Staðan í Bárðarbungu Miðvikudaginn 12-Nóvember-2014

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram án mikilla breytinga og ekki mikil breyting á eldgosinu síðan á Mánudaginn 10-Nóvember-2014. Vont veður hefur komið í veg fyrir að hægt sé að fylgjast almennilega með eldgosinu í Holuhrauni síðustu daga, hinsvegar er ekkert sem bendir til þess að eldgosinu í Holuhrauni sé að ljúka. Hrauntjörn hefur myndast þarna og er hún rúmlega 400 metra löng og í kringum 100 metra breið. Þetta er fyrsta hrauntjörnin á Íslandi í mjög langan tíma, ég veit ekki hversu langt síðan það er síðasta hrauntjörn kom fram á Íslandi, en það er mjög langt síðan.

141112_2255
Jarðskjálftar í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutíma. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu heldur áfram með svipuðum hætti og hefur verið síðasta tvo og hálfan mánuð. Þessi jarðskjálftavirkni þýðir að askja Bárðarbungu heldur áfram að síga með svipuðum hætti og áður. Ég veit ekki hversu mikið svæðið hefur stækkað sem er núna að síga, en ég tel víst að vegna veðurs hafi ekki tekist að mæla það almennilega. Eins og stendur er ekkert sem bendir til breytinga í GPS gögnum á þeirri atburðarrás sem er núna í gangi. Samkvæmt fréttum þá eru víst nýjar sprungur farnar að myndast sunnan við núverandi eldgos í Holuhrauni. Þetta þýðir að rekið sem þarna er hafið er ennþá í gangi að fullum krafti. Þetta þýðir einnig að eldgos getur hafist sunnan við núverandi eldgos án nokkurs fyrirvara. Sérstaklega þar sem kvikan liggur mjög grunnt, eða á 1 til 2 km dýpi, það er einnig möguleiki að kvikan sé á ennþá grynnra dýpi en þetta næst gígnum sem er núna að gjósa (án þess að hafa komið upp í eldgosi).

Tungafellsjökull

Jarðskjálftavirkni virðist vera að aukast í Tungafellsjökli. Væntanlega er hérna um að ræða spennubreytingar í jarðskorpunni sem eru að valda þessum jarðskjálftum. Ég er ekki að sjá neinn sem bendir til þess að eldgos sé að fara að hefjast í Tungafellsjökli á þessari stundu. Jarðskjálftavirkni mun líklega aukast á næstu dögum og vikum í Tungafellsjökli.