Þessi grein verður uppfærð í dag (30-September-2016) eftir þörfum.
Síðustu 48 klukkutímana hafa orðið 261 jarðskjálfti í Kötlu þegar þetta er skrifað. Stærstu jarðskjálftarnir síðustu 24 klukkutímana voru með stærðina 3,1 og síðan 3,2. Stærsti skjálftinn var með stærðina 3,6. Þar sem ekkert eldgos er hafið þá kemur ekki fram neinn órói eða gosórói á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar.
Jarðskjálftavirknin í Kötlu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.
Sú jarðskjálftavirkni sem er núna í gangi í Kötlu hefur verið í gangi undanfarin mánuð, hinsvegar hefur þessi virkni verið mun minni allan þennan tíma en síðustu 48 klukkutímana, ég uppgötvaði þetta ekki fyrr en ég athugaði þessa jarðskjálftavirkni stuttlega. Þessi atburðarrás hófst með jarðskjálftahrinunni þar sem komu fram jarðskjálftar með stærðina 4,5 og 4,6. Það er núna mín skoðun að það séu meiri líkur en minni á að þetta muni enda með eldgosi fljótlega. Jarðskjálftavirknin í Kötlu kemur í hviðum og ég veit ekki almennilega afhverju það gerist, ég sá svipað munstur í Bárðarbungu þegar kvikan þar var að brjóta sér leið úr jarðskorpunni og sú hegðun varði þangað til að það fór að gjósa. Núverandi staða samkvæmt eldfjallaeftirliti Veðurstofunnar er grænn, hægt er að skoða kortið hérna.
Þessi grein verður uppfærð eftir nokkra klukkutíma eða þegar eitthvað gerist í Kötlu.
Uppfærsla klukkan 12:45
Litarkóði fyrir Kötlu hefur verið uppfærður í gulan. Kort er að finna hérna.
Uppfærsla klukkan 15:44
Þegar þetta er skrifað hefur aðeins dregið úr virkni í Kötlu. Svona smá rólegheit hafa gerst nokkrum sinnum á síðustu 48 klukkustundum og hafa aldrei varðað mjög lengi. Stórir jarðskjálftar urðu klukkan 12:07 með stærðina 3,6. Síðan varð jarðskjálfti klukkan 12:09 með stærðina 3,6. Jarðskjálftar klukkan 12:10 og 12:13 voru með stærðina 3,2. Einhverjir af þessum stærstu jarðskjálftum fundust á nærliggjandi sveitarbæjum og þar sem fólk er. Ég held að þessi virkni hafi hingað til ekki fundist í Vík í Mýrdal. Enginn órói er farinn að koma fram og það þýðir að eldgos er ekki hafið ennþá.
Grænu stjörnurnar sýna þá jarðskjálfta sem eru stærri en 3,0 og hafa orðið síðustu 48 klukkutímana. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftavirknin er búin að raða sér upp á svæði sem hefur stefnuna norð-austur og suð-vestur. Það er hugsanlegt að kvika muni brjóta sér leið þar upp og valda eldgosi. Hinn möguleikinn er að þessi jarðskjálftavirkni hætti og ekkert frekara gerist en ég held að íslendingar séu ekki svo heppnir núna.
Uppfærsla klukkan 19:03
Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi í nágrenni Kötlu og í sjálfri Kötlu.
Uppfærsla klukkan 23:27
Veginum að Sólheimajökli hefur verið lokað af lögreglunni vegna hættu á skyndiflóðum ef eldgos verður í Kötlu og reikna má með að vegurinn verði lokaður þangað til að draga fer úr virkni í Kötlu. Þessa stundina er mjög lítil jarðskjálftavirkni að eiga sér stað en engu að síður eiga sér stað jarðskjálftar.
Jarðskjálftavirknin í Kötlu. Grænar stjörnur eru jarðskjálftar sem eru stærri en 3,0. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftavirknin er minni þessa stundina er samt á svipuðum stað og jarðskjálftavirknin hefur verið síðan 29-Ágúst-2016 þegar jarðskjálftar með stærðina 4,5 og 4,6 áttu sér stað. Hætta er á því að jarðskjálftavirknin aukist aftur án nokkurs fyrirvara.
Grein uppfærð klukkan 12:45. Uppfærslu bætt við.
Grein uppfærð klukkan 15:51. Uppfærslu bætt við.
Grein uppfærð klukkan 19:04. Uppfærslu bætt við.