Breytingar á jarðskjálftamælanetinu á næsta ári (2016)

Ég hef tekið þá ákvörðun að gera umtalsverðar breytingar á jarðskjálftamælanetinu á næsta ári (2016) sem ég er núna með. Ástæðan er sú að ég get ekki rekið jarðskjálftanetið á Íslandi vegna þeirra breytinga sem eru að verða í mínu lífi. Ég er þó ekki hættur að mæla jarðskjálfta. Breytinganar eru þessar.

  • Ég mun hætta með jarðskjálftamælinn í Böðvarshólum. Bæði vegna kostnaðar við 3G tengingar og vegna þess að breytingar eru að eiga sér stað þar. Nú þegar hafa átt sér stað breytingar og hafa valdið mér smá vandræðum. Ég hef getað lagað það eingöngu vegna þess að ég er á svæðinu. Síðan reikna ég ekki með því að geta verið með jarðskjálftamælinn þarna lengur en til ársins 2017 eða 2018.
  • Jarðskjálftamælirinn í Heklubyggð verður ennþá í gangi á næstu árin. Ég veit ekki hversu lengi ég mun geta haft jarðskjálftamælinn þarna í viðbót. Þar sem það veltur á eiganda sumarbústaðarins sem hýsir jarðskjálftamælinn fyrir mig.
  • Ég hef hætt við að setja upp annan jarðskjálftamæli á Hvammstanga. Vegna þess að ég fann ekki almennilegan stað fyrir jarðskjálftamælinn og kostnaðurinn við að koma honum af stað er mjög mikill. Ég mun vera með jarðskjálftamæli á Hvammstanga á meðan ég bý þar til ársins 2017 eða 2018 (í lengsta lagi). Sá jarðskjálftamælir er sá sem ég er alltaf með heima hjá mér.

Kostnaðurinn við 3G tengingar hefur farið hækkandi á Íslandi síðustu árin og ég reikna með að það muni ekki breytast á næstu árum. Það er einnig mjög erfitt að gera við jarðskjálftamælinn ef eitthvað bilar. Þar sem ég hef ekki neinn aðgang að fjarstöðvum eftir að ég er fluttur til Danmerkur. Síðan munu koma upp vélbúnaðarbilanir sem erfitt er að eiga við þegar ég er fluttur til Danmerkur, auk annara bilana sem ég þarf að fást við í svona verkefni. Það var alveg ljóst þegar ég byrjaði á þessu að ég mundi ekki reka þetta mælanet um alla framtíð. Þó svo að ég gjarnan vildi það. Ég hef einfaldlega ekki peninga í slíkt verkefni endalaust. Einnig sem að það eru að verða breytingar á lífinu hjá mér og ég hef fundið minn stað í tilverunni og sá staður er í Danmörku (í Padborg). Ég ákvað árið 2007 að flytja til Danmerkur en var ekki viss um hvar ég vildi vera í upphafi. Ég er núna búinn að taka endanlega ákvörðun um það.

Ég ætla mér ekki að hætta að mæla jarðskjálfta. Ég mun hinsvegar eingöngu gera það í Danmörku (þegar ég verð alveg hættur jarðskjálftamælingum á Íslandi) og þá að mestu leiti mjög fjarlæga jarðskjálfta. Ég stefni á að kaupa Volksmeter í framtíðinni þegar ég hef efni á honum (kostar í kringum $2000 / 271.560 kr) til þess að mæla fjarlæga jarðskjálfta. Að mæla jarðskjálfta í Danmörku er öðruvísi en á Íslandi, þar sem eingöngu mælast 1 til 3 jarðskjálftar í Danmörku þegar mikið er að gerast. Í staðinn ætla ég að einbeita mér að því að mæla mjög fjarlæga jarðskjálfta sem verða á Jörðinni.

Mun hugsanlega opna nýja vefsíðu

Ég er að spá í að opna nýja vefsíðu um þá stóru jarðskjálfta sem verða stundum í heiminum. Ég er ekki endanlega búinn að taka ákvörðun um það á þessari stundu. Ef ég opna þessa vefsíðu, þá verður sú vefsíða á sínu eigin léni frekar en undirvefsíða á jonfr.com. Ég veit ekki hver áhuginn yrði á slíkri vefsíðu ennþá. Það er nú þegar talsvert um vefsíður sem fjalla um stóra jarðskjálfta sem verða í heiminum. Þessi vefsíða yrði eingöngu á ensku ef ég byrja með hana.