Staðan í Bárðarbungu Miðvikudaginn 05-Nóvember-2014

Hérna er stutt yfirlit yfir stöðuna í Bárðarbungu Miðvikudaginn 05-Nóvember-2014.

Það hafa ekki orðið neinar stórkostlegar breytingar í eldgosinu í Bárðarbungu síðan á Mánudaginn 03-Nóvember-2014. Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með svipuðum hætti og það hefur verið að gera síðustu tvo mánuði. Jarðskjálftavirkni er ennþá mjög mikil í Bárðarbungu eins og hefur verið og virðist lítið draga úr jarðskjálftavirkninni, flestir jarðskjálftarnir sem verða eru með stærðina 3,0 – 4,9. Það er munur á milli fjölda jarðskjálfta sem verða milli daga.

141105_2105
Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutímana. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er ennþá stórhættulegt að fara upp að eldgosinu vegna eiturgass sem þar er að finna eins og tveir lögreglumenn komust að í gær samkvæmt fréttum. Þeir lentu í vasa af gasi sem olli litlu súrefni á svæði í kringum þá, samkvæmt fréttum þá voru þeir við brún hraunsins þegar þetta gerðist. Það nærri því leið yfir þá samkvæmt fréttum Rúv vegna skorts á súrefni. Þessir lögreglumenn voru víst að nota gasgrímur eins og á að gera nærri eldgosinu.

Askja Bárðarbungu heldur áfram að síga á svipuðum hraða og áður, núna er mesta sig Bárðarbungu rúmlega 44 metrar þar sem það er mest. Katlar í Vatnajökli sem liggur ofan á Bárðarbungu halda áfram að dýpka og hafa dýpkað um 5 – 8 metra á síðustu 11 dögum samkvæmt síðustu mælingum. Samkvæmt útreikningum vísindamanna þá er bráðnuninn rúmlega tveir rúmmetrar á sekúndu (m³/sek). Þetta jafngildir orku upp á nokkur hundruð megavött samkvæmt útreikningum jarðfræðinga hjá Háskóla Íslands. Vegna þess að núna er vetrarfærð á svæðinu er mjög erfitt að komast þangað og tekur ferð aðra leiðina að minnsta kosti sjö klukkutíma á bíl við bestu aðstæður.

Að öðru leiti þá held ég að ekkert frekar sé að frétta af stöðu mála í Bárðarbungu þessa stundina.

Fréttir

Lögreglumenn urðu fyrir súrefnisskorti (Rúv.is)
Færð gerir vísindamönnum erfitt fyrir (Rúv.is)

Minniháttar jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg þann 04-Nóvember-2014

Þann 04-Nóvember-2014 varð minniháttar jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg. Í kringum fjórir jarðskjálftar mældust í þessari jarðskjálftahrinu.

141105_2040
Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg þann 04-Nóvember-2014. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þetta er á sama stað og jarðskjálftahrinan sem varð þarna þann 27-Október-2014 og ég fjallaði um hérna. Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu hafði stærðina 3,3, aðrir jarðskjálftar voru minni.