Staðan við Sundhnúkagíga þann 22. Desember klukkan 21:38

Þetta er stutt grein um stöðu mála við Sundhnúkagíga eftir því sem ég best veit. Þessi grein getur orðið úrelt án viðvörunnar. Þessi grein er skrifuð þann 22. Desember 2023 klukkan 21:39.

Þenslan er hafin aftur í eldstöðinni Svartsengi og það virðist sem að þenslan hafi jafnvel hafist áður en eldgosinu lauk við Sundhnúkagíga. Þegar þessi grein er skrifuð, þá er þenslan aðeins um 5 til 8mm á dag, áður en eldgosið hófst þá var þenslan um 10mm á dag en það hafði hægst talsvert á þenslunni áður en það fór að gjósa og nýtt kvikuinnskot myndast. Það munu ekki öll kvikuinnskot koma af stað eldgosum en plássið fyrir kvikuna er mjög lítið eftir kvikuinnskotið sem varð þann 10. Nóvember. Þar sem það kvikuinnskot virðist hafa notað upp allt plássið í jarðskorpunni í sigdalnum á þessu svæði þar sem sigdalurinn myndaðist þann 10. Nóvember 2023.

Rauðir og appelsínugulir punktar í sigdalnum í dag sem sýnir mjög mikla virkni sem er þarna að eiga sér stað.
Jarðskjálftavirkni í sigdalnum við fjallið Þorbjörn. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftavirkni jókst í sigdalnum um leið og það fór að draga úr eldgosinu í Sundhnúkagígum. Það þýðir að mínu áliti að kvikan í Svartsengi er að leita sér að leið út og reyna að gjósa öll á sama tíma, eða mögulega eins nálægt því og hægt er. Það virðist sem að 4,1 km löng sprungan sem myndaðist í eldgosinu þann 18. Desember hafi ekki verið nóg fyrir þann þrýsting sem er í eldstöðinni Svartsengi þegar þessi grein er skrifuð. Þetta er áhugavert en gæti einnig verið vísbending um það að þetta svæði sé að verða mjög hættulegt. Ég tek það einnig fram að ég veit ekki hvort að þetta gerist, þar sem vísbendingar eru eitt og síðan það sem gerist er allt annað.

Ef eitthvað gerist. Þá mun ég skrifa nýja grein eins fljótt og ég get.