Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.
Staðan í eldgosinu er sú að í dag fór að gjósa á nýrri sprungu eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Þetta er í raun þrjár sprungur, en hugsanlegt er að þær muni renna saman í eina sprungu með tímanum ef það gýs þarna nógu lengi. Sigdældir hafa sést í Dyngjuökli fyrir sunnan núverandi eldgos og leiðni er farin að aukast í Jökulsá á fjöllum. Það bendir til þess að jarðhiti eða hugsanlega eldgos sé hafið undir jökli. Það verður þó ekki ljóst alveg strax.
Þenslan heldur áfram í kvikuinnskotinu eins og sést vel á mælingum Háskóla Íslands og er hægt að skoða hérna. Sjá einnig mynd hérna fyrir neðan.
GPS færsla samkvæmt mælingum Háskóla Íslands. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Háskóla Íslands.
Jarðskjálftavirkni heldur áfram í Bárðarbungu sjálfri og eiga sér þar bæði stórir og litlir jarðskjálftar. Stærsti jarðskjálftinn síðan á miðnætti var með stærðina 5,3 og varð hann í öskjubarmi Bárðarbungu. Það eru engin merki um að núverandi eldgos sé að fara að enda eða að stutt sé í enda á núverandi atburðarrás.
Ég mun setja inn nýjar upplýsingar ef þörf er á því. Annars er mikið fjallað um þetta í fjölmiðlum og hefur það dregið úr þörf minni að skrifa um þessa atburði nema að eitthvað óvænt gerist.