Kvikuinnskot staðfest í Öræfajökli

Nýlegar mælingar hafa staðfest kvikuinnskot í Öræfajökli, þetta kvikuinnskot er í suðurhluta Öræfajökuls og er það svæði að sýna þenslu þessa dagana. Þessa stundina er áætlað að það magn kviku sem er að koma upp í eldstöðina sé rúmlega það magn sem gaus í Eyjafjallajökli árið 2010. Þessa stundina er kvikuinnskotið á dýpi sem er á bilinu 2 til 6 km og það útskýrir aukna jarðhitavirkni í Öræfajökli og afhverju þessi jarðhitavirkni er að aukast þessa dagana. Hversu lengi þessa staða mun vara er ekki vitað þessa stundina. Öræfajökull er eldkeila og hagar sér sem slíkt, hægt er að lesa frekar um eldkeilur hérna og hérna.


Jarðskjálftavirkni í Öræfajökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Í síðustu viku voru mældir 160 jarðskjálftar í Öræfajökli og er það metfjöldi jarðskjálfta sem hafa mælst í Öræfajökli síðan mælingar hófst (árið 1995?). Þessa stundina þá virðist jarðskjálftavirkni vera stöðug en það er ekki hægt að segja til um það hvenær það breytist.

Vefmyndavélar

Það eru komnar tvær vefmyndavélar sem sýna Öræfajökul. Þessir tenglar eru þannig að þeir virka aðeins í takmarkaðan tíma.

Vefmyndavél á Fagurhólsmýri (virkar aðeins tímabundið)
Vefmyndavél á brú (virkar aðeins tímabundið)

Styrkir

Þeir sem vilja styrkja mig geta gert það með tvennum hætti. Annað hvort notað PayPal takkana hérna til hliðar eða með því að fara á síðuna styrkir og fylgja þar bankaupplýsingum til þess að leggja inn á mig. Takk fyrir stuðninginn. 🙂

Lítið jökulhlaup frá Grímsvötnum

Í dag (11-Maí-2015) hófst lítið jökulhlaup frá Grímsvötnum. Þetta jökulhlaup er ekki hættulegt. Það sem er þó hættulegt við það eru þær gastegundir sem losna núna útí loftið. Þessar gastegundir eru hættulegar ef fólk fer of nálægt jökulánni Gígukvísl, sérstaklega þar sem flóðið kemur undan jökli. Hættan er sú að fólk skaði í sér augun og lungun vegna brennisteinssambanda í loftinu sem fylgja þessu flóði auk annara tegunda af gasi.

grf.svd.11.05.2015.at.20.47.utc
Óróinn í Grímsvötnum þessa stundina. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessi aukni órói í Grímsvötnum á líklega uppruna sinn í háhitasvæðum undir jöklinum sem sjóða núna þegar þrýstingurinn fellur skyndilega af þeim. Auk óróans frá hlaupinu sjálfu. Það er ekkert sem bendir til þess núna að eldgos sé að fara að hefjast í Grímsvötnum á þessari stundu.

Fréttir af jökulhlaupinu

Lítið hlaup í Gígjukvísl (Rúv.is)

Jarðskjálftavirkni í Öskju

Í þessari viku (vika 18) hefur verið talsvert um jarðskjálfta í Öskju. Allir þeir jarðskjálftar sem hafa átt sér stað hafa verið litlir og ekki farið yfir stærðina 2,0 eftir því sem ég kemst næst.

150502_1850
Jarðskjálftavirkni í Öskju (neðst á myndinni). Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er ekkert sem bendir til þess að núverandi jarðskjálftavirkni í Öskju sé vegna kvikuhreyfinga í eldstöðinni. Þetta virðist frekar vera vegna breytinga í jarðhita sem þarna eru að eiga sér stað vegna aukinnar kviku innan í eldstöðinni, en þessi aukna kvika hitar upp það grunnvatn sem er inní eldstöðinni og jarðlögum. Aukin hveravirkni og jarðhiti hefur verið skráð áður en eldgos hófust áður fyrr. Það sem er óljóst er hversu lengi þetta ferli varir, þar sem skráning á slíkum atriðum er ekki örugg eða góð eftir því sem ég kemst næst.

Askja hóf að undirbúa eldgos árið 2010 en eins og staðan er í dag þá er ekkert sem bendir til þess að eldgos sé yfirvofandi. Það er hinsvegar óljóst hvort að þrýstingur frá Bárðarbungu hafi breytt einhverju í Öskju og aukið hættuna á eldgosi.

Hugsanlegt smágos í jaðri öskju Báðarbungu

Það virðist sem að hugsanlegt smágos hafi orðið undir jökli í Bárðarbungu um klukkan 21:22 (þann 29-Janúar-2015). Hugsanlegt er að eldgosið hafi átt sér stað einhverstaðar í barmi öskju Bárðarbungu. Ég hef hinsvegar ekki neina staðfestinu á þessu eins og er, en þetta er hinsvegar það sem óróagögnin benda til. Óróinn sem fylgdi þessu varði í rúmlega 30 til 55 mínútur samtals. Ef það bráðnaði mikill jökull vegna þessa þá ætti vatnið að koma undan Vatnajökli á næstu 8 til 18 klukkutímum eftir því hvaða leið það fer undir jöklinum, mestar líkur eru á því að það fari í Jökulsá á Fjöllum. Jarðskjálftahrina fylgdi þessu litla eldgosi og var stærsti jarðskjálftinn með stærðina í kringum 4,5 samkvæmt sjálfvirkum mælingum.

150129_2350
Jarðskjálftahrinan í Bárðarbungu (rauðu punktanir) sem fylgdu óróanum frá þessum atburði. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

dyn.svd.29.01.2015.at.23.55.utc
Óróinn eins og hann kom fram á SIL stöðinni í Dyngjuhálsi. Óróinn sést við endann á þessu óróaplotti þar sem toppurinn er. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

skr.svd.29.01.2015.at.23.45.utc
Óróinn kom greinilega fram á SIL stöðinni á Skrokköldu. Toppurinn sést greinilega þrátt fyrir annað sem sést greinilega. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

dyn1_trem.svd.29.01.2015.at.23.58.utc Há upplausn af óróanum sýnir greinilega þetta smá eldgos sem varð undir jöklinum í kvöld. Þetta er greinilega merki um eldgos undir jökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ef mun bæta hingað inn eða skrifa nýja grein ef eitthvað meira gerist. Ég mun skrifa um jarðskjálftana á Reykjaneshrygg á morgun.

Staðan í Bárðarbungu Miðvikudaginn 12-Nóvember-2014

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram án mikilla breytinga og ekki mikil breyting á eldgosinu síðan á Mánudaginn 10-Nóvember-2014. Vont veður hefur komið í veg fyrir að hægt sé að fylgjast almennilega með eldgosinu í Holuhrauni síðustu daga, hinsvegar er ekkert sem bendir til þess að eldgosinu í Holuhrauni sé að ljúka. Hrauntjörn hefur myndast þarna og er hún rúmlega 400 metra löng og í kringum 100 metra breið. Þetta er fyrsta hrauntjörnin á Íslandi í mjög langan tíma, ég veit ekki hversu langt síðan það er síðasta hrauntjörn kom fram á Íslandi, en það er mjög langt síðan.

141112_2255
Jarðskjálftar í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutíma. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu heldur áfram með svipuðum hætti og hefur verið síðasta tvo og hálfan mánuð. Þessi jarðskjálftavirkni þýðir að askja Bárðarbungu heldur áfram að síga með svipuðum hætti og áður. Ég veit ekki hversu mikið svæðið hefur stækkað sem er núna að síga, en ég tel víst að vegna veðurs hafi ekki tekist að mæla það almennilega. Eins og stendur er ekkert sem bendir til breytinga í GPS gögnum á þeirri atburðarrás sem er núna í gangi. Samkvæmt fréttum þá eru víst nýjar sprungur farnar að myndast sunnan við núverandi eldgos í Holuhrauni. Þetta þýðir að rekið sem þarna er hafið er ennþá í gangi að fullum krafti. Þetta þýðir einnig að eldgos getur hafist sunnan við núverandi eldgos án nokkurs fyrirvara. Sérstaklega þar sem kvikan liggur mjög grunnt, eða á 1 til 2 km dýpi, það er einnig möguleiki að kvikan sé á ennþá grynnra dýpi en þetta næst gígnum sem er núna að gjósa (án þess að hafa komið upp í eldgosi).

Tungafellsjökull

Jarðskjálftavirkni virðist vera að aukast í Tungafellsjökli. Væntanlega er hérna um að ræða spennubreytingar í jarðskorpunni sem eru að valda þessum jarðskjálftum. Ég er ekki að sjá neinn sem bendir til þess að eldgos sé að fara að hefjast í Tungafellsjökli á þessari stundu. Jarðskjálftavirkni mun líklega aukast á næstu dögum og vikum í Tungafellsjökli.

Staðan í Bárðarbungu Mánudaginn 10-Nóvember-2014

Það hefur lítið breyst í Holuhrauni síðan á Föstudaginn 07-Nóvember-2014. Stærð hraunsins í Holuhrauni er núna í kringum 70 ferkílómetrar og það stækkar á hverjum degi. Ég veit ekki heildarmagn hraunsins í dag, en síðustu útreikningar sem ég sá sýndu að hraunið er núna rúmlega 1,0 km³, en þeir útreikningar eru orðnir rúmlega mánaðargamlir. Það er því öruggt að magn hrauns í Holuhrauni er orðið talsvert meira en síðustu tölur sýndu.

141110_2055
Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutímana. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn sem varð um helgina var með stærðina 5,2. Það voru hinsvegar fjöldinn allur af jarðskjálftum sem voru stærri en 3,0 um helgina eins og hefur verið síðustu tvo mánuði. Jarðskorpan í Bárðarbungu er núna orðin mjög sprungin, það þýðir að jarðhiti á mjög greiða leið upp á yfirborðið. Þetta mun þýða aukningu í jarðhita í Bárðarbungu og aukna virkni í eldri hverum sem eru undir jökli. Það er ekki að sjá neina stóra breytingu í virkninni í Bárðarbungu síðustu dagana frekar en undanfarna tvo mánuði.

Staðan í Bárðarbungu Miðvikudaginn 05-Nóvember-2014

Hérna er stutt yfirlit yfir stöðuna í Bárðarbungu Miðvikudaginn 05-Nóvember-2014.

Það hafa ekki orðið neinar stórkostlegar breytingar í eldgosinu í Bárðarbungu síðan á Mánudaginn 03-Nóvember-2014. Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með svipuðum hætti og það hefur verið að gera síðustu tvo mánuði. Jarðskjálftavirkni er ennþá mjög mikil í Bárðarbungu eins og hefur verið og virðist lítið draga úr jarðskjálftavirkninni, flestir jarðskjálftarnir sem verða eru með stærðina 3,0 – 4,9. Það er munur á milli fjölda jarðskjálfta sem verða milli daga.

141105_2105
Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutímana. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er ennþá stórhættulegt að fara upp að eldgosinu vegna eiturgass sem þar er að finna eins og tveir lögreglumenn komust að í gær samkvæmt fréttum. Þeir lentu í vasa af gasi sem olli litlu súrefni á svæði í kringum þá, samkvæmt fréttum þá voru þeir við brún hraunsins þegar þetta gerðist. Það nærri því leið yfir þá samkvæmt fréttum Rúv vegna skorts á súrefni. Þessir lögreglumenn voru víst að nota gasgrímur eins og á að gera nærri eldgosinu.

Askja Bárðarbungu heldur áfram að síga á svipuðum hraða og áður, núna er mesta sig Bárðarbungu rúmlega 44 metrar þar sem það er mest. Katlar í Vatnajökli sem liggur ofan á Bárðarbungu halda áfram að dýpka og hafa dýpkað um 5 – 8 metra á síðustu 11 dögum samkvæmt síðustu mælingum. Samkvæmt útreikningum vísindamanna þá er bráðnuninn rúmlega tveir rúmmetrar á sekúndu (m³/sek). Þetta jafngildir orku upp á nokkur hundruð megavött samkvæmt útreikningum jarðfræðinga hjá Háskóla Íslands. Vegna þess að núna er vetrarfærð á svæðinu er mjög erfitt að komast þangað og tekur ferð aðra leiðina að minnsta kosti sjö klukkutíma á bíl við bestu aðstæður.

Að öðru leiti þá held ég að ekkert frekar sé að frétta af stöðu mála í Bárðarbungu þessa stundina.

Fréttir

Lögreglumenn urðu fyrir súrefnisskorti (Rúv.is)
Færð gerir vísindamönnum erfitt fyrir (Rúv.is)

Staðan í Bárðarbungu þann 29-September-2014

Hérna er staðan í Bárðarbungu þann 29-September-2014.

Yfirlit yfir stöðuna í Bárðarbungu þann 29-September-2014

  • Stærsti jarðskjálftinn í dag hafði stærðina 5,5 og var á 5,6 km dýpi. Annar stærsti jarðskjálftinn í dag var með stærðina 4,9 og var á 3,1 km dýpi. Aðrir jarðskjálftar voru minni og stærsti jarðskjálftinn í dag fannst á Akureyri og nágrenni.
  • Vegna storms var ekki hægt að gera mælingar eða fylgjast með eldgosinu samkvæmt fréttum. Þar sem jarðvísindamenn komust ekki á svæðið vegna veðurs.
  • Eldgosið í Holuhrauni er búið að vara í næstum því mánuð núna.
  • Þann 29-Ágúst-2014 varð fyrsta eldgosið í Holuhrauni. Það varði aðeins í nokkrar klukkustundir og gaus á sama stað og hafði gosið áður árið 1797 í gamalli gígaröð sem þar er.
  • Vegna slæms veðurs mældust aðeins þeir jarðskjálftar sem náðu upp fyrir vindhávaðann í dag. Þetta var einnig staðan á jarðskjálftamælunum mínum í dag.
  • Hraunið í Holuhrauni er núna stærra en 44 ferkílómetrar að stærð, hversu mikið hraunið hefur stækkað í dag er ekki vitað almennilega vegna slæms veðurs.
  • Bárðarbunga heldur áfram að síga með svipuðum hætti og hefur verið síðan þetta ferli hófst þann 16-Ágúst-2014.
  • Engar frekari upplýsingar um stöðu eldgossins eftir því sem ég kemst næst.

Ég mun setja inn nýjar upplýsingar ef eitthvað gerist í Bárðarbungu.

Minniháttar aukning á leiðni í Múlakvísl

Undanfarna daga hefur verið minniháttar aukning á leiðni í Múlakvísl sem kemur úr Mýrdalsjökli, ástæðan fyrir þessu eru katlar sem koma til vegna háhitasvæða sem eru í Kötlu.

140908_1345
Minniháttar jarðskjálftavirkni í Kötlu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er engin hætta á eldgosi eins og staðan er núna. Þar sem jarðskjálftavirkni í Kötlu er langt fyrir neðan venjulega bakgrunnsvirkni sem er venjulega í Kötlu. Ég reikna með að ástandið í Múlakvísl verði komið í eðlilegt horf eftir nokkra daga.

Jarðskjálftahrina í Kötlu

Fyrir nokkrum dögum síðan aflýstu almannavarnir viðvörunarstigi í kringum jökulár sem renna undan Mýrdalsjökli. Þetta þýðir þó ekki að hættan sé liðin á þessu svæði, þar sem það er ennþá möguleiki á því að hættulegt gas safnist fyrir á svæðum sem liggja lágt í umhverfinu.

140715_1525
Jarðskjálftahrinan í Kötlu í dag. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Í dag (15-Júlí-2014) átti sér stað jarðskjálftahrina í Kötlu. Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu náði stærðinni 3,1, aðrir jarðskjálftar sem áttu sér stað voru minni. Þetta er ein öflugasta jarðskjálftahrinan í öskju Kötlu síðan núverandi jarðskjálftavirkni hófst. Ég reikna fastlega með því að þessi jarðskjálftahrina mundi halda áfram á næstu dögum. Það er einnig mitt mat að þarna sé mikil hætta á litlum eldgosum, sem munu vara í nokkra klukkutíma þó án þess að ná upp úr Mýrdalsjökli. Það skal tekið fram að jarðfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni er ekki sammála þessu mati hjá mér. Á meðan það er mikil hætta á litlum eldgosum (það er eingöngu mín skoðun) í Kötlu, þá þýðir það ekki endilega að slíkt muni gerast. Það er eingöngu hægt að fylgjast með jarðskjálftavirkninni í Kötlu eins og staðan er í dag.

Ef eitthvað meira gerist þá mun ég setja inn uppfærslu um það eins fljótt og hægt er. Ef stór jarðskjálfti mun eiga sér stað í Kötlu þá mun hann koma fram á jarðskjálftamælinum mínum í Heklubyggð, það er hægt að fylgjast með þeim jarðskjálftamæli hérna. Það er einnig vefmyndavél sem vísar á Kötlu / Eyjafjallajökul og er hægt að fylgjast með þeirri vefmyndavél hérna.