Jarðskjálftahrina norður af Grindavík vekur fólk af svefni

Í dag (22-Maí-2022) klukkan 09:53 og 09:57 urðu jarðskjálftar með stærðina Mw3,5 og Mw3,6. Þessir jarðskjálftar voru norð-vestur af Grindavík og fundust vel í bænum og samkvæmt fréttum, vöktu fólk upp af svefni.

Tvær grænar stjörnur norð-vestur af Grindavík sem sýnir stærstu jarðskjálftana. Önnur græn stjarna beint norður af Grindavík. Talsvert af rauðum punktum og appelsínugulum sem sýna minni jarðskjálfta á svæðinu
Jarðskjálftavirkni við Grindavík. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það eru engin merki um að farið sé að draga úr jarðskjálftavirkni á þessu svæði. Jarðskjálftavirknin kemur hinsvegar í bylgjum samkvæmt Veðurstofu Íslands. Það þýðir að það eru tímabil mikillar jarðskjálftavirkni og síðan lítillar jarðskjálftavirkni. Þegar þessi grein er skrifuð, þá er tímabil lítillar jarðskjálftavirkni í gangi.

Jarðskjálftavirkni eykst á ný við Reykjanestá

Í dag (20-Maí-2022) um klukkan 18:00 þá jókst jarðskjálftavirkni aftur við Reykjanestá eftir að þar hafði verið rólegt í nokkra daga. Þessi jarðskjálftahrina er ennþá í gangi og staðan breytist stöðugt. Þessi grein verður því styttri vegna þess.

Grænar stjörnur útaf ströndinni við Reykjanestá auk fjölda af rauðum punktum sem tákna minni jarðskjálfta. Græn stjarna er einnig norðan við Grindavík á kortinu
Jarðskjálftavirknin á Reykjaneshrygg og síðan á Reykjanesi. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn hingað til var með stærðina Mw3,8 og fannst í Grindavík og öðrum nálægum bæjum á Reykjanesskaga. Annar stærsti jarðskjálftinn var með stærðina Mw3,5. Jarðskjálfti með stærðina Mw3,0 varð fyrir norðan Grindavík og fannst í bænum.

Jarðskjálftavirkni norður af Grindavík (stöðug jarðskjálftavirkni)

Í gær (18-Maí-2022), þá gleymdi ég að skrifa um þá stöðugu jarðskjálftavirkni sem er norður af Grindavík. Þessi jarðskjálftavirkni kemur til vegna þess að þarna hefur myndast nýtt kvikuinnskot eða þá að kvikuinnskotið frá Svartsengi nær til þessa staðar. Ég veit ekki hvort gildir hérna. Kort á Skjálftalísu Veðurstofu Íslands bendir sterklega til þess að þarna hafi myndast annað kvikuinnskot, hinsvegar eru þessar niðurstöður frekar óljósar eins og er. Á svæðinu austan við Þorbjörn er gömul gígaröð, ég veit ekki hvenær það gaus þarna en hugsanlega gaus þarna á 12 og 13 öldinni.

Sex grænar stjörnur norður af Grindavík auk nokkura punkta sem sýna minni jarðskjálfta
Sex grænar stjörnur norður af Grindavík. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Í gær (18-Maí-2022) urðu samtals sex jarðskjálftar norður af Grindavík sem voru stærri en Mw3,0 að stærð. Stærsti jarðskjálftinn þá var með stærðina Mw3,5. Í dag (19-Maí-2022) þegar þessi grein er skrifuð aðeins orðið einn jarðskjálfti sem hefur náð stærðinni Mw3,0. Það virðist vera að draga úr jarðskjálftavirkninni. Ég veit ekki afhverju það er að gerast.

Nýjar upplýsingar um stöðu mála í eldstöðinni Fagradalsfjall

Þetta er stutt grein um þær upplýsingar sem Veðurstofan og Almannavarnir gáfu út í dag (8-Mars-2021) um stöðu mála í eldstöðinni Fagradalsfjalli.

Nýjar mælingar sýna það að kvikuinnskotið í eldstöðinni Fagradalsfjallið heldur áfram að vaxa. Þó að mestu leiti í suðurenda kvikugangsins við Fagradalsfjall sjálft. Jarðskjálftasvæði eru á suðu-vestur svæði við suðurenda kvikugangsins og síðan norð-austur við norðurhluta kvikugangsins við Keili vegna þeirrar þenslu sem kvikuinnskotið er að búa til á þessu svæði. Það kom einnig fram að þar sem kvikan stendur grynnst er dýpið aðeins um 1 km og að hugsanlegt eldgossvæði verður hugsanlega næst Fagradalsfjalli við suður enda kvikuinnskotsins.

Grá svæði á kortinu tákna þar sem jarðskjálftar geta orðið vegna þenslu í kvikuganginum milli Fagradalsfjalls og Keili sem er merkt með brotnum línum á korti af Reykjanesskaga.
Kort þar sem reikna má með jarðskjálftum við sitthvorn endann af kvikuganginum milli Fagradalsfjalls og Keili. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það verða tímabil þar sem mjög lítið er um stóra jarðskjálfta á þessu svæði á milli þess sem það verða tímabil með mjög mikilli og sterkri jarðskjálftavirkni. Það er ennþá hætta á jarðskjálfta með stærðina Mw6,5 í Brennisteinsfjöllum samkvæmt Veðurstofunni og það hefur ekki dregið úr þeirri jarðskjálftahættu undanfarna daga. Það hafa ekki komið fram neinar kvikuhreyfingar í öðrum eldstöðvum á Reykjanesskaga, það er eldstöðinni Reykjanes (Svartsengi?) og síðan eldstöðinni Krýsuvík.

Heimildir

Áfram má búast við að virknin á Reykjanesskaga verði kaflaskipt (almannavarnir)
Kvikan er á kílómetra dýpi (Rúv.is)

Tveir sterkir jarðskjálftar í eldstöðinni Reykjanes

Í gær (31-Júlí-2020) urðu tveir jarðskjálftar með stærðina Mw3,4 og Mw3,0 í eldstöðinni Reykjanes og er þessi jarðskjálftavirkni hluti af þeirri þenslu sem á sér núna stað í eldstöðinni Reykjanes.


Jarðskjálftavirknin á Reykjanesinu. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er nánast stöðug jarðskjálftavirkni núna í eldstöðinni Reykjanes en jarðskjálftavirkni þar kemur í toppum með nokkura daga til vikna millibili. Ástæða þessa er innflæði kviku á 3 km til 10 km dýpi. Hversu mikil jarðskjálftavirkni á sér stað veltur alveg á því hversu mikil kvika er að flæða inn í eldstöðina en það virðist vera mismunandi innflæði kviku milli daga til vikna. Þar sem jarðskjálftavirkni er núna stöðug á þessu svæði þá er varanleg hætta á að þarna verði jarðskjálfti með stærðina Mw5,0 til Mw6,0 á þessu svæði.

Kröftug jarðskjálftahrina nærri Fagradalsfjalli

Í gær (19-Júlí-2020) klukkan 23:36 varð kröftugur jarðskjálfti með stærðina Mw5,1 0,3 km suð-vestur af Fagradalsfjalli í eldstöðinni Reykjanes. Þetta er á sama svæði og ég hafði skrifað um í fyrri grein. Þegar þessi grein er skrifuð þá hafa komið fram 1340 jarðskjálftar síðustu 48 klukkutímana. Annar stærsti jarðskjálftinn varð klukkan 06:23 og var sá jarðskjálfti með stærðina Mw5,0. Þegar þessi grein er skrifuð hafa orðið 26 jarðskjálftar sem eru stærri en Mw3,0. Tilkynnt hefur verið um grjótskriður í kjölfarið á stærstu jarðskjálftunum og líklegt er að frekari grjótskriður verði ef fleiri stærri jarðskjálftar verða.


Jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga í eldstöðinni Reykjanes. Það er mikið um rangar staðsetningar þar sem SIL kerfið ræður ekki almennilega við þennan fjölda af jarðskjálftum. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.


Jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga í eldstöðinni Reykjanes. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessi jarðskjálftavirknin hefur verið tengd við kvikuinnskot á þessu svæði frá eldstöðinni Reykjanes. Það er ekki vitað á þessari stundu hvort að kvikan sé að ferðast í áttina þar sem jarðskjálftahrinan er að eiga sér stað núna eða ekki. Þegar þessi grein er skrifuð þá hefur dregið úr jarðskjálftavirkni á þessu svæði. Hversu lengi það mun draga úr jarðskjálftavirkni á þessu svæði er ekki hægt að segja til um. Það er aukin hætta á mjög stórum jarðskjálfta á þessu svæði í kjölfarið á þessari jarðskjálftahrinu.

Jarðskjálftahrina í Reykjanes eldstöðinni

Það hefur verið jarðskjálftahrina í eldstöðinni Reykjanes síðustu klukkutíma nærri Fagradalsfjalli sem er mögulega innan eldstöðvarinnar Reykjanes en gæti einnig verið aðeins fyrir utan. Þegar þessi grein er skrifuð hefur ekki komið fram neinn jarðskjálfti sem hefur farið yfir stærðina Mw2,0. Það gæti breyst án viðvörunar.


Jarðskjálftavirkni í eldstöðinni Reykjanes. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er ekkert sem bendir til þess að kvika sé farin að leita upp á yfirborðið þegar þessi grein er skrifuð. Jarðskjálftahrinan er hinsvegar eitthvað sem þarf að fylgjast með þar sem hætta er á sterkum jarðskjálftum á þessu svæði á næstu klukkutímum. Þenslu gögn frá GPS mælingum eru ennþá óljós. Það er einnig jarðskjálftahrina norður af Grindavík en síðustu klukkutímana hefur dregið úr þeirri jarðskjálftavirkni.

Tveir sterkir jarðskjálftar norður af Grindavík

Í dag (18-Júlí-2020) klukkan 05:41 og klukkan 05:56 urður tveir sterkir jarðskjálftar með stærðina Mw3,2 og Mw4,1 í eldstöðinni Reykjanes. Þessir jarðskjálftar fundust í Grindavík og í Reykjanes. Það er ekki neitt komið fram í GPS gögnum sem sýnir þetta kvikuinnskot sem er greinilega farið af stað þarna. Sterkustu jarðskjálftarnir voru aðeins á 2,5 km dýpi.


Jarðskjálftahrinan norðan við Grindavík. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessi kvikuinnskot eru núna orðin endurtekin og það bendir sterklega til þess að þarna muni eldgos eiga sér stað. Það sem ekki er hægt að segja til um að hvenær slíkt eldgos yrði en væntanlega kæmu fram fleiri jarðskjálftar áður en að eldgosi yrði. Núverandi dýpi minni jarðskjálfta er frá 8 km til 0,1 km. Jarðskjálftar sem eiga sér stað á grunnu dýpi eru væntanlega bara jarðskjálftar sem eiga sér stað í jarðskorpunni vegna spennubreytinga og þrýstibreytinga vegna kviku sem er dýpra á þessu svæði. Það er ennþá hætta á mjög stórum jarðskjálfta á þessu svæði.

Jarðskjálftahrina í eldstöðinni Reykjanes norð-austur af Grindavík

Í gær (9-Júlí-2020) varð jarðskjálftahrina í eldstöðinni Reykjanes. Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu var með stærðina Mw3,3 og ástæða þessar jarðskjálftahrinu var innskot kviku á 4 til 6 km dýpi norð-austan við Grindavík á svæði þar sem virðist vera gömul sprunga á svæðinu.


Jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga nærri Grindavík í gær. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er möguleiki á því að kvikan sem er að valda þessari virkni sé komin eins grunnt og á 3 km dýpi en það er erfitt að vera viss nákvæmlega hver staðan er breytingar á gps gögnum næstu daga ættu að gefa vísbendingar um það hvernig staðan er. Það virðist sem að ekki sé næg kvika á svæðinu til þess að koma af stað eldgosi en það er einnig mögulegt að aðrir óþekktir þættir séu að valda því að kvikan sé ekki að leita til yfirborðs eins og stendur.

Snögg aukning í jarðskjálftum í Þorbirni (Reykjanes/Svartsengi eldstöðvum)

Í morgun (13-Júní-2020) um klukkan 06:00 jókst jarðskjálftavirkni í Þorbirni norðan við Gríndavík. Þéttasta hrina af jarðskjálftum var vestan við Bláa lónið og á öðrum nálægum svæðum. Þær eldstöðvar sem eru virkar hérna eru Reykjanes og Svartsengi (enginn síða á Global Volcanism Program). Kort er hægt að finna hérna og hérna (sjá höggunarkort).


Svæði þar sem jarðskjálftahrinur hafa orðið síðustu daga við Grindavík. Hægt er að skoða kortið hérna. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.


Jarðskjálftahrinan við Grindavík. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn sem hefur orðið þegar þessi grein er skrifuð var með stærðina Mw3,5 klukkan 20:27 en þar sem þessi jarðskjálftahrina er ennþá í gangi þá gæti þessi tala breyst án nokkurar viðvörunar.

Það var einnig umtalsverður hávaði á óróaplottinu næst upptökum jarðskjálftahrinunnar. Það bendir til þess að eitthvað sé í gangi en ég veit ekki hvað það gæti verið eins og stendur. Bláa línan verður þykkari þegar jarðskjálftahrinan er í gangi.


Óróaplottið þegar jarðskjálftahrinan gekk yfir. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það hefur ekki orðið nein breyting á GPS (gögnin er hægt að skoða hérna) þegar þessi grein er skrifuð. Það gæti hinsvegar breyst á næstu dögum.