Staðan í Bárðarbungu þann 13-Október-2014

Eldgosið í Holuhrauni og jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu er með svipuðum hætti og undanfarið. Jarðskjálftavirkni er ennþá mjög mikil. Stærstu jarðskjálftarnir ná stærðinni 5,2 og stundum verða stærri jarðskjálftar í Bárðarbungu. Samkvæmt fréttum þá er ekki að sjá að farið sé að draga úr eldgosinu í Holuhrauni, hraunið sem þarna er komið stækkar stöðugt og er núna orðið stærra en 54 ferkílómetrar að flatarmáli.

141014_0000
Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er aukning í jarðskjálftavirkni síðasta sólarhringinn í kvikuinnskotinu. Það bendir til þess að þrýstingur sé að aukast í kvikuinnskotinu, allvegana tímabundið, þar sem þrýstingur virðist falla með reglulega. Það er einnig aukning í jarðskjálftavirkni í Tungnafellsjökli, helsta hugmyndin varðandi þá virkni er sú að eldstöðin sé að bregðast við spennubreytingum vegna Bárðarbungu með þessum hætti. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að eldgos sé að hefjast í Tungafellsjökli. Hinsvegar þar sem ekkert eldgos hefur átt sér stað þarna á sögulegum tíma er mjög erfitt að segja til um það hvað gerist í Tungafellsjökli í kjölfarið á þessum atburðum.

Það er ennþá mikil hætta á eldgosi undir jökli, eins og hefur verið að gerast í litlum mæli síðan Bárðarbunga fór að gjósa þann 23-Ágústu-2014. Það er þó mikil hætta á að stórt eldgos hefjist undir jökli með tilheyrandi jökulflóði og öskufalli. Það mun þó ekki þýða að eldgosið í Holuhrauni hætti, þar sem það getur gosið á báðum stöðum á sama tíma eins og þetta lítur út núna. Það er ekki að sjá nein merki þess að farið sé að draga úr virkninni í Bárðarbungu og óvíst því hvenær það fer að sjá fyrir endann á núverandi virkni og eldgosum.

Kröftug jarðskjálftahrina djúpt á Reykjaneshrygg

Um helgina varð kröftug jarðskjálftahrina djúpt á Reykjaneshrygg. Þessi jarðskjálftahrina var mjög langt út á Reykjaneshrygg eða rúmlega 1000 km frá Íslandi. Það er ekki víst hvað er að gerast á þessu svæði. Þetta gæti verið eldgos eða bara jarðskjálftahrina eins og þær verða oft á þessu svæði. Stærðir þeirra jarðskjálfta sem mældust voru þessar. Stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 5,5 (EMSC upplýsingar er að finna hérna), næst stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 5,4 (EMSC upplýsingar er að finna hérna). Minnsti jarðskjálftinn sem mældist hafði stærðina 4,6 (EMSC upplýsingar er að finna hérna).

Vegna fjarlægðar frá Íslandi er ekki hægt að vita hvað er að gerast þarna. Sjávardýpi á þessu svæði er í kringum 2 til 3 km, og hugsanlega dýpra í mjög djúpum dölum sem þarna eru á sjávarbotni.

Minniháttar jarðskjálftahrina í Kötlu um helgina

Um helgina var minniháttar jarðskjálftahrina í Kötlu. Þessi jarðskjálftahrina gekk yfir á nokkrum klukkutímum og síðan þá hefur verið rólegt í Kötlu.

141012_1250
Jarðskjálftavirknin í Kötlu um síðustu helgi. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn í þessari hrinu hafði stærðina 3,2 og varð talsvert fyrir utan aðal-jarðskjálftahrinuna. Ég er ekki viss um afhverju það gerðist.