Jarðskjálfti í eldstöðinni Kötlu

Í gær (29. Ágúst 2023) varð jarðskjálfti með stærðina Mw3,7. Samkvæmt fréttum fannst þessi jarðskjálfti í byggð á nálægum tjaldsvæðum og sveitarbæjum. Nokkrir minni jarðskjálftar komu fram í kjölfarið á stóra jarðskjálftanum.

Græn stjarna í öskju Kötlu, ásamt nokkrum appelsínugulum punktum sem sýna minni jarðskjálftana sem þarna urðu.
Jarðskjálftavirknin í Kötlu. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það gerðist ekkert í kjölfarið á þessum jarðskjálfta, eins og hefur verið tilfellið með síðustu jarðskjálftahrinur í Kötlu. Það getur hafist ný jarðskjálftavirkni í Kötlu án viðvörunnar.

Kvikuinnskot í Brennisteinsfjöllum

Nóttina þann 26. Ágúst 2023 varð kvikuinnskot í eldstöðinni Brennisteinsfjöllum. Þetta kvikuinnskot kom fram með fjöldanum af litlum jarðskjálftum þarna en flestir jarðskjálftarnir náðu ekki stærðinni Mw1,0. Það sem segir mér að þarna sé kvikuinnskot á ferðinni er að dýpi jarðskjálftanna er niður á 21,1 km dýpi þar sem það er mest. Það er áhugavert að í þessari jarðskjálftavirkni er mjög mikið af yfirborðsjarðskjálftum. Ég er ekki viss af hverju það er að gerast.

Mikið af gulum punktum í eldstöðinni Brennisteinsfjöllum, auk þess að fullt er punktum í öðrum eldstöðvum á Reykjanesskaga.
Jarðskjálftavirkni í eldstöðinni Brennisteinsfjöllum. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er engin hætta á eldgosi frá Brennisteinsfjöllum eins og er. Jarðskjálftavirknin er ennþá mjög lítil og augljóst að ferlið í Brennisteinsfjöllum sem kemur af stað eldgosi er ekki komið mjög langt á veg til þess að eldgos geti átt sér stað. Það gæti samt breyst án mikils fyrirvara.

Þensla mælist í eldstöðinni Torfajökli

Veðurstofa Íslands tilkynnti í dag að þensla er farin að mælast í eldstöðinni Torfajökli. Þessi þensla hófst um miðjan Júní samkvæmt mælingum og hefur nú þegar náð 40mm.

Myndin er fjólublá til græn frá vestri til austurs. Í öskju Torfajökuls eru gulir og rauðir litir sem tákna þensluna í öskjunni. Rauður litur sýnir mestu þensluna sem er í miðjunni sem er um 40mm.
Þenslan í Torfajökli. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er ekki hægt að segja til um það hversu hratt þetta mun gerast. Þar sem síðasta eldgos í Torfajökli var árið 1477 og það eldgos varð líklega í tengslum við kvikuinnskot frá Bárðarbungu. Síðasta eldgos þar sem Torfajökull gaus án áhrifa frá öðrum eldstöðvum var árið 1170. Eldgos í Torfajökli eru nær alltaf stór sprengigos þar sem öskuskýið rekur undan vindátt.

Kröftug jarðskjálftahrina við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg

Í gær (13. Ágúst 2023) varð kröftug jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg við Geirfugladrang. Stærsti jarðskjálftinn í þessari hrinu var með stærðina Mw4,5 og fannst á Akranesi samkvæmt Veðurstofu Íslands. Það er hugsanlegt að þessi jarðskjálfti hafi fundist víðar án þess að tilkynnt hafi verið um það. Það urðu í kringum 400 jarðskjálftar í þessari jarðskjálftahrinu þegar hún var sem virkust í gær.

Fullt af grænum stjörnum á Reykjaneshrygg við Geirfugladrang. Þetta er talsvert frá landi og úti í sjó. Þarna er einnig fullt af gulum punktum sem sýnir aldur þessara jarðskjálfta. Þarna sjást einnig aðrir jarðskjálftar á Reykjanesskaga sem eru bláir og appelsínugulir í öðrum eldstöðvum á því svæði.
Jarðskjálftavirknin við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinan virðist ennþá vera í gangi. Þó svo að mjög hafi dregið úr jarðskjálftavirkninni á þessu svæði þessa stundina. Það eru vísbendingar um það að þarna sé kvika á ferðinni, þó er mjög erfitt að segja til um það þar sem þetta svæði er út í sjó og því lengra sem svæði eru frá landi, því erfiðara verður að fylgjast með því sem er að gerast með mælingum. Samkvæmt Veðurstofu Íslands, þá mun eldgos á þessu svæði koma fram á óróamælum Veðurstofu Íslands.

Aukinn jarðhiti í Öskju

Þetta er stutt grein um stöðuna í Öskju. Ég er að sjá mjög misvísandi upplýsingar um það sem er að gerast núna og því hef ég greinina stutta.

Það virðist sem að jarðhiti og gas sé farið að aukast í og í kringum eldstöðina Öskju vegna þeirrar þenslu sem er þarna að eiga sér stað. Þegar þessi grein er skrifuð, þá virðist þenslan vera í kringum 80mm til 100mm. Þær fréttir sem ég hef séð af svæðinu gefa ekki nógu góða mynd af því sem er að gerast þarna. Vegna þess er ég að takmarka umfjöllun mína um Öskju, þangað til að það er orðið skýrara hvað er að gerast í Öskju.

Það er ráðlegging hjá Veðurstofu Íslands að fólk almennt ferðist ekki í kringum eða nágrenni við Öskju vegna hættu á gasi eða skyndilegs eldgoss. Það er engin sérstök jarðskjálftavirkni sem fylgir þessum breytingum og það gerir mjög erfitt að átta sig á því hvað er að gerast í Öskju. Staðan í Öskju gæti breyst án viðvörunnar, eins og er stundum staðan í þessum eldstöðvum.

Jarðskjálftavirkni í Hofsjökli

Í gær (12. Ágúst 2023) varð lítil jarðskjálftahrina í Hofsjökli. Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu var með stærðina Mw3,0 og annar stærsti jarðskjálftinn var með stærðina Mw2.5. Aðrir jarðskjálftar sem komu fram voru minni að stærð. Þetta svæði er mjög afskekkt og það hafa ekki komið fram neinar tilkynningar um að þessir jarðskjálftar hafi fundist.

Punktar í norður hluta Hofsjökuls sýnir jarðskjálftavirknina. Þessir punktar raðast upp í línu sem er norður suður. Það er einn punktur á barmi öskju Hofsjökuls. Hofsjökull er í miðjunni á þessu korti. Fyrir vestan er Langjökull og síðan suður-austur af Hofsjökli er Vatnajökull.
Jarðskjálftavirkni í Hofsjökli. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Samkvæmt frétt á Morgunblaðinu þá fannst gas lykt á svæðinu við Hofsjökul eftir jarðskjálftavirknina. Það er því hætta á að það sé gas í kringum Hofsjökul og þá sérstaklega nærri svæðum sem eru næst jarðskjálftahrinunni.

Ég er ekki með neinar aðrar upplýsingar um Hofsjökul. Þar sem síðasta eldgos í Hofsjökli varð fyrir meira en 12.000 árum síðan. Það hafa í mesta lagi verið lítil eldgos sem mynduðu hraun sem eru í kringum Hofsjökul á síðustu 12.000 árum. Ég reikna ekki með eldgosum núna en þessi jarðskjálftavirkni þýðir að einhver breyting hefur átt sér stað í Hofsjökli. Þessi breyting er líklega langtímabreyting en hversu langan tíma er um að ræða veit ég ekki. Þetta gæti verið frá næstu 100 til 500 árum eða jafnvel aldrei. Hofsjökull er á sínu eigin rekbelti sem er hægt og rólega að deyja út. Á þessu rekbelti eru bara eldstöðvanar Hofsjökull og Kerlingafjöll (?). Þetta rekbelti er um 5 til 10 milljón ára gamalt og er hægt deyjandi út.