Kröftug jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu

Í gær (28-Janúar-2018) hófst kröftug jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu. Jarðskjálftahrinan er ennþá í gangi og því má búast við að tölur sem eru í þessari grein breytist fljótlega. Það á einnig við fjölda jarðskjálfta og stærð þeirra. Þegar þessi grein er skrifuð er stærsti jarðskjálftinn með stærðina 4,1 (varð klukkan 07:49) og annar stærsti jarðskjálftinn sem varð er með stærðina 3,5 (varð klukkan 08:11). Fyrri jarðskjálftinn vakti fólk af svefni og fannst víða samkvæmt fréttum. Það voru engar slíkar tilkynningar varðandi seinni jarðskjálftann.


Jarðskjálftahrinan á Tjörnesbrotabeltinu. Stærstu jarðskjálftarnir eru merktir með grænum stjörnum. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Enginn af þeim jarðskjálftum sem hafa komið fram eftir tvo stærstu jarðskjálftana hafa náð stærðinni 3,0 hingað til. Þegar þetta er skrifað hafa yfir 130 jarðskjálftar átt sér stað. Þessi jarðskjálftahrina virðist eingöngu vera í jarðskorpunni og ekkert sem bendir til þess að hérna sé um að ræða jarðskjálftavirkni sem tengist kvikuhreyfingum.