Þetta er stutt grein um stöðuna í Grindavík og upplýsingar hérna geta orðið úreltar án fyrirvara. Þessi grein er skrifuð þann 1. Desember klukkan 00:45.
Það er ekki mikið að gerast í Grindavík þessa dagana. Fólk má núna vera inni í Grindavík frá klukkan 07:00 til klukkan 19:00 held ég að sé tímasetningin á þessu núna. Jarðskjálftavirknin er í lágmarki núna.
Daglegar upplýsingar
- Dýpsta hola sem hefur uppgötvast er með dýpið 25,7 metrar og er þá kominn niður í grunnvatn á svæðinu. Þannig að líklegt er að þessi hola sé ennþá dýpri en það. Á 25 metra dýpi, þá fer vatnið að fela dýpt sprungunnar. Það er frétt Rúv hérna þar sem eru myndir af þessari holu og vatninu sem er þar.
- Nýjar sprungur halda áfram að myndast í Grindavík og nágrenni. Ásamt því að jörð heldur áfram að síga á stóru svæði. Þetta er að valda meiri skemmdum á húsum, vegum og fleiri hlutum í Grindavík.
- Höfnin er búinn að síga um 30 til 40 sm samkvæmt fréttum frá því fyrir um tveimur dögum síðan. Það er spurning hvort að þetta sig haldi áfram og valdi því að sjór nái að flæða þarna inn á stórt svæði.
- Eldstöðin Svartsengi heldur áfram að þenjast út. Þenslan í dag var 30mm en hefur undanfarna daga verið í kringum 10mm á dag síðustu daga. Aukin þensla bendir til þess að það innflæði kviku sé farið að aukast á ný inn í Svartsengi.
Það er hugsanlegt að eitthvað fari að gerast í kringum eða eftir 9. Desember, þegar reikna má með því að þenslan í Svartsengi nái sömu stöðu og áður en sillan brotnaði þann 10. Nóvember og tæmdi sig í kjölfarið og bjó til kvikuganginn sem er núna undir Grindavík og nágrenni.