Þenslan í eldstöðinni Svartsengi nær sömu eða nærri því stöðu og 10. Nóvember

Þessar upplýsingar eru óljósar, þetta eru hinsvegar bestu upplýsingar sem ég hef um stöðu mála þegar þessi grein er skrifuð.

Það virðist sem að eldstöðin Svartsengi hafi náð sömu eða svipaðri þenslu og varð þann 10. Nóvember. Það hefur orðið smá tilfærsla hvar þessi þensla er að eiga sér stað en núna er þenslan nær fjallinu Þorbirni, það þýðir að þenslan er einnig nær Sundhnúkum og Sundhnúkagígum. Það bendir sterklega til þess að kvika sé að safnast upp á þessu svæði í jarðskorpunni, vegna þess veikleika sem er þarna í jarðskorpunni. Þetta bendir einnig sterklega til þess að þegar kvikan fer af stað, þá muni kvikan koma upp við Sundhnúka og Sundhnúkagíga og inn í það svæði sem kvikugangurinn bjó til þann 10. Nóvember 2023. Sá kvikugangur hefur fyllt upp í allt mögulegt pláss á því svæði sem sigdalurinn bjó til og því eru meiri líkur á því að næsta kvikuinnskot endi með eldgosi.

Það er engin jarðskjálftavirkni í eldstöðinni Svartsengi þegar þessi grein er skrifuð. Það eru miklar líkur á því að þegar kvikan fer á hreyfingu á ný, þá muni hefjast mjög mikil og kröftug jarðskjálftahrina í Svartsengi, auk þess sem jarðskjálftahrina mun hefjast nærri Sundhnúkum og Sundhnúkagígum. Þensla í eldstöðvum kemur ekki alltaf af stað aukinni jarðskjálftavirkni, þar sem slíkt veltur mikið á ástandi jarðskorpunnar þegar eldstöðin er virk. Það er ekki hægt að segja til um það hvenær næsta virkni hefst í Svartsengi, þar sem það er möguleiki á því að kvikan sem hefur flætt í Svartsengi þurfi smá tíma til þess að umbreytast áður en næsti atburður hefst. Hversu langan tíma það tekur er óljóst, það getur verið allt frá sex mánuðum og upp í tvö ár. Það veltur alveg á því hvernig kvika var að flæða þarna inn og hversu gasrík sú kvika er, þannig að þessi atburðarrás getur bæði verið sneggri og styttri en þegar síðasta innflæði af kviku inn í Svartsengi átti sér stað.

Þegar þessi grein er skrifuð. Þá er allt rólegt í Svartsengi.