Aukin virkni í Tungnafellsjökli

Ég hef ekki tíma til þess að skrifa mjög langa grein um virknina í Tungnafellsjökli. Það kemur til vegna vinnu og skóla á morgun hjá mér.

Í gær (23-September-2015) varð jarðskjálftahrina í Tungnafellsjökli. Stærsti jarðskjálfinn var með stærðina 3,0 en aðrir jarðskjálftar voru minni að stærð. Flestir þeir jarðskjálftar sem hafa átt sér stað hafa verið minni að stærð. Þeir jarðskjálftar sem sjást á jarðskjálftamælinum mínum virðast sumir vera lágtíðni jarðskjálftar. Það bendir til þess að kvika sé að valda þessum jarðskjálftum, frekar en spennubreytingar í jarðskorpunni.

150923_2255
Jarðskjálftavirknin í Tungnafellsjökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er viðhorf Veðurstofu Íslands að þessi jarðskjálftavirkni sé vegna spennubreytinga í jarðskorpunni vegna eldgossins í Bárðarbungu. Það mat er rétt, það sem hinsvegar flækir myndina umtalsvert meira er sú kvika og sú kvikusöfnun sem á sér núna stað í Tungnafellsjökli og er einnig að valda jarðskjálftum í eldstöðinni. Engin skráð eldgos hafa komið frá Tungnafellsjökli á sögulegum tíma. Þannig að ekki er hægt að segja til um hegðun Tungnafellsjökuls áður en eldgos hefst. Hvort að þessi kvikusöfnun leiðir til eldgoss er spurning sem ekki er hægt að svara.