. Eins og stendur þá gýs hinsvegar aðeins einn eða tveir gígar þessa stundina. Það getur breyst án viðvörunar.
  • Hraunið er núna í kringum 40 ferkílómetrar að stærð. Þetta er annað stærsta hraun á Íslandi í dag, stærsta hraun sem runnið hefur síðan á 19 öld kom frá Heklu árið 1947 í 13 mánaða eldgosi. Það hraun er í kringum 80 ferkílómetrar að stærð. Það er reiknað með að Holuhraun muni ná þeirri stærð eftir eina og hálfa viku eða tvær vikur (eftir því hvernig krafturinn er í eldgosinu).
  • Stærsti jarðskjálftinn frá miðnætti var með stærðina 5,2. Aðrir jarðskjálftar hafa verið minni í dag.
  • Hraunið er núna að fara renna yfir Gæsavatnaleið samkvæmt fréttum. Þetta þýðir að vegur sem jarðfræðingar hafa verið að nota lokast. Við síðustu athugun þá átti hraunið eftir 200 metra þangað til að það færi yfir veginn.
  • Jarðskjálftavirkni er að aukast í kvikuinnskotinu. Það bendir til þess að þrýstingur sé að aukast innan þess núna. Hættan á nýju eldgosi þar sem kvikuinnskotið er hefur því aukist margfalt frá því sem var áður og mikil hætta er á því að eldgos muni eiga sér undir jökli með tilheyrandi vandamálum (jökulflóði, öskugosi og slíkum hlutum).
  • Ef að eldgos mun eiga sér stað undir jökli. Þá mun óróinn aukast til mikilla muna frá því sem núna er. Jökulflóð mundi einnig sjást í kjölfarið fljótlega eftir að eldgos hæfist. Það reyndar veltur á því hvaða leið vatnið færi undir jökli.
  • Engar aðrar stórar breytingar hafa átt sér stað í Bárðarbungu í dag.

Ef eitthvað breytist þá mun ég setja inn nýjar upplýsingar hingað inn.

Staðan í Bárðarbungu þann 23-September-2014

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög hratt.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 23:41

  • Stærsti jarðskjálftinn í dag var með stærðina 5,1 og varð klukkan 04:33. Annar stærsti jarðskjálftinn í dag varð klukkan 13:44 og var með stærðina 4,5.
  • Askja Bárðarbungu heldur áfram að lækka um 50 sm á dag.
  • Órói bendir til þess að meiri kvika sé að flæða inn í Bárðarbungu en að gjósa í Holuhrauni. Það er að valda því að þrýstingur er að aukast innan Bárðarbungu núna.
  • GPS mælingar eru hættar að haga sér undarlega. Ég veit ekki afhverju það er og hvað það þýðir.
  • Órói sem kom fram klukkan 22:40 bendir til þess að lítið eldgos hafi átt sér stað. Þetta eldgos varði ekki lengi og er líklega búið núna.
  • Jarðskjálftavirkni er að færast suður með kvikuinnskotinu og bendir það til þess að þrýstingur sé að aukast innan þess. Það þýðir að aukin hætta er á eldgosum undir jökli.

Ef frekari breytingar verða þá mun ég setja inn upplýsingar um það hingað. Ef mjög stórir atburðir verða. Þá mun ég skrifa nýja grein um það sem er að gerast.

Staðan í Bárðarbungu laugardaginn 20-September-2014

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 12:31

  • Stærsti jarðskjálftinn síðan á miðnætti hafði stærðina 5,1. Aðrir jarðskjálftar hafa verið minni.
  • Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með svipuðum hætti og fyrr. Helst gýs í miðgígnum sem er núna orðinn mjög hár og rís talsvert hátt yfir sléttuna sem þarna er til staðar.
  • Askja Bárðarbungu heldur áfram að síga eins og áður, er sighraðinn núna í kringum 50sm/á dag.
  • Jarðskjálftavirkni er ennþá í kvikuinnskotinu og nær sú jarðskjálftavirkni talsvert undir Dyngjujökul.
  • Ég er að sjá talsvert af óróapúlsum á jarðskjálftamælum í kringum Bárðarbungu. Ég tel víst að það sé ekki gott. Ég hef rakið þá virkni til suður og suð-vestur Bárðarbungu miðað við útslag á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar.
  • GPS gögnin (vefur Háskóla Íslands er að finna hérna á ensku) eru ennþá að segja mjög mismunandi hluti eins og stendur gengur mér mjög illa að skilja hvað er að gerast. [Vegna leyfismála þá tengi ég eingöngu í þá vefsíðu. Myndin breytist með tímanum og því gildir þessi texti aðeins þegar skrifa hann.]
  • Efnasamsetning kvikunnar hefur verið að breytast eftir því sem liðið hefur á eldgosið. Samkvæmt nýjustu fréttum þá virðist sem að kvikan sem er núna að koma upp komi frá meira en 10 km dýpi.  Það þýðir að á meira en 10 km dýpi sé líklega mjög stórt kvikuhólf sem er fært um að viðhalda eldgosum í Bárðarbungu í mjög langan tíma.
  • Jarðfræðingar reikna með að vera við Holuhraun fram að jólum samkvæmt fréttum.
  • Rekhrinan hefur ekki ennþá hafist sunnan við Bárðarbungu. Hvenær það mun gerast veit ég ekki, en það er ljóst að syðri hluti Bárðarbungu kerfisins mun fara af stað á næstu dögum til mánuðum þar sem rekhrina er nú þegar hafin í norðari hluta kerfisins.

Ef eitthvað meiriháttar gerist. Þá mun ég setja inn nýjar upplýsingar hingað eða skrifa nýja grein.

Staðan í Bárðarbungu þann 16-September

Þetta er staðan í Bárðarbungu. Þessar upplýsingar geta orðið úreltar mjög fljótt.

Talsverð jarðskjálftavirkni er ennþá í Bárðarbungu. Stærsti jarðskjálftinn í dag hafði stærðina 5,2, en fleiri jarðskjálftar hafa orðið síðan þá en hingað til hafa þeir verið minni í stærð eða stærð þeirra hefur ekki fengist staðfest. Eins og staðan er núna þá dregur úr virkninni í Holuhrauni samkvæmt því sem hefur komið fram í fréttum um gang mála. Slíkt er eðlilegt í þeim rekatburðum sem núna eiga sér stað í Bárðarbungu, reikna má með nýjum eldgosum þar sem kvikuinnskotið er til staðar eða í sjálfri Bárðarbungu.

Óróinn er mjög svipaður í dag og síðustu daga, en ég er engu að síður að sjá vísbendingar um það að þrýstingur sé aftur farinn að aukast í kvikukerfi Bárðarbungu. Það eitt og sér eykur líkunar á nýjum eldgosum eins og ég nefni að ofan. Að öðru leiti er staðan óbreytt eftir því sem kemst næst.

Ég mun setja inn nýjar upplýsingar um stöðu mála eftir því sem þarf.

Staðan í Bárðarbungu þann 15-September-2014

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 15:07

  • Jarðskjálfti með stærðina 5,4 varð klukkan 08:04.
  • Öskjusig varð í kjölfarið á þessum jarðskjálfta og varði það í rúmlega 2 til 3 klukkutíma eftir skjálftann samkvæmt frétt Rúv. Þetta öskjusig varð í heildina um 45 sm samkvæmt GPS mælingu.
  • Eldgosið í Holuhrauni er svipað og í gær. Það gýs ennþá í miðjugígnum samkvæmt fréttum og minni gígum í nágrenni við aðal-gýginn. Hrunaflæði er ekki nægt til þess að komast yfir Jökulsá á Fjöllum eins og stendur. Þannig að núna breiðir hraunið úr sér frá aðal-gígnum.
  • Jarðskjálftavirkni hefur verið að færast suður með kvikuinnskotinu. Það eykur hættuna á því að eldgos hefjist undir jökli án mikils fyrirvara. Það hafa nú þegar orðið minniháttar jarðskjálftar undir jöklinum.
  • Mengun vegna SO2 (Brennisteinsoxíð) er mikið vandamál þar sem hana rekur undan vindi. Fólk þarf að fylgjast með veðurspám til þess að átta sig á því hvort að það sé í hættu að yfir sig Brennisteinsoxíð mengun.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 20:53

  • Hugsanlegt er að nýr gígur eða ný sprunga hafi opnast sunnan við núverandi gossprungu. Ég sé það þó ekki almennilega á vefmyndavél Mílu eins og er.
  • Sú rekhrina sem er hafinn í Bárðarbungu mun vara í marga mánuði samkvæmt fréttum á Rúv.
  • Ef eldgosið í Holuhrauni klárast þá mun hefjast eldgos á öðrum hlutum kvikuinnskotsins. Það gæti alveg eins gerst á svæði þar sem enginn jökull er til staðar, eða undir jökli. Það er engin leið til þess að vita það fyrir víst.

Grein uppfærð klukkan 15:17.
Grein uppfærð klukkan 20:56.

Það sem búast má við af Bárðarbungu (líklega)

Þetta hérna eru hugleiðingar um það sem er hugsanlegt að muni gerast í Bárðarbungu.

Hrun Bárðarbungu í nýja öskju

Í dag er askja í Bárðarbungu, þetta er ein stærsta askja Íslands og er rúmlega 70 ferkílómetrar að stærð og 10 km að breidd. Hinsvegar stendur eldstöðin hátt og er hæst rúmlega 2009 metra yfir sjávarmáli. Þannig að það er nægur efniviður fyrir Bárðarbungu til þess að falla niður í. Þann 16-Ágúst-2014 hófst þetta ferli sem mun valda hruni Bárðarbungu. Þann dag var hófst hrunið í Bárðarbungu, en það vissi það bara ekki neinn, en þann dag hófst einnig öflug jarðskjálftahrina í Bárðarbungu sem markaði þetta upphaf hruns Bárðarbungu. Þegar hrun Bárðarbungu hefst fyrir alvöru má búast við mjög sterkum jarðskjálftum á svæðinu. Stærðir þeirra verða frá 5,5 til 6,7 og hugsanlega stærri ef jarðskorpan þarna ber slíka jarðskjálfta. Kvikan sem er í kvikuhólfi Bárðarbungu mun síðan leita upp með brúnum misgengins sem myndast hefur (hringurinn sem jarðskjáfltanir mynda eru misgengið). Kraftur eldgossins mun ráðast að mestu leiti á því hversu mikið öskjusig þetta verður, það er ekki hægt að segja til um það hversu mikið það verður fyrr en það hefst. Ég er hinsvegar að búast við mjög stóru öskjusigi sem mun valda miklu tjóni á Íslandi.

Það er einnig hætta á því að mínu áliti (sem getur verið rangt) að norðari hlið Bárðarbungu falli fram eða hrynji niður í þessum átökum sem þarna munu eiga sér stað. Hvað varðar jökulflóð þá er ljóst að þau munu fara bæði suður-vestur og norður með vatnasvæðum þar sem þau falla. Hversu mikið hlaupvatn er um að ræða er erfitt að segja til um á þessari stundu, en ljóst er það mun verða umtalsvert. Reikna með tjóni á vatnsvirkjum á þeim svæðum þar sem flóðin munu fara um. Einnig má reikna með miklu tjóni við Húsavík þar sem flóðin fara um. Tjón af völdum öskuskýs mun eingöngu ráðast af vindátt þegar að þessu kemur. Reikna má með að öskuskýið verði mjög stórt þegar þetta gerist og nái jafvel meira en 20 km hæð.

Eldgosavirkni mun halda áfram eftir að hruninu líkur. Hversu lengi slík virkni mun vara veit ég ekki fyrr en þessu er öllu saman lokið. Það getur verið allt frá viku upp í mörg ár. Það eina sem er hægt að gera er að bíða og sjá til hvernig þetta fer.

Öryggisatriði fyrir fólk

  • Fólk þarf að kaupa sér langbylgjuútvarp til þess að ná langbylgju útsendingum. Þar sem reikna má með tjóni á fjarskiptavirkjum og rafmagnsleysi þegar öskjusigið hefst. Upplýsingavefsíðu Rúv um langbylgjuna er að finna hérna.
  • Fólk ætti að fá sér heimasíma sem gengur eingöngu á fastlínukerfinu. Það tryggir virkni fastlínusíma ef aðrar fjarskiptaleiðir tapast (sambönd yfir farsíma).
  • Fólk ætti að fá sér talstöðvar. Þar sem ekki er hægt að treysta á farsímakerfið eða fastlínukerfið virki í verstu tilfellunum eða eftir langdregið rafmagnsleysi. Þannig er hægt að tryggja þráðlaus fjarskipti á takmörkuðu svæði. Þar sem drægni talstöðva er ekki meira en 8 til 10 km á UHF bandinu.
  • Hægt er að nota varaaflgjafa við sjónvörp (flatskjái). Við slík sjónvörp þá duga þeir lengur en við tölvur, en ekki endalaust.
  • Fólk skal búast við sambandsleysi við internetið þegar þetta hefst. Þar sem ekki er hægt að treysta á það að flutningsleiðir fyrir internet sambönd haldi við álíka hamfarir.
  • Fólk á að hlusta á tilkynningar frá Almannavörnum þegar þetta skellur á. Hvort sem þær eru í útvarpi eða sjónvarpinu.

Um stöðuna í Bárðarbungu

Staðan í Bárðarbungu er mjög alvarleg og fer ekki batnandi eftir því sem tíminn líður. Það er ljóst að mjög stórir atburðir eru að eiga sér stað þar núna. Þetta eru hugsanlega stærstu atburðir í sögu Íslands síðan land byggðist, það er þó ekki hægt að vera viss um slíkt fyrr en þetta hefst. Ég byggi mitt álít á bestu vísindalegu gögnum sem ég hef. Það sem ég veit ekki hvenær þetta mun hefast. Hinsvegar er ljóst að mínu áliti að þetta öskjusig í Bárðarbungu mun ekki hætta, það hefur ekki sýnt nein merki um að farið sé að hægjast á því sigi sem hafið er. Virkni dettur hinsvegar niður í einhverja klukkutíma eins og er og hefur gert það frá upphafi þessara atburða, ég veit ekki afhverju það er ennþá og hugsanlegt er það mun taka vísindamenn marga áratugi að komast að því afhverju slíkt hegðun á sér stað í eldstöðvarkerfum almennt.

Ég vona það besta í þeirri atburðarrás sem er núna að fara af stað. Hinsvegar er ljóst í mínum huga þegar þetta fer af stað af fullu afli þá mun verða mikið tjón. Ég vona að íslendingar sleppi við mannfall vegna þessara atburða sem eru að fara af stað fljótlega að mínu áliti.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 23:19

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.

Yfirvofandi hrun Bárðarbungu í öskju

Það er ljóst að mínu áliti að Bárðarbunga mun hrynja í öskju einhverntímann á næstu dögum til mánuðum. Þetta ferli hófst þann 16-Ágúst-2014 og því mun ekki ljúka fyrr en Bárðarbunga fellur saman inn á sjálfan sig í stóru öskugosi, væntanlega með miklu jökulflóði á þessu svæði þar sem þarna er mikill jökull. Það er mjög undarlegt að mér finnst að ekki skuli vera talað um þetta í fjölmiðlum á Íslandi, þar sem það er mín skoðun að þetta muni gerast, það eina sem skiptir máli núna er sá tími sem er til stefnu áður en eldgos fara að hefjast í sjálfri Bárðarbungu og síðan hvenær sjálf hrun Bárðarbungu hefst. Ég reikna nefnilega ekki með því að fjallið Bárðarbunga muni verða til eftir að þetta er allt saman gengið yfir. Ég reikna einnig með stóru öskugosi í kjölfarið á hruni Bárðarbungu. Það eina sem er ekki vitað hvenær þetta mun allt saman byrja, enda er ekki hægt að spá fyrir um slíka atburði með neinni nákvæmni ennþá.

Ég reikna einnig með að eldgos geti hafist án viðvörunar í Hamrinum, sem er eldstöð innan sprungukerfis Bárðarbungu. Ég er einnig farinn að reikna með að kvikuinnskot geti farið suður með sprungukerfi Bárðarbungu í átt að Torfajökli. Það er þó ekki ennþá hafið en líkunar á slíkum atburðum eru mjög miklir að mínu mati. Síðan er lítill möguleiki á því að Bárðarbunga geti hafið eldgos í nálægum eldstöðvum vegna spennubreytinga frá þessum atburðum. Þetta eru ekki miklar líkur en eru þó engu að síður til staðar.

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram eins og síðustu daga eins og komið hefur fram í fréttum. Hraunið frá þessu eldgosi er núna langt komið með að stífla Jökulsá á Fjöllum og mynda þar lítið lón í kjölfarið. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé farið að draga úr eldgosinu í Holuhrauni eins og staðan er núna. Einnig hefur komið í ljós að sjö eldgos hafa átt sér stað síðan þessi atburðir hófst þann 16-Ágúst-2014. Það hafa verið flest allt saman smágos undir jökli sem hafa ekki sést og ekki valdið neinum teljandi flóðum í kjölfarið.

Ef einhverjir stórir atburðir eiga sér stað. Þá mun ég setja inn uppfærslu hingað eða skrifa nýja grein um það sem er að gerast.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 21:50

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.

Staðan í Bárðarbungu

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram í miklum hviðum samkvæmt fréttum. Það bendir hinsvegar til þess að kvikan sé farin að eiga erfiðara með að gjósa á þessu svæði eins og stendur. Það getur verið að nýjar gossprungur opnist í nágrenni við núverandi gossprungu og þannig létti á þrýstingum í kvikuganginum. Það hefur komið í ljós að smágos hafa átt sér stað undir jökli þar sem kvikuinnskotið er til staðar. Það er hætta á frekari eldgosum í kvikuganginum og geta þau hafist án nokkurs fyrirvara. Samkvæmt fréttum þá er kvikuinnflæði og útstreymi í nokkru jafnvægi eins og er. Það þýðir þó ekki að nýjir gosstaðir geti opnast án nokkurs fyrirvara og það er ennþá mikil hætta á því að nýjar gossprungur opnist undir jökli eins og hefur nú þegar gerist í nokkrum tilfellum og valdið smágosum þar.

Óstaðfesta eldgosið ennþá óstaðfest

Eldgosið sem ég talaði um í nótt er ennþá óstaðfest og ég veit ekki hvort að það mun nokkurntímann koma staðfesting á því. Þar sem ef eldgosið átti sér stað, þá var það líklega mjög stutt og undir jökli og ekki víst að það muni nokkurntímann fást staðfest. Þannig að staða þess núna er ennþá mjög óljós og mjög óstaðfest sem stendur.

Ég mun halda áfram að setja inn uppfærslur um stöðu mála í Bárðarbungu, en þar sem fjölmiðlar á Íslandi eru ennþá með góða umfjöllun um eldgosið þá hef ég dregið aðeins úr þeim texta sem ég set hingað inn tímabundið.

Staðan í Bárðarbungu klukkan 22:04

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.

Eldgosið heldur áfram í Holuhrauni eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Helsta jarðskjálftavirknin núna er rétt sunnan við núverandi eldgos, í Dyngjujökli. Það er mín skoðun þarna muni verða eldgos innan skamms sé eingöngu miðað við þá jarðskjálftavirkni sem þarna hefur verið í dag. Hvenær slíkt eldgos mun hefjast veit ég ekki ennþá. Sig öskjunnar í Bárðarbungu heldur áfram og samkvæmt fréttum þá er sigið núna allt að 90sm/dag. Þetta er frekar mikið sig að mínu mati þar sem ekki hefur ennþá orðið stórt eldgos í öskjunni. Það er að mínu mati einnig stór hætta á því að verði eldgos í sjálfri öskju Bárðarbungu eða í hlíðum fjallsins. Þar sem ekki hefur gosið síðan 23-Ágúst-2014. Ég veit þó ekki hvenær það fer að gjósa þarna, þar sem það er ekki hægt að spá fyrir um slíkt.

Nýja hraunið er farið að valda staðbundnu veðri og litlum skýstrokkum eins og sést vel á þessari mynd sem ég tók í dag af vefmyndavél Mílu.

Bardarbunga.svd.08.09.2014.at.15.27.utc
Skýstrokkur á Holuhrauni í dag klukkan 15:27 þann 8-September-2014. Skjáskot af vefmyndavél Mílu.

Ég reikna með að þessi atburðarrás muni halda áfram talsvert lengi í viðbót. Hversu lengi veit ég ekki. Það er þó ljóst að nóg er eftir af kviku í Bárðarbungu eins og staðan er núna.

Sigdalur hefur myndast sunnan við gosstöðvanar á Holuhrauni

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög hratt.

Talsverður sigdalur hefur myndast sunnan við gosstöðvanar í Holuhrauni. Þessi sigdalur hefur myndast vegna landreks á svæðinu. Þar sem sigdalurinn nær undir jökul hefur jökulinn sigið á um tveggja km löngum kafla. Þetta er samkvæmt fréttum í dag. Það hefur einnig komið fram að meiri kvika er að flæða inn í kvikuinnskotið heldur en er að gjósa úr því. Því hefur þrýstingurinn í kvikuinnskotinu aukist og því er hætta á að eldgos brjótist upp á nýjum stað án fyrirvara.

Stærsti jarðskjálftinn síðan á miðnætti var jarðskjálfti með stærðina 5,5 og varð hann í Bárðarbungu eins og fleiri stórir jarðskjálftar síðan þessi atburðarrás hófst.

Ég mun setja inn uppfærslur um stöðu mála eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram. Einnig er fjallað mikið um stöðu mála í fjölmiðlum.