Nokkrir jarðskjálftar í Hofsjökli

Í dag (15-Október-2016) urðu nokkrir jarðskjálftar í Hofsjöki. Stærsti jarðskjálftinn var bara með stærðina 1,4. Jarðskjálfti með stærðina 2,3 varð austur af Hofsjökli en það er innan-fleka jarðskjálfti og tengist ekki neinni eldstöð.

161015_1340
Jarðskjálftarnir í Hofsjökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessi jarðskjálftavirkni í Hofsjökli virðist vera vegna spennubreytinga sem eru núna að eiga sér stað í Bárðarbungu vegna þenslunar sem þar er að koma fram núna. Þetta gerðist þó svo að Hofsjökull sé í sínu eigin rekbelti (sjá rannsókn um þetta á ensku hérna). Ég er ekki að reikna með eldgosi í Hofsjökli enda er ekki vitað hvenær eldstöðin gaus síðast. Það er hugsanlegt að frekari jarðskjálftar verði í Hofsjökli og nágrenni á næstu vikum vegna spennubreytinga í efri lögum jarðskorpunnar.

Lítil jarðskjálftahrina í Kötlu

Í morgun (15-Október-2016) varð lítil jarðskjálftahrina í Kötlu. Jarðskjálftahrinan varð í austari hluta öskjunnar. Þetta var mjög lítil jarðskjálftahrina og var stærsti jarðskjálftinn aðeins með stærðina 2,7.

161015_1820
Jarðskjálftahrinan í Kötlu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinan var mjög lítil, bæði í fjölda jarðskjálfta og í stærð þeirra jarðskjálfta sem áttu sér stað. Þar sem annar stærsti jarðskjálftinn var eingöngu með stærðina 2,3. Eftir að jarðskjálftahrinunni lauk komu fram örfáir stakir jarðskjálftar. Jarðskjálftahrinunni lauk klukkan 08:58 og eftir það hafa bara örfáir jarðskjálftar komið fram í Kötlu.

Jarðskjálftarhrina í Bárðarbungu

Í dag (15-Október-2016) varð jarðskjálftahrina í Bárðarbungu. Stærstu jarðskjálftarnir höfðu stærðina 3,5. Í gær (14-Október-2016) varð jarðskjálfti með stærðina 3,3 í Bárðarbungu.

161015_1245
Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Aðrir jarðskjálftar sem urðu í þessari hrinu voru smærri. Þessi jarðskjálftahrina er áhugaverð fyrir það að hún virðist hafa komið af stað jarðskjálftum í nálægum eldstöðvum. Ég er ekki alveg viss afhverju þetta er að gerast. Það sem hefur hinsvegar verið staðfest er að Bárðarbunga er að þenjast út samkvæmt GPS mælingum og er núna að ýta upp jarðskorpunni sem féll niður í eldgosinu 2014 – 2015, sú hreyfing er að valda jarðskjálftum í Bárðarbungu núna.