Jarðskjálfti í Bárðarbungu (líklegasta staðsetning)

Í gær (25.02.2017) varð jarðskjálfti í Bárðarbungu. Af óþekktum ástæðum, þá er Veðurstofa Íslands ekki búinn að staðsetja þennan jarðskjálfta nákvæmlega eða koma með nákvæma stærð þessa jarðskjálfta. Ég áætla út frá útslagi þessa jarðskjálfta á mínum jarðskjálftamælum að stærðina sé á bilinu 3,2 til 3,8. Staðsetningin er einhverstaðar í Bárðarbungu mjög líklega, þar sem ég er bara með tvo jarðskjálftamæla á Íslandi, þá get ég ekki fundið sjálfur út nákvæma staðsetningu á þessum jarðskjálfta. Til þess að fá nákvæma staðsetningu, þá þarf ég að vera með meira en þrjá jarðskjálftamæla.


Jarðskjálftinn eins og hann kemur fram á jarðskjálftamælinum mínum í Böðvarshólum. Þessi mynd er undir Creative Commons leyfi, sjá nánar á CC leyfi síðunni.


Jarðskjálftinn eins og hann kemur fram á jarðskjálftamælinum mínum í Heklubyggð. Þessi mynd er undir Creative Commons leyfi, sjá nánar á CC leyfi síðunni.

Ég mun uppfæra þessa grein þegar nákvæm staðsetning og stærð þessa jarðskjálfta verður ljós hjá Veðurstofu Íslands.

Uppfærsla

Vikulegt jarðskjálftaeftirlit Veðurstofunnar hefur stærð þessa jarðskjálfta sem Mw2,58 og ML3,03.

227 20170225 143125.453 64.64607 -17.35535 0.065 2.58 3.03

Grein uppfærð þann 27.02.2017 klukkan 20:59.

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni í Kötlu

Síðustu daga hefur verið jarðskjálftavirkni í Kötlu. Þessi jarðskjálftavirkni kemur í tveim gerðum, fyrri gerðin eru jarðskjálftahrinu en sú seinni eru stakir jarðskjálftar sem eru dreifðir um öskju Kötlu.


Jarðskjálftavirknin í Kötlu síðustu 48 klukkutímana. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Vísbendinganar eru þess eðlis að líklega mun gjósa í Kötlu fljótlega. Hinsvegar er ennþá möguleiki á því að Katla muni róast niður aftur og ekkert frekar muni gerast, aftur á móti eins og málin standa í dag. Þá er það ólíklegri niðurstaða. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem jarðskjálftavirknin í Kötlu hefur verið í gangi síðan í lok Ágúst-2015 og það virðist lítið vera að breytast þar, þó svo að það dragi aðeins úr virkninni einhverja daga og vikur tímabundið. Þessa stundina er jarðskjálftavirknin í Kötlu frekar lítil og aðeins smáskjálftar að eiga sér stað. Þessa stundina hafa allir jarðskjálftar verið minni en 3,0 að stærð og það er engin merki þess að draga sé úr jarðskjálftavirkni í Kötlu.

Jarðskjálftahrina nærri Skjaldbreið

Í gær (22.02.2017) varð jarðskjálftahrina nærri Skjaldbreið (svæði sem er kennt við eldstöðina Presthnjúkar hjá Global Volcanism Program).


Jarðskjálftavirknin nærri Skjaldbreið í gær. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þetta var lítil jarðskjálftahrina og stærsti jarðskjálftinn aðeins með stærðina 2,2 og það dýpi sem kom fram var frá 18,3 km og upp að 1,1 km. Þessari jarðskjálftahrinu er lokið núna.

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni langt norður af Kolbeinsey

Undanfarnar virkur hefur verið jarðskjálftavirkni langt norður af Kolbeinsey. Það er ennþá óljóst hvað er að valda þessari jarðskjálftavirkni á þessu svæði.


Jarðskjálftavirknin norður af Kolbeinsey (bláu hringirnir). Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærðir allra þeirra jarðskjálfta sem hafa mælst á þessu svæði eru vanmetnar vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu. Ég náði að mæla síðustu jarðskjálftahrinu sem varð á þessu svæði á jarðskjálftamælinn minn á norðurlandi. Þá komu fram fimm jarðskjálftar sem voru að minnsta kosti með stærðina 3,2 á 4 til 8 mínútu tímabili. Þetta voru einu jarðskjálftarnir sem ég náði að mæla í þessari jarðskjálftahrinu, enda er fjarlægðin rúmlega 230 km. Þessi fjarlægð veldur því að erfitt er að staðsetja jarðskjálftana nákvæmlega og finna út nákvæmlega hversu stórir þeir voru, meiri skekkja kemur einnig fram í staðsetningu jarðskjálftana og getur þar munað nokkrum tugum kílómetra.

Það er möguleiki á því að þarna sé eldgos í gangi núna. Það var þarna mögulega eldgos eða kvikuinnskot á þessu svæði eða nálægt því í Október árið 1999, hægt er að lesa um þá jarðskjálftahrinu hérna á vefsíðu Global Volcanism Program.

Jarðskjálftavirkni eykst í Kötlu á ný

Síðasta sólarhringinn (15 til 16.02.2017), þá hefur jarðskjálftavirkni verið að aukast í Kötlu. Þessi aukning á jarðskjálftum fylgir fyrra munstri og hugsanlegt er að jarðskjálftar með stærðina 3,0 og stærri verði í Kötlu á næstu dögum. Það er þó ekki hægt að segja til um það með neinni vissu. Hérna er ég eingöngu að miða við bestu mögulegu gögn sem ég hef.


Jarðskjálftavirknin í Kötlu síðasta sólarhringinn. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Sú jarðskjálftavirkni sem hefur orðið var ekki kröftug og stærsti jarðskjálftinn var eingöngu með stærðina 2,0. Allir aðrir jarðskjálftar sem urðu voru minni að stærð. Í fyrri jarðskjálftahrinum hefur þetta orðið þannig að lítil jarðskjálftahrina hefst og síðan kemur hlé í nokkra klukkutíma til daga, eftir að því líkur þá hefst jarðskjálftahrina með einum eða fleiri jarðskjálftum með stærðina 3,0 í öskju Kötlu. Ég reikna með að þetta munstur muni endurtaka sig núna. Hvað síðan raunverulega gerist á eftir að koma í ljós.

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Í gær (12.02.2017) og í dag (13.02.2017) var jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg. Jarðskjálftahrinur eru algengar á þessu svæði á Reykjaneshryggnum. Þessi jarðskjálftahrina virðist ekki vera tengd neinum kvikuhreyfingum á þessu svæði. Þarna er sigdalur mjög líklega samkvæmt mælingum skipa (held ég).


Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærstu jarðskjálftarnir í þessari hrinu voru með stærðina 3,1 og 3,2 en aðrir jarðskjálftar voru minni að stærð. Dýpi þessar jarðskjálftahrinu var frá 17 km og upp að 2,4 km (það er smá skekkja í mælingunni). Jarðskjálftahrinunni virðist vera lokið í augnablikinu en það er samt möguleiki á nýrri jarðskjálftahrinu þarna sem yrði þá stærri en þessi hrina sem varð þarna núna. Það er ekki hægt að segja til um hvort að slíkt muni gerast, það eina sem hægt er að gera er að bíða og sjá hvað gerist á þessu svæði.

Djúpir jarðskjálftar í Öræfajökli

Ég hef ekki skrifað margar greinar um eldstöðina Öræfajökul. Ástæðan er sú að yfirleitt er ekki neitt að gerast í Öræfajökli og telst þessi eldstöð vera mjög róleg eins og Esjufjöll og Snæfell (austurland), en þessar eldstöðvar mynda keðju af eldstöðvum fyrir utan megin eldgosabeltið á Íslandi. Rannsóknir benda til þess að undir Öræfajökli sé brot af gömlu meginlandi sem er líklega að bráðna niður hægt og rólega (rannsóknina er hægt að lesa hérna á ensku) og hugsanlega einnig undir Esjufjöllum. Í þessari rannsókn er einnig skráð eldstöð beint austur af Esjufjöllum en ég veit ekki hvort að sú eldstöð er raunverulega til, þar sem þessi eldstöð er ekki allstaðar skráð á kort og ég hef engar upplýsingar um þessa eldstöð ef hún er raunverulega til. Ég veit ekki afhverju þetta er raunin.


Jarðskjálftavirknin í Öræfajökli. Á þessu korti er Öræfajökull staðsettur beint suður af Grímsvötnum. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærðir þeirra jarðskjálfta sem urðu var aðeins 1,1 til 1,8. Það sem gerir þessa jarðskjálfta áhugaverða er að þeir benda hugsanlega til þess að eitthvað sé að fara að gerast í Öræfajökli. Mesta dýpið sem kom fram var 21,2 km (stærðin var 1,1), annars var dýpið frá 19,0 til 20,7 km. Það sem sést á óróagrafi bendir til þess að um sé að ræða jarðskjálfta sem myndast þegar kvika er að brjóta leið um í jarðskorpunni, frekar en að um sé að ræða jarðskjálfta sem tengjast jarðskorpuhreyfingum.

Jarðskjálftavirkni hófst í Öræfajökli (mjög líklega) árið 2011 en samkvæmt gögnum sem ég er með þá urðu ekki neinir jarðskjálftar árið 2012 (það þarf ekki að vera alveg rétt). Síðan þá hafa orðið nokkrir jarðskjálftar á hverju ári síðan árið 2012. Hversu langt ferlið er frá lítilli jarðskjálftavirkni þangað til að eldgos hefst er ekki þekkt vegna skorts á sögulegum gögnum. Síðustu eldgos áttu sér stað árið 1362 frá 5 Júní +-4 dagar og þangað til 15 Október +-45 dagar og síðan árið 1727 þann 3 Ágúst og þangað til 1 Maí +-30 dagar árið 1728.

Kröftug jarðskjálftahrina í Bárðarbungu

Í gær (30.01.2017) var nákvæmlega ein vika síðan jarðskjálftahrina (greinin er hérna) varð í Bárðarbungu. Þessi jarðskjálftavirkni er virkni sem er að stöðugt að endurtaka sig en það virðist hafa orðið smá breyting á virkninni undanfarið. Það virðist sem að þeir jarðskjálftar sem eru að eiga sér stað séu að vaxa í stærð en fjöldi þeirra jarðskjálfta sem verður hefur ekki aukist mikið frá því sem hefur verið. Jarðskjálftar með stærðina 4,3 færa öskjubotninn í Bárðarbungu upp um örfáa millimetra í hvert skipti og þessir millimetrar eru farnir að safnast saman. Ég veit ekki hver breytingin er vegna skorts á GPS gögnum.


Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Í síðustu jarðskjálftahrinu urðu eftirtaldir jarðskjálftar (í þeirri röð sem þeir urðu), jarðskjálfti með stærðina 4,3, jarðskjálfti með stærðina 4,1 og jarðskjálfti með stærðina 3,4. Dýpi þessara jarðskjálfta var annað en venjulega, dýpið var frá 9,4 til 8,3 km. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað er að gerast á þessu dýpi. Það er hugsanlegt að kvika sé að brjóta sér leið upp í jarðskorpuna og búa sér þannig til nýja leið, það er einnig möguleiki á því að kvikan sé einfaldlega að ýta upp öskjunni hægt og rólega. Jarðskjálftavirkni verður þegar kvika kemur inn í Bárðarbungukerfið á miklu dýpi. Þessi virkni mun halda áfram í mjög langan tíma, hugsanlega þangað til að næsta eldgos verður í Bárðarbungu.

Kröftug jarðskjálftahrina á Kolbeinseyjarhrygg

Í gær (27.01.2017) og í dag (28.01.2017) hefur verið kröftug jarðskjálftahrina á Kolbeinseyjarhrygg nokkuð fyrir norðan Kolbeinsey. Stærsti jarðskjálftinn var með stærðina mb4,6 samkvæmt EMSC (upplýsingar hérna). Þetta svæði eða svæði nálægt þar sem eru núna jarðskjálftar gaus eða þar varð kvikuinnskot árið 1999. Það er þó ekki staðfest með neinum öruggum hætti.


Jarðskjálftahrinan norðan við Kolbeinsey á Kolbeinseyjarhrygg. Grænu stjörnurnar sýna jarðskjálfta sem eru stærri en 3,0. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.


Stærsti jarðskjálftinn sem kom fram í dag (28.01.2017) með stærðina mb4,6. Þessi mynd er undir Creative Commons leyfi, sjá nánar á CC Leyfi síðunni.

Það hafa verið í kringum 6 jarðskjálftar sem eru stærri en 3,0 í þessari hrinu. Nákvæmlega tölu er hinsvegar erfitt að finna út vegna fjarlægðar þessar jarðskjálftahrinu frá SIL mælaneti Veðurstofu Íslands og það gerir erfitt fyrir Veðurstofu Íslands að meta fjölda og stærðir þeirra jarðskjálfta sem hafa orðið. Fjarlægðirnar voru 85 km og síðan 160 km frá Kolbeinsey. Það virðist sem að þarna hafi orðið tvær jarðskjálftahrinur síðasta sólarhringinn en erfitt að segja til um hvað annað gæti hugsanlega verið að gerast á þessu svæði í augnablikinu. Jarðskjálftahrinan er ennþá í gangi á þessu svæði (held ég).

Jarðskjálfti með stærðina 4,3 í Kötlu

Í dag (26.01.2017) klukkan 15:14 varð jarðskjálfti með stærðina 4,3 í Kötlu. Samkvæmt fréttum þá fannst þessi jarðskjálfti í Vík í Mýrdal og í nágrenninu. Annar stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 3,0 og þriðji stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 2,9. Þessa stundina hafa aðrir jarðskjálftar verið minni að stærð.


Jarðskjálftavirknin í Kötlu, græna stjarnan sýnir þar sem jarðskjálftinn með stærðina 4,3 átti sér stað. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.


Jarðskjálftinn í Kötlu eins og hann kom fram á jarðskjálftamælinum mínum í Heklubyggð, þetta er jarðskjálftinn með stærðina 4,3. Þessi mynd er undir Creative Commons leyfi, sjá nánar á CC Leyfi síðunni.

Engar stórar breytingar hafa sést á óróamælum í kringum Kötlu í kjölfarið á þessum jarðskjálfta. Þó er hugsanlegt að illa greinanleg merki hafi sést á einni SIL stöðinni um að háhitasvæði hafi orðið æst rétt áður en jarðskjálftinn átti sér stað, það er þó ekki hægt að staðfesta það með neinum öruggum hætti.

Ég mun uppfæra þessa grein eftir því sem þurfa þykir ef eitthvað meira gerist í Kötlu.