Hérna er staðan í Bárðarbungu þann 8-Október-2014. Ég mun stytta textann aðeins þegar lítið er að gerast í Bárðarbungu og skrifa minni uppfærslur í leiðinni.
Staðan í Bárðarbungu þann 8-Október-2014
- Stærsti jarðskjálftinn í dag var með stærðina 5,2. Þessi jarðskjálfti varð NNA í Bárðarbungu, þar sem ég tel hugsanlegt að kvika sé að bora sér leið í gegnum jarðskorpuna. Þetta er þó bara hugmynd hjá mér sem er ekki sönnuð.
- Engar stórar breytingar hafa átt sér stað í eldgosinu í Holuhrauni. Hraunið er núna orðið 52 ferkílómetrar að stærð. Kraftur eldgossins er mjög svipaður og hann var þegar það fór að gjósa fyrir fimm vikum síðan.
- Slæmt veður á svæðinu kemur í veg fyrir að hægt sé að fylgjast almennilega með stöðu mála í eldgosinu.
- Stærsti gígurinn í eldgosinu er núna orðinn 100 metra hár samkvæmt fréttum. Sá gígur er kallaður Baugur. Gígur sem hefur nafnið Suðri er í kringum 40 til 50 metra hár. Hægt er að fá frekari upplýsingar á frétt Vísir.is um eldgosið.
- Það var næstum því engin jarðskjálftavirkni undir kvikuinnskotinu í dag sýnist mér.
- Ég hef ekki neinar frekari fréttir af stöðu mála eftir því sem ég kemst næst.
Ef eitthvað frekar gerist. Þá mun ég setja það hingað inn ef þörf er á því. Það er ekki hægt að spá fyrir um það hvað eldgosið gerir næst og atburðir geta gerst án viðvörunar í eldstöðvum þegar þær eru að gjósa.