Tvær litlar jarðskjálftahrinur í dag á Reykjaneshrygg og Tjörnesbrotabeltinu

Nýja árið (2016) byrjar með tveim litlum jarðskjálftahrinum á Íslandi. Báðar jarðskjálftahrinur voru litlar, bæði í fjölda jarðskjálfta og stærð jarðskjálfta.

Reykjaneshryggur

Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg hófst klukkan 09:08 og var lokið klukkan 11:24. Ég tel að þessari jarðskjálftahrinu sé ekki lokið, þó svo að hún hafi stoppað í augnablikinu. Það er mjög erfitt að vita fyrir víst hvenær jarðskjálftahrinu er lokið og hvenær ekki á Reykjaneshryggnum, þar sem jarðskjálftahrinur á þessu svæði eru mjög flóknar og stundum hefjast stærri jarðskjálftahrinur þarna í kjölfarið á litlum jarðskjálftahrinum.

160103_1545
Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessi jarðskjálftahrina var mjög lítil og stærsti jarðskjálftinn hafði stærðina 2,1. Jarðskjálftahrinan á sér stað í eldstöð sem gaus síðast árið 1926 samkvæmt Global Volcanism Program. Ég tel hinsvegar líklegt að þessi jarðskjálftavirkni sé ekki tengd eldstöðinni, heldur sé þarna um að ræða hefðbundna rek-jarðskjálfta sem verða mjög oft á Reykjaneshrygg.

Tjörnesbrotabeltið

Seinni jarðskjálftahrinan sem átti sér stað í dag varð á Tjörnesbrotabeltinu. Þessi jarðskjálftahrina var einnig mjög lítil að styrkleika og stærð. Stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 1,9. Þessi jarðskjálftahrina var einnig mjög djúp og varð dýpsti jarðskjálftinn á 21,9 km dýpi (ef jarðskjálftinn varð almennilega staðsettur). Þetta bendir til þess að kvika hafi verið hérna að verki. Þessi jarðskjálftahrina varð í eldstöð sem síðast gaus árið 1868 eftir því sem best er vitað. Það eru tvær eldstöðvar á þessu svæði og það er ekki vitað almennilega hvort þessara eldstöðva gaus árið 1868.

160103_1640
Jarðskjálftahrinan á Tjörnesbrotabeltinu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálatahrinan er ennþá í gangi á Tjörnesbrotabeltinu. Það er stór spurning hvort að þessi jarðskjálftavirkni mun aukast eða minnka. Ef jarðskjálftahrinan eykst þá er stór spurning hvort að jarðskjálftavirknin þarna mun hafa áhrif á nærliggjandi misgengi og koma af stað jarðskjálftahrinum í þeim. Eins og staðan þá hefur það ekki gerst en það er mjög erfitt að vita hvora leiðina þetta muna fara.