Staðan í Grindavík vegna kvikuinnskotsins

Þessar upplýsingar geta orðið úreltar mjög hratt og án viðvörunnar. Það lítur út fyrir að vera rólegt en er það í raun ekki. Þessi grein er skrifuð þann 13. Nóvember 2023 klukkan 00:02.

  • Það er komið fram mikið sig í Grindavík samkvæmt fréttum. Mesta sigið er í kringum 1 metra. Þetta er nógu mikið til þess að flokkast sem sigdalur. Þetta er í frétt mbl.is hérna.
  • Kvika gæti verið allt að nokkra tugi metra undir yfirborðinu í Grindavík eða nærri Grindavík. mbl.is sagði frá þessu hérna. Þetta er lifandi uppfærsla og fréttin gæti verið horfin.
  • Þessi atburðarrás var ekki eitthvað sem einhver var að búast við. Enda hafði ekki verið nein sérstök jarðskjálftavirkni við Sundahnúksgíga fyrir Föstudaginn 10. Nóvember 2023. Um klukkan 08:00 hefst jarðskjálftavirkni við Sundahnúksgíga og var talið upphaflega að um væri að ræða hefðbundna brotaskjálfta vegna þenslunar í Svartsengi. Það var ekki fyrr en eitthvað eftir klukkan 08:00 að Veðurstofan (samkvæmt fréttum) að þarna er ekki um að ræða hefðbundna brota jarðskjálfta. Það varð síðan allt brjálað í jarðskjálftavirkni milli klukkan 16:00 og 19:00.  Þessi jarðskjálftahrina var mjög þétt og það urðu margir jarðskjálftar með stærðina Mw4,0 innan Grindavíkur.
  • Það er tjón í Grindavík á vegum, húsum, pípum og rafmagnsvírum og öðrum innviðum vegna færslunnar sem kvikugangurinn hefur valdið.
  • Kvikugangurinn virðist vera nokkrir metrar í þvermál og allt að eins metra djúpur. Ég hef ekki séð neinar opinberar tölur um dýpt og breidd kvikugangsins. Einu upplýsinganar sem ég hef er lengd kvikugangsins og það er að lengdin er 15 km þegar þessi grein er skrifuð.

Þetta er ekki lítill atburður í eldstöðinni sem veldur þessu. Það sem ég veit ekki og enginn virðist vita almennilega er hvaða eldstöð er að fara að valda þessu. Þetta gæti verið eldstöðin Fagradalsfjall eða þetta gæti verið eldstöðin Reykjanes.

Jarðskjálftar sem mynda beina línu frá sjónum og í gegnum Grindavík og norð-austur af Grindavík upp að Sundhnúksgígar. Kortið sýnir jarðskjálftavirkni síðustu sjö daga.
Jarðskjálftavirknin síðustu sjö daga. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ég mun setja inn nýjar upplýsingar þegar ég hef þær. Ég mun einnig setja inn nýjar upplýsingar ef eitthvað gerist ef ég get.

Staða mála við Sundhnúka / Kálffellsheiði / Reykjanes eldstöðina / Fagradalsfjall / Grindavík kvikuinnskotið

Þessi grein er með stutta uppfærslu á því sem er að gerast. Upplýsingar hérna geta orðið úreltar mjög hratt og án nokkurs fyrirvara.

  • Kvikuinnskotið er núna orðið 15 km langt samkvæmt síðustu mælingu. Það er möguleiki á því að kvikuinnskotið sé að stækka í bæði norð-austur og síðan suður-vestur. Það er ennþá mjög mikil jarðskjálftavirkni í gangi.
  • Þensla á svæðinu er í kringum 120 sm og jafnvel meiri síðan þetta hófst í gær (10. Nóvember 2023).
  • Kvikuinnskotið nær núna út í sjó og sá hluti sem er út í sjó er um 3 til 5 km. Á grunnsævi mun verða sprengigos þegar eldgos hefst í einhverja klukkutíma til daga.
  • Kvikan er núna kominn á 800 metra dýpi þar sem hún stendur grynnst. Það þýðir þó ekki að eldgos hefjist á þeim stað.
  • Eldgosið mun hefjast án viðvörunnar. Þar sem Veðurstofan hefur sagt frá því að vegna jarðskjálftavirkni þá getur hún ekki greint gosóróa þegar hann hefst vegna mikillar jarðskjálftavirkni á svæðinu.
  • Það er núna mikil hætta á stórum jarðskjálfta bæði austan og vestan við kvikuinnskotið á næstu dögum og vikum. Þetta er vegna þeirrar færslu sem kvikuinnskotið hefur búið til á svæðinu.
  • Vegagerðin hefur sett inn á Facebook myndir hérna af tjóni á vegum innan Grindavíkur. Þetta tjón er vegna þess að jörðin er að síga í sundur vegna jarðskjálfta og þenslu.
Rauð lína sem sýnir kvikuinnskotið á korti frá Veðurstofunni. Þessi lína liggur frá Kálffellsheiði og suður í sjó suður-vestur af Grindavík.
Kvikuinnskotið eins og það er við Grindavík. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er erfitt að vita hvað gerist næst en þetta eldgos verður hvorki lítið eða ferðamannavænt.

Mikið af grænum stjörnum á Reykjanesskaga við Grindavík.
Mikil jarðskjálftavirkni við Grindavík síðustu 48 klukkutímana. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ég mun setja inn uppfærslur þegar ég veit meira um stöðu mála.

Kvikuinnskot hefur náð undir eða er að ná undir Grindavík, skyldurýming hefur verið fyrirskipuð

Þetta er stutt grein. Upplýsingar hérna geta orðið úreltar á mjög skömmum tíma.

  • Rýming hefur verið fyrirskipuð í Grindavík. Allir eiga að yfirgefa Grindavík eftir tvo tíma (miðað við frá klukkan 23:00) samkvæmt skipun Almannavarna. Margir hafa yfirgefið Grindavík í dag vegna mjög mikillar jarðskjálftavirkni á svæðinu í dag (10. Nóvember 2023).
  • Kvikuinnskot hefur náð undir eða er að ná undir Grindavík. Þetta þýðir að kvikuinnskotið er um 4 til 7 km langt miðað við þar sem það byrjar norðan við Grindavík.
  • Það er ennþá mjög mikil jarðskjálftavirkni. Það hefur þó dregið úr jarðskjálftavirkninni frá því um klukkan 18:00 þegar jarðskjálftavirknin var sem mest.
  • GPS gögn benda til þess að þarna sé meiri kvika á ferðinni en í öllum þremur síðustu eldgosum samanlagt.
  • Það er hugsanlegt að kvikan sé frá eldstöðinni Fagradalsfjalli. Þetta er eingöngu hugmynd eins og er. Það þýðir að kvikan sem er að koma upp í eldstöðinni Reykjanes (Svartsengi) er ekki ennþá farin af stað. Það gæti gerst án mikillar viðvörunnar einnig.

Ég mun setja inn frekari upplýsingar þegar ég get og hef nýjar upplýsingar. Það er mikið að gerast og staða mála óljóst. Það er einnig mikið af rangfærslum þarna úti. Athugið með heimildir.

Kvikuhreyfingar við fjallið Þorbjörn í morgun

Í dag (31. Október 2023) um klukkan 08:00 í morgun, þá hófst kvikuhreyfing við fjallið Þorbjörn. Það olli jarðskjálfta með stærðina Mw3,7. Það virðist sem að kvikan sé núna á dýpinu 1,5 km, þar sem kvikan er hvað grynnst. Fyrir nokkrum dögum síðan, þá var þessi kvika á dýpinu um 5 til 8 km dýpi. Þessi kvika er því búinn að rísa mjög hratt á þessu svæði, það bendir til þess að þrýstingur sé meiri miðað við kvikuna sem hefur gosið í Fagradalsfjalli. Aukinn þrýstingur gæti valdið stærra eldgosi þegar það hefst. Þenslan sem er við suðurhluta Fagradalsfjalls er ennþá til staðar og það hefur ekkert dregið úr þeirri þenslu. Það eina sem hefur dregið úr er jarðskjálftavirkni á þessu svæði. Jarðskjálftavirknin hefur færst til vestari hluta Fagradalsfjalls. Það ætti ekki að útiloka það að eldgos gæti einnig orðið í Fagradalsfjalli á sama tíma. Atburðarrásin við fjallið Þorbjörn gæti hinsvegar seinkað þeirri atburðarrás við Fagradalsfjall.

Rauðir punktar og grænar stjörnur við fjallið Þorbjörn og einnig vestan af því fjalli. Það eru einnig bláir punktar við Reykjanestá eftir jarðskjálftahrinu þar.
Jarðskjálftahrinan við Þorbjörn og vestan við það fjall. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er erfitt að segja til um það hvað gerist næst í þessu. Eldgos er hinsvegar mjög líklegt en hvar og hvenær er ekki hægt að segja til um en GPS gögn gefa ágæta vísbendingu um hugsanlegar staðsetningar. Staðan núna er mjög flókin og erfitt að segja til um hvað gerist í eldstöðinni Reykjanes og síðan í eldstöðinni Fagradalsfjall.

Ég mun setja inn nýjar upplýsingar um leið og ég veit eitthvað. Ég er búinn að setja saman lista af vefmyndavélum á YouTube síðunni sem ég setti upp fyrir nokkru síðan.

Reykjanesskagi er hugsanlega ein stór eldstöð

Það kom fram í fréttum í dag (3. Júlí 2023) að GPS mælingar eru farnar að benda til þess að hugsanlega sé allur Reykjanesskagi eins stór eldstöð en ekki margar eldstöðvar eins og talið hefur verið fram til dagsins í dag. Það kom fram í viðtali á Bylgjunni (tengill hérna fyrir neðan) að hugsanlega er Reykjanesskagi ein eldstöð en ekki margar eldstöðvar eins og talið hefur verið í dag. Þetta er byggt á GPS gögnum sem hefur verið safnað síðustu ár og núna í þeirri þenslu sem hófst í Apríl, þá sést að þenslan nær yfir allan Reykjanesskaga sem ætti ekki að gerast ef þetta væru stök eldfjöll.

Staðan á þenslunni núna er að frá Apríl, þá er þenslan búinn að ná 2,5sm (25mm) og mesta þenslan er í kringum Fagradalsfjall. Það þýðir að líklega verður næsta eldgos í Fagradalsfjalli eða í nágrenni Fagradalsfjalls. Þessi þensla mun einnig valda stórum jarðskjálftum eftir því sem hún eykst á næstu vikum og mánuðum, auk þessara hefðbundnu litlu jarðskjálfta sem hafa verið í gangi síðan í Apríl.

Ég veit ekki hvenær skilgreinunni á Reykjanesi verður breytt. Þar sem þetta krefst mikilla rannsókna og yfirferðar af hálfu jarðvísindamanna á Íslandi. Þetta þýðir einnig að það þarf að gefa út mikið af vísindagreinum sem þurfa að fara í ritrýni.

Frétt Vísir.is

Fólk á suð­vestur­horninu má búa sig undir reglu­lega jarð­skjálfta (Vísir.is)

Auking í jarðskjálftavirkni í eldstöðvunum Fagradalsfjalli og Reykjanes

Í gær (06-Október-2022) jókst jarðskjálftavirknin í eldstöðvunum Fagradalsfjalli og Reykjanes. Vinsamlegast athugið að Global Volcanism Program hefur núna flokkað Fagradalsfjall sem sér eldstöð sem tengist ekki Krýsuvík-Trölladyngja eldstöðvarkerfinu eftir að Veðurstofa Íslands breytti sínum skilgreiningum eftir rannsóknir á eldgosum í Fagradalsfjalli. Ég mun því nota þessa skilgreiningu frá og með þessari grein þegar ég skrifa um það sem er að gerast í Fagradalsfjalli. Ég mun ekki uppfæra eldri greinar, þar sem það er of mikil vinna en þetta gildir í reynd einnig um þær.

Þetta þýðir einnig að Fagradalsfjall er nýjasta eldstöðin á Íslandi.

Jarðskjálftavirknin í Fagradalsfjalli er sýnd með rauðum, bláum og appelsínugulum punktum sem ná einnig til eldstöðvarinnar Reykjanes
Jarðskjálftavirknin í eldstöðinni Fagradalsfjalli og Reykjanes. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftavirknin í upphafi eldgosatímabils í Fagradalsfjalli er ekki mjög stór. Jarðskjálftar verða stærri þegar kvika fer að troða sér inn í jarðskorpuna en þangað til eru jarðskjálftar litlir en þangað til, þá er jarðskjálftavirknin að mestu leiti aðeins mjög litlir jarðskjálftar og litlar jarðskjálftahrinur.

Styrkir

Það er hægt að styrkja mína vinnu með því að leggja inn á mig með bankamillifærslu með þessum upplýsingum hérna fyrir neðan. Styrkir hjálpa mér að komast af og vinna við þessa vefsíðu. Ég er einnig mjög blankur núna í Október. Takk fyrir stuðninginn. 🙂

Nafn: Jón Frímann Jónsson
Kennitala: 1607804369
Bankabók: 0123-26-010014
Banki: Landsbankinn hf

Þensla frá upphafi September í eldstöðinni Trölladyngja-Krýsuvík og í eldstöðinni Reykjanes

Samkvæmt GPS gögnum sem hægt er að skoða hérna fyrir eldstöðina Trölladyngja-Krýsuvík og hérna fyrir eldstöðina Reykjanes. Þá virðist sem að nýtt þenslutímabil hafi hafist í eldstöðinni Trölladyngja-Krýsuvík í upphafi September og er ennþá í gangi þegar þessi grein er skrifuð. Mjög lítil jarðskjálftavirkni er í gangi þessa stundina en það hefur verið mikil jarðskjálftavirkni á svæðinu undanfarna mánuði og það getur hafa slakað á spennu á svæðinu. Þessi jarðskjálftavirkni útskýrir einnig einhverja af GPS færslunum sem koma fram. Ég hef takmarkaðan skilning á GPS gögnum og því getur mat mitt á þessum gögnum verið lélegt og rangt.

Það virðist einnig vera þensla í gagni í eldstöðinni Reykjanes og án mikillar jarðskjálftavirkni. Sú þensla virðist hafa verið í gangi síðan í upphafi Ágúst. Það hafa ekki orðið nein eldgos í eldstöðinni Reykjanes á þessum tíma. Jafnvel þó svo að komið hafi fram endurtekin tímabil þenslu, jarðskjálfta og sig í eldstöðinni Reykjanes. Stundum kemur fram kvikuinnskot í kjölfarið á þenslutímabili en það virðist ekki hafa gerst núna.

Ef að þetta þenslutímabil heldur áfram í einu eða báðum eldstöðvum. Þá er mjög líklegt að nýtt jarðskjálftatímabil sé að hefjast á Reykjanesskaga. Hvenær slíkt jarðskjálftatímabil hefst er vonlaust að segja til um. Þar sem nýlegar jarðskjálftahrinur og eldgos hafa breytt jarðskorpunni á svæðinu mjög mikið á undanförnum mánuðum. Kvikuinnskot og kvikan sem er þarna valda því að á svæðum er jarðskorpan að verða mýkri vegna hitans frá kvikunni og það dregur úr jarðskjálftavirkninni hægt og rólega. Frekar en í upphafi eldgosa tímabilsins, þegar jarðskorpan var köld og stökk og brotnaði með meiri látum sem olli meiri jarðskjálftavirkni rétt áður en eldgos átti sér stað.

Styrkir

Það er hægt að styrkja mína vinnu hérna með því að leggja inná mig með þessum hérna banka upplýsingum. Takk fyrir stuðninginn. Þar sem styrkir gera mér fært að halda þessari vefsíðu gangandi og vinna þessa vinnu. 🙂

Nafn: Jón Frímann Jónsson
Kennitala: 1607804369
Bankabók: 0123-26-010014
Banki: Landsbankinn hf

Eldgosið í Meradölum endar á næstu dögum

Í dag (19-Ágúst-2022), þá hefur ekki sést neitt hraunflæði koma frá gígnum í Meradölum í Fagradalsfjalli samkvæmt sérfræðingum hjá Jarðvísindadeild Háskóla Íslands sem eru að fylgjast með eldgosinu og þetta hefur einnig sést á vefmyndavélum sem fylgjast með eldgosinu. Hraunslettur hafa sést koma upp úr gígnum, þannig að eldgosinu er ekki lokið ennþá. Gosórinn hefur einnig verið að minnka síðan í gær (18-Ágúst-2022) og hefur haldið áfram að lækka í dag.

Hvenær eldgosinu líkur er erfitt að segja en það verður líklega á næstu dögum.

Styrkir

Þar sem ég er rosalega blankur núna í Ágúst. Þá getur fólk styrkt mína vinnu með því að millifæra inná mig með þessum hérna bankaupplýsingum. Allir styrkir hjálpa mér. Takk fyrir. 🙂

Nafn: Jón Frímann Jónsson
Kennitala: 1607804369
Banki: 0123-15-037975
Banki: Landsbankinn

Vaxandi púls virkni í eldgosinu boðar endalok eldgossins

Í fréttum Rúv var það nefnt að púls virknin er vaxandi í eldgosinu í Meradölum. Þetta bendir sterklega til þess að eldgosinu sé að fara að ljúka. Þetta veldur því að hrauni er þeytt hátt í loft upp.

Þetta er sama munstur og kom fram í eldgosinu í fyrra í Geldingadölum. Þá tók það talsverðan tíma fyrir eldgosið að enda og það gæti einnig gerst núna.

Það eru ekki neinar aðrar fréttir af eldgosinu. Það eru áhugaverðir atburðir að gerast út á hrauninu en nýja hraunið er fari að valda því að hraun frá því í fyrra sem situr í hraunbreiðunni sem er þarna er farið að kreistast út vegna þunga nýja hraunsins á jöðrunum. Þar sem það er ennþá fljótandi hraun í hraunbreiðunni sem er þarna og verður í marga áratugi.

Styrkir

Þar sem ég er mjög blankur í Ágúst. Þá er hægt að styrkja mig með því að leggja inn á mig beint eða nota PayPal takkann hérna til hliðar. Upplýsingar fyrir bankamillifærslu er að finna hérna.

Breyting á óróanum í eldgosinu í Meradölum

Í morgun (13-Ágúst-2022) klukkan 06:30 til 08:00 þá minnkaði óróinn í eldgosinu í Meradölum mjög hratt áður en óróinn fór að aukast aftur. Hvað gerðist er óljóst en það hafa ekki ennþá opnast nýjar sprungur eða aðrar breytingar orðið á eldgosinu ennþá. Óróinn er hinsvegar mjög óstöðugur að sjá þessa stundina.

Óróinn við Fagradalsfjall á 0.5 - 1Hz, 1 - 2Hz og 2 - 4Hz. Litir óróans eru grænn (1 - 2Hz), blár (2 - 4Hz), fjólublár (0.5 - 1Hz)
Óróinn við Fagradalsfjall. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er möguleiki að ný sprunga sé að fara að opnast, það getur gerst bæði norðan við og sunnan við núverandi eldgos. Það er einnig möguleiki að nýjar sprungur opnist sitt hvorum megin við núverandi eldgos. Þetta byggir á því hvaða leið kvikan er fær um að fara í þessu eldgosi. Það er mjög óljóst hvað mun gerast og hvenær það gerist. Hvar næsti hluti af þessu eldgosi verður skiptir miklu máli með hugsanlegt tjón á vegum, sérstaklega ef kvika fer að renna yfir mikilvæga vegi á Reykjanesskaga.

Styrkir

Ég minni fólk á að styrkja mína vinnu ef það getur og vill. Það er hægt að fá upplýsingar um það hvernig er hægt að styrkja mig á síðunni styrkir eða nota PayPal hérna til hliðar. Millifærsla innan Íslands er alltaf öruggari og hraði heldur en notkun á PayPal. Ég þakka fyrir allan stuðning, það léttir mér lífið. 🙂