Jarðskjálftahrina í eldstöðinni Hengill

Ég afsaka hvað þessi grein kemur seint. Ég lenti í tæknilegum vandræðum með farsímann hjá mér sem tók allan daginn að koma í lag og það seinkaði fullt af hlutum hjá mér.

Í gær (29-Apríl-2021) varð jarðskjálftahrina í eldstöðinni Hengill. Þessi jarðskjálftahrina virðist vera tengd flekahreyfingum á þessu svæði. Stærsti jarðskjálftinn í þessari hrinu var með stærðina Mw3,8.

Jarðskjálftavirknin í Henglinum er efst og vestast á jarðskjálftakortinu
Jarðskjálftavirknin í Henglinum. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessi jarðskjálftavirkni virðist vera tengd flekahreyfingum og það er ekki að sjá að þarna séu neinar kvikuhreyfingar á ferðinni ennþá. Ég býst alltaf við stærri og sterkari jarðskjálftahrinum í eldstöðvum sem ekki hafa gosið í mjög langan tíma og eru kaldar eins og var raunin þegar jarðskjálftavirknin hófst í kringum Fagradalsfjall og sú eldstöð varð heit en þá mældust um 50.000 jarðskjálftar áður en eldgosið hófst milli 27 Febrúar til 19 Mars þegar eldgosið hófst.