Í gær (02. Mars 2024) klukkan 15:57 hófst kvikuinnskot í Sundhnúkagíga. Þessu kvikuinnskoti lauk um klukkan 17:57. Það mældust um 150 jarðskjálftar í þessu kvikuinnskoti og þetta kvikuinnskot kom ekki af stað eldgosi en gæti verið vísbending um það hvar næsta eldgos verður.
Þetta er mjög snemma, en það virðist sem að þetta kvikuinnskot hafi breytt sigdalnum sem það átti sér stað í. Þá með því að valda færslu í honum eða koma af stað öðrum breytingum. Þessi sigdalur myndaðist þann 10. Nóvember 2023 (Veðurstofan er með mynd af þessum sigdal hérna). Þetta kvikuinnskot getur einnig hafa komið af stað færslum í sigdalnum sem myndaðist þann 14. Janúar 2024 (Veðurstofan er með mynd af þeim sigdal hérna, Veðurstofan hefur merkt þann sigdal með bláum lit). Þessir sigdalir og allt sem þeim fylgir er að gera jarðfræðina á þessu svæði mjög flókna, enda er efsta lag jarðskorpunnar þarna orðið kross sprungið og því getur verið einfalt fyrir kvikuna að leita upp á yfirborðið án mikillar mótstöðu.
Það er ekki hægt að segja til um það hvenær næsta eldgos hefst. Það er mitt álit að næsta eldgos muni hefjast á milli 3 til 5. Mars. Það er alltaf möguleiki á því að ég hafi rangt fyrir mér.