Staðan í Bárðarbungu þann 15-Október-2014

Í dag (15-Október-2014) varð ekki mikil breyting á stöðunni frá því í gær (15-Október-2014). Stærsti jarðskjálftinn í dag var með stærðina 5,4 og fannst vel á Akureyri. Aðrir jarðskjálftar hafa verið minni. Ég hef ekki frétt að neinum breytingum á eldgosinu í Holuhrauni sem heldur áfram eftir því sem ég best veit, og ekki er að sjá neina breytingu á eldgosinu sé að ljúka. Við jarðskjálftann þá lækkaði askja Bárðarbungu um rúmlega 15 sm.

141015_2255
Jarðskjálftarnir í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutímana. Höfundaréttur að þessari mynd tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ég held að það séu ekki neinar frekari fréttir af stöðu mála í Bárðarbungu eins og er, það er alltaf eitthvað að gerast á hverjum degi og því held ég áfram að skrifa um það litla sem þó gerist. Sá stöðugleiki sem er í eldgosinu og í virkninni í Bárðarbungu er blekkjandi, þar sem að þetta getur allt saman breyst án nokkurs fyrirvara.

Fyrir þá sem hafa áhuga, þá hægt að hlusta á jarðskjálftann sem varð í dag (15-Október-2014) sem ég mældi. Ég breytti þeim gögnum sem ég hef um jarðskjálftann í hljóðskrár frá þeim tveim jarðskjálftamælum sem ég er með. Þetta er ekki langur hljóðbútur, rétt um 3 sekúndur hver þeirra. Þessir hljóðbútar eru undir Creative Commons leyfi. Sjá nánar á CC Leyfi vefsíðunni.

Jarðskjálftamælirinn í Böðvarshólum.
141015.111600.bhrzZ

Jarðskjálftamælirinn í Heklubyggð.
141015.111607.hkbzZ

Jarðskjálfti í Kverkfjöllum

Í dag (19-Desember-2013) klukkan 09:30 varð jarðskjálfti í Kverkfjöllum. Stærð þessa jarðskjálfta var 3,1 og dýpið var 5,0 km.

131219_1415
Jarðskjálftinn í Kverkfjöllum. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Engir eftirskjálftar mældust í kjölfarið á þessum jarðskjálfta. Þetta er fyrsta virknin sem á sér stað í Kverkfjöllum í talsverðan tíma núna. Virkni hefur verið að aukast í Kverkfjöllum á undanförnum árum en ekkert bendir til þess að það sé farið að styttast í að eldgos muni eiga sér stað í Kverkfjöllum.

Uppfærsla 1: Þrír eftirskjálftar áttu sér stað í Kverkfjöllum. Stærðir þessara eftirskjálfta voru með stærðina 1,3 til 1,7. Dýpi þessara jarðskjálfta var 6,5 til 3,4 km.

131219_1615
Eftirskjálftar í Kverkfjöllum. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er hugsanlegt að eftirskjálftar munu halda áfram í Kverkfjöllum á næstu klukkutímum til dögum.

Bloggfærsla uppfærð klukkan 17:04.

Jarðskjálfti 15 km norðan við Kolbeinsey

Í dag (15-Nóvember-2013) klukkan 05:32 varð jarðskjálfti með stærðina 3,4 rúmlega 15 km norðan við Kolbeinsey. Dýpið á þessum jarðskjálfta varð 3,9 km samkvæmt Veðurstofu Íslands. Vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu er möguleiki á því að stærð og dýpi jarðskjálftans sé ekki mjög nákvæmt.

131115_1620
Jarðskjálftinn fyrir norðan Kolbeinsey. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Vegna fjarlægðar er erfitt að átta sig á því hvað er að gerast þarna. Hinsvegar hefur engin órói ennþá mælst frá Kolbeinsey og það er ekkert sem bendir til þess að þarna sé eldgos hafið eins og stendur. Þessi jarðskjálfti kom vel fram á jarðskjálftamælanetinu mínu, á jarðskjálftamælastöðinni í Böðvarshólum. Hægt er að skoða jarðskjálftamælavefsíðuna mína hérna.

Jarðskjálfti djúpt á Reykjaneshrygg

Í gær (01-Október-2013) varð jarðskjálfti djúpt á Reykjaneshrygg. Stærð þessa jarðskjálfta var 5.2 samkvæmt sjálfvirkum niðurstöðum frá EMSC. Fjarlægð þessa jarðskjálfta frá Reykjavík er í kringum 1171 km, þannig að hann er mjög djúpt á Reykjaneshrygg.

337083.regional.mb.5.2.svd-02-Oktober-2013
Jarðskjálftinn á Reykjaneshrygg. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir EMSC.

Vegna fjarlægðar er ekki hægt að segja til um það hvort að þessi jarðskjálfti var hluti af hrinu eða bara stakur jarðskjálfti. Það er mín ágiskun að þessi jarðskjálfti hafi verið hluti af jarðskjálftahrinu, þó ekki sé hægt að staðfesta það vegna fjarlægðar upptakana frá næsta jarðskjálftamælaneti. Nánari upplýsingar um þennan jarðskjálfta er hægt að finna á vefsíðu EMSC hérna.

Jarðskjálfti suður af Heklu

Í kvöld (28-September-2013) klukkan 21:47 varð jarðskjálfti suður af Heklu. Þessi jarðskjálfti mældist með stærðina 2,0 og dýpið var mælt 2,9 km samkvæmt sjálfvirkum mælingum frá Veðurstofu Íslands. Engin merki hafa komið fram eftir þennan jarðskjálfta sem benda til þess að eldgos sé að fara hefjast, engir aðrir jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu í kjölfarið á þessum jarðskjálfta.

130928_2155
Jarðskjálftinn suður af Heklu í kvöld. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þetta er annar jarðskjálftinn í September sem verður innan eldstöðvar kerfis Heklu. Fyrri jarðskjálftinn átti sér stað í toppi Heklu og skrifaði ég um hann hérna. Ég reikna ekki með frekari virkni í Heklu. Það er þó erfitt að vera viss um það þar sem merki þess að eldgos sé að hefjast í Heklu eru illa þekkt í dag, sérstaklega þegar um er að ræða langan fyrirvara í Heklu. Þessi jarðskjálfti kom vel fram á jarðskjálftamælinum mínum í Heklubyggð og er hægt að sjá hann hérna (uppfærist á 5 mín. fresti).

Minniháttar jarðskjálfti í Heklu

Í gær (04-September-2013) varð minniháttar jarðskjálfti í eldstöðinni Heklu. Stærð þessa jarðskjálfta var 0,4 og dýpið var innan við 1 km. Þannig að ekki var um að ræða jarðskjálfta af völdum kvikuhreyfinga.

130904_2025
Jarðskjálftinn í Heklu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þar sem þessi jarðskjálfti var grunnur. Þá er ólíklegt að hann tengist hugsanlegu eldgosi í Heklu í framtíðinni.

Minniháttar jarðskjálfti í Heklu

Í gær (21-Júní-2013) varð minniháttar jarðskjálfti í Heklu. Þetta var lítill skjálfti með stærðina 0.6 og dýpið 8.3 km, þó er þessi jarðskjálfti illa staðsettur samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands sem ég fékk í dag.

130621_2020
Jarðskjálftinn í Heklu er til norð-austurs. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þetta er enn einn jarðskjálftinn í röð jarðskjálfta sem hafa átt sér stað í Heklu á undanförnum mánuðum. Á meðan þessi jarðskjálfti var illa staðsettur, þá var hann eingöngu mældur vegna betra SIL mælakerfis í kringum Heklu sem hefur verið sett upp á síðustu tveim árum.

Það eru engin merki þess að Hekla sé að fara gjósa þessa stundina.

Jarðskjálfti í Heklu

Í dag klukkan 05:06 varð jarðskjálfti í Heklu. Stærð þessa jarðskjálfta var ekki nema rétt rúmlega 1,5 og dýpið var 7,8 km. Engin frekari virkni hefur átt sér stað í kjölfarið á þessum jarðskjálfta, og það er ekki neina breytingu að sjá jarðskjálftamælum sem eru í kringum Heklu.

130504_1840
Jarðskjálftinn í Heklu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftamælirinn minn í Heklubyggð er þessa stundina sambandslaus við internetið vegna bilunar. Ég veit ekki eins og er hvenar jarðskjálftamælirinn kemst í samband við umheiminn á ný, það gæti tekið einhverja daga í mesta lagi. Hinsvegar ætti jarðskjálftamælirinn að vera skrá öll gögn svo lengi sem tölvan er í gangi og engin bilun kemur upp þar.

Jarðskjálfti í Heklu

Í morgun varð jarðskjálfti með stærðina 1,4 í Heklu. Þessi jarðskjálfti varð á 11,2 km dýpi samkvæmt yfirförnum niðurstöðum Veðurstofu Íslands. Það er ómögurlegt að segja til um nákvæmlega hvað er í gangi þarna. Hinsvegar hefur Hekla yfirleitt ekki neina jarðskjálfta nema rétt fyrir eldgos. Þannig að þessi virkni verður að teljast mjög óvenjuleg.

130321_1540
Jarðskjálftinn í Heklu er merktur með appelsínugulum punkti. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ég hef ekki hugmynd um hvað er að gerast í Heklu á þessari stundu. Þar sem þessi jarðskjálftavirkni verður að teljast mjög óvenjuleg. Það eina sem hægt er að gera núna er að fylgjast með virkni í Heklu og sjá hvað gerist.

Jarðskjálfti með stærðina 4,8 djúpt á Reykjaneshryggnum

Í nótt varð jarðskjálfti með stærðina 4,8 samkvæmt mælingu EMSC. Þessi jarðskjálfti átti upptök sín djúpt á Reykjaneshryggnum. Stærðin á jarðskjálftanum er byggð á sjálfvirkum gögnum frá EMSC.

308812.regional.svd.20.03.2013
Upptök jarðskjálftans á Reykjaneshryggnum. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir EMSC.

Ég hef voðalega lítið að segja um þennan jarðskjálfta. Þá sérstaklega þar sem hann varð langt útá hafi og litlar upplýsingar að hafa um jarðskjálfta sem eiga sér stað þar. Þetta svæði á Reykjaneshryggnum hefur þó verið að sjá umtalsvert meiri virkni núna en undanfarið. Þó getur vel verið að þetta sé bara hefðbundin jarðskjálftavirkni á þessu svæði. Annars er mjög erfitt að segja til um það vegna skorts á gögnum. Þeir sem vilja kynna sér jarðskjálftan nánar þá er hægt að gera það hérna á vefsíðu EMSC.