Ég komst ekki að skrifa greinina um Krýsuvík í gær (13. Apríl 2024) þar sem ég var upptekin í öðru.
Í gær (13. Apríl 2024) klukkan 10:02 varð jarðskjálfti með stærðina Mw3,3 í eldstöðinni Krýsuvík rétt sunnan við Kleifarvatn. Þessi jarðskjálftahrina virðist hafa orðið á sprungu sem er að mestu leiti þekkt fyrir að búa til jarðskjálfta sem verða í tengslum við spennubreytingar á flekaskilum. Þetta misgengi er ekki tengt eldgosavirkni á þessu svæði, þar sem þær sprungur eru meira suðvestur-norðaustur stefnu en þessi sprunga er í stefnuna norður-suður. Það flækir hinsvegar málin að kvika á miklu dýpi getur komið af stað hreyfingum á þessum sprungum óháð gerð þeirra. Mig grunar að það sé tilfellið hérna.
Eldstöðin Krýsuvík er ekki tilbúin til þess að hefja eldgos eins og er, miðað við það sem ég er að sjá núna. Það eru hinsvegar merki um það að eldstöðin sé farin að gera sig tilbúna í eldgos. Hversu löng bið verður þangað til að eldgos byrja í eldstöðinni Krýsuvík er ekki eitthvað sem hægt er að segja til um.