Jarðskjálftahrina langt norður af Kolbeinsey

Í morgun (14-Apríl-2021) varð jarðskjálftahrina langt norður af Kolbeinsey. Stærsti jarðskjálftinn sem mældist var með stærðina Mw3,5 en var hugsanlega stærri en vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu þá er stærðin hugsanlega vanmetin. Ég mældi stærsta jarðskjálftann á eina jarðskjálftamælinn sem ég er með og þar sást mikið af yfirborðsbylgjum sem bendir til þess að stærð jarðskjálftans var hugsanlega stærri en Mw3,5.

Grænar stjörnur langt norður af Kolbeinsey þar sem jarðskjálftavirknin varð í morgun
Jarðskjálftavirknin langt norður af Kolbeinsey í morgun. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Vegna þess hversu afskekkt þetta svæði er þá er ekki hægt að vita hvað er að gerast þarna. Svæðið er einnig undir sjó sem er 2 til 4 km djúpur. Ef eitthvað gerist þá mun það ekki sjást fyrir utan það sem kemur fram á mælitækjum.