Þann 3-Október-2017 kom fram jarðskjálftavirkni í Kötlu eins og ég fjallaði um hérna. Aðfaranótt 3-Október kom fram óróapúsl í Kötlu sem varði í nokkra klukkutíma en þessi óróapúls var ekkert rosalega sterkur og sést því ekkert rosalega vel á SIL stöðvum í kringum Kötlu.
Í dag (8-Október-2017) kom fram í fréttum Rúv að brennisteinslykt hefði fundist af Múlakvísl í dag og undanfarna daga auk þess að leiðni hefði að auki verið hærri undanfarna daga í Múlakvísl. Helsta hugmyndin að því hvað er í gangi er að einn af yfir tuttugu kötlum í Mýrdalsjökli hefði verið að tæma sig eins og gerist reglulega í Mýrdalsjökli. Í þessum kötlum þá safnast bræðsluvatn og því tæmast þessir katlar þegar þeir eru orðnir fullir og þrýstingurinn orðin nægur til þess brjóta sér leið undir jökulinn. Þetta olli litlu flóði í Múlakvísl auk þess að valda þeim óróa sem kom fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar í kringum Mýrdalsjökul. Ég veit ekki alveg hvað er raunin hérna en aukin jarðskjálftavirkni hefur verið tengd svona atburðum í sumar þegar þeir hafa orðið og svona atburðir hafa orðið reglulega í allt sumar. Þessa stundina er leiðni frekar há í Múlakvísl samkvæmt sjálfvirkum mælingum Veðurstofu Íslands en það dregið hefur úr jarðskjálftavirkni í Kötlu síðustu daga.
Fréttir af þessu
Brennisteinslykt á Mýrdalssandi (Rúv.is)