Aukin virkni í Tungnafellsjökli

Ég hef ekki tíma til þess að skrifa mjög langa grein um virknina í Tungnafellsjökli. Það kemur til vegna vinnu og skóla á morgun hjá mér.

Í gær (23-September-2015) varð jarðskjálftahrina í Tungnafellsjökli. Stærsti jarðskjálfinn var með stærðina 3,0 en aðrir jarðskjálftar voru minni að stærð. Flestir þeir jarðskjálftar sem hafa átt sér stað hafa verið minni að stærð. Þeir jarðskjálftar sem sjást á jarðskjálftamælinum mínum virðast sumir vera lágtíðni jarðskjálftar. Það bendir til þess að kvika sé að valda þessum jarðskjálftum, frekar en spennubreytingar í jarðskorpunni.

150923_2255
Jarðskjálftavirknin í Tungnafellsjökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er viðhorf Veðurstofu Íslands að þessi jarðskjálftavirkni sé vegna spennubreytinga í jarðskorpunni vegna eldgossins í Bárðarbungu. Það mat er rétt, það sem hinsvegar flækir myndina umtalsvert meira er sú kvika og sú kvikusöfnun sem á sér núna stað í Tungnafellsjökli og er einnig að valda jarðskjálftum í eldstöðinni. Engin skráð eldgos hafa komið frá Tungnafellsjökli á sögulegum tíma. Þannig að ekki er hægt að segja til um hegðun Tungnafellsjökuls áður en eldgos hefst. Hvort að þessi kvikusöfnun leiðir til eldgoss er spurning sem ekki er hægt að svara.

Jarðskjálftavirkni í Kötlu

Í dag (22-September-2015) var jarðskjálftavirkni í Kötlu. Stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 3,3 og var á dýpinu 0,1 km. Þeir jarðskjálftar sem áttu sér stað voru lágtíðini jarðskjálftar eftir því sem mér sýndist á jarðskjálftamælunum mínum í lágri upplausn. Aðrir jarðskjálftar voru minni í þessari jarðskjálftahrinu.

150922_2015
Jarðskjálftavirknin í Kötlu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Í síðustu viku varð jarðskjálftahrina í Kötlu á dýpinu 15 – 24 km (í kringum það). Ég skrifaði ekki um þá jarðskjálftahrinu en ég fylgist með, en þessi jarðskjálftavirkni þróaðist ekki útí neitt áhugavert eða hættulegt. Þess vegna skrifaði ég ekki um þessa jarðskjálftahrinu þá. Ég veit ekki hvort að þessir atburðir eru tengdir. Hugsanlegt er að þessi jarðskjálftahrina eigi upptök sín í breytingum á jarðhitakerfi Kötlu, einnig er hugsanlegt að um sér að ræða hefðbundna virkni í eldstöðinni. Eins og staðan er núna þá er ekki að sjá neinar breytingar í Kötlu.

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Í dag (21-September-2015) hefur verið lítil jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg. Stærsti jarðskjálftinn sem hefur orðið var með stærðina 3,5 og aðrir jarðskjálftar sem þarna hafa orðið verið minni að stærð.

150921_2325
Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er erfitt að segja til um það hvað gerist þarna, þar sem jarðskjálftahrinur á þessu svæði eiga það til að deyja út hægt og rólega. Þær geta þó aukist einnig á jafn einfaldlegan hátt. Það er vonlaust að vita hvort gerist þarna.

Aukin virkni í Bárðarbungu og Tungnafellsjökli

Ég hef því miður ekki tíma til þess að skrifa langa grein um þessa virkni í Bárðarbungu eða Tungnafellsjökli.

Það sem ég sé núna er að kvika virðist vera að auka þrýsting í Tungnafellsjökli, sem veldur á móti auknum jarðskjálftum í eldstöðinni, stærstu jarðskjálftarnir hafa náð stærðinni 2,9 en aðrir jarðskjálftar hafa verið minni. Þeir jarðskjálftar sem ég sé á mínum jarðskjálftamælum bera þess merki að kvika hafi búið þá til (lágtíðni jarðskjálftar). Þessa stundina er ég ekki með góða upplausn á þessa jarðskjálfta.

Það hefur einnig verið jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu í dag (21-September-2015). Það er ekki alveg ljóst hvort að sú jarðskjálftavirkni stafar útaf innflæði kviku í Bárðarbungu eða útflæði kviku. Stærsti jarðskjálftinn í dag hafði stærðina 3,2 en aðrir jarðskjálftar voru minni að stærð. Þetta var mjög lítil jarðskjálftavirkni og óvíst hvort að þessi virkni tákni eitthvað.

150921_2235
Jarðskjálftavirknin í Tungnafellsjökli og Bárðarbungu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftavirknin í Tungnafellsjökli mun líklega halda áfram og aukast að mínu mati. Ég er ekki viss hvað gerist í Bárðarbungu eins og stendur.

Áhugaverð virkni í Hamrinum (Bárðarbunga) og Tungnafellsjökli

Í gær (11-September-2015) átti sér stað áhugaverð virkin í Hamrinum (sjá undir Bárðarbunga). Hamarinn er eldstöð sem er innan sprungusveims Bárðarbungu. Hamarinn er hugsanlega tengdur eldstöðinni Bárðarbungu en sönnunargöng fyrir því eru mjög veik. Þó benda söguleg gögn til þess að oft gjósi í Hamrinum á svipuðum tíma og í Bárðarbungu. Annað slíkt dæmi er eldstöðin Þórðarhyrna í sprungusvarmi Grímsfjalls.

Sú jarðskjálftahrina sem hófst í Hamrinum byrjaði með litlum jarðskjálfta á 22,3 km dýpi. Nokkrir grunnir jarðskjálftar áttu sér stað á undan þessum jarðskjálfta, en þeir tengjast líklega breytingum í jarðhitakerfi Hamarsins á undan jarðskjálftanum. Þessi staki jarðskjálfti kom af stað hrinu jarðskjálfta á minna dýpi, það bendir til þess að þrýstingur inní eldstöðinni sé orðinn hár, hversu hár er ómögulegt að segja til um, það er einnig ekki hægt að segja til um það hversu nálægt eldgosi eldstöðin er. Miðað við þær vísbendingar sem ég er að sjá núna, þá er útlitið ekki gott að mínu mati. Síðast varð lítið eldgos í Hamrinum í Júlí-2011. Ég skrifaði um það á ensku hérna, hérna og hérna.

150911_2215
Það svæði sem er núna virkt í Hamrinum. Jökulinn á þessu svæði er í kringum 300 til 400 metra þykkur. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

jok.svd.11.09.2015.at.22.48.utc
Þeir jarðskjálftar sem eiga sér stað í Hamrinum eru lágtíðni jarðskjálftar (grænir og rauðir toppar). Einnig sést óróatoppur á græna bandinu, ég veit ekki afhverju sá órói varð en hann virðist ekki koma fram á bláa og rauða bandinu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

skr.svd.11.09.2015.at.22.49.utc
Óróatoppurinn sést ekki á SIL stöðinni í Skrokköldu. Ég er ekki viss um afhverju það er. Jarðskjálftavirkni sést mjög vel. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Virkni í Tungnafellsjökli

Það hefur einnig verið áhugaverð jarðskjálftavirkni í Tungnafellsjökli. í gær (11-September-2015) varð jarðskjálftahrina í Tungnafellsjökli. Jarðskjálftahrinan hófst á jarðskjálfta á 12,3 km dýpi og varð öll á svipuðu dýpi í kjölfarið. Þetta bendir til þess að kvikuinnskot hafi átt sér stað í dag á þessu svæði. Hvenær slíkt gæti er ekki hægt að spá fyrir um. Það er einnig hugsanlegt að kvika sér á minna dýpi nú þegar vegna þeirrar virkni sem átti sér stað í kringum eldgosið í Bárðarbungu.

150911_2215
Jarðskjálftavirknin í Tungnafellsjökli. Tungnafellsjökull er fyrir norðan Bárðarbungu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu hafði stærðina 1,9. Þetta var einnig grynnsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu. Eftir því sem ég best veit þá hafa ekki orðið neinar yfirborðsbreytingar í Tungnafellsjökli eftir því sem ég kemst næst. Það verða ekkert alltaf yfirborðsbreytingar í eldstöðvum (hverir og jarðhiti) áður en eldgos hefst.

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Í gær (10-September-2015) varð lítil jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg. Stærsti jarðskjálftinn í þessari hrinu var með stærðina 3,1 en aðrir jarðskjálftar voru minni.

150911_2045
Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg í gær. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinur á Reykjaneshrygg hefjast stundum rólega. Það er því hætta á að þarna verði frekari jarðskjálftavirkni fljótlega.

Yfirlit yfir litlar jarðskjálftahrinur á Íslandi

Síðustu daga hafa verið litlar jarðskjálftahrinur á nokkrum stöðum á Íslandi. Enginn af þessum jarðskjálftahrinum hefur verið stór og enginn jarðskjálfti hefur farið yfir stærðina 3,0.

150905_2125
Jarðskjálftahrinunar á Tjörnesbrotabeltinu, Reykjanesinu, Bárðarbungu og Torfajökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Flestir þeirra jarðskjálfta sem hafa átt sér stað síðustu daga hafa orðið í Bárðarbungu. Jarðskjálftavirkni hefur verið stöðug í eldstöðinni síðan eldgosinu lauk í Febrúar-2015. Lítil jarðskjálftahrina átti sér stað á Tjörnesbrotabeltinu, enginn jarðskjálftana sem varð þar náði stærðinni 2,0. Mesta dýpi jarðskjálfta var 22,8 km. Hugsanlegt er að kvika hafi verið þarna að verki, á þessu svæði er sigdalur. Það eru ekki neinar skráðar heimildir um eldgos á þessu svæði. Það þýðir þó ekki að þarna hafi ekki orðið eldgos. Jarðskjálftahrina varð einnig á Reykjanesi og einn jarðskjálfti þar náði stærðinni 2,8. Sú jarðskjálftahrina varð í eldstöðvarkerfi Krýsuvíkur. Þó lítur út fyrir að þessi jarðskjálftahrina sé tengd virkni í jarðskorpunni heldur en hreyfingum kviku á svæðinu.

Jarðskjálftahrina hefur einnig verið á svæði milli Torfajökuls og Kötlu. Það er ekki ljóst afhverju þessi jarðskjálftahrina er að eiga sér stað eða hvorri eldstöðinni hún tilheyrir, ég er ekki með jarðfræðikortin mín þannig að ég get ekki gáð að því. Það er möguleiki á því að þessi jarðskjálfthrina sé á jaðri annars hvors þessara eldstöðvakerfa.

Annars hefur verið rólegt á Íslandi síðustu vikur og það eru góðar líkur á því að þessi rólegheit muni vara næstu vikur til mánuði.

Jarðskjálftar nærri Jan Mayen

Í dag (01-September-2015) urðu tveir jarðskjálftar nærri Jan Mayen. Fjarlægðin frá Íslandi er í kringum 360 km. Það er hugsanlega jarðskjálftahrina í gangi á þessu svæði en vegna fjarlægðar frá næsta jarðskjálftamælaneti þá er ólíklegt að hrinan muni mælast. Þessir jarðskjálftar komu ekki fram á NORSAR jarðskjálftamælanetinu.

150901_2105
Jarðskjálftarnir áttu sér stað þar sem grænu stjörnurnar eru. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessir jarðskjálftar voru með stærðina 3,3 og 3,5. Óvíst er með dýpi þar sem að þessir jarðskjálftar eiga sér stað mjög langt frá mælaneti Veðurstofu Íslands. Engir litlir jarðskjálftar mælast á þessu svæði vegna fjarlægðar frá jarðskjálftamælanetum, bæði hjá Íslandi og Noregi. Það er engin byggð í nágrenni við þetta svæði (innan við 100 km).