Jarðskjálfti 15 km norðan við Kolbeinsey

Í dag (15-Nóvember-2013) klukkan 05:32 varð jarðskjálfti með stærðina 3,4 rúmlega 15 km norðan við Kolbeinsey. Dýpið á þessum jarðskjálfta varð 3,9 km samkvæmt Veðurstofu Íslands. Vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu er möguleiki á því að stærð og dýpi jarðskjálftans sé ekki mjög nákvæmt.

131115_1620
Jarðskjálftinn fyrir norðan Kolbeinsey. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Vegna fjarlægðar er erfitt að átta sig á því hvað er að gerast þarna. Hinsvegar hefur engin órói ennþá mælst frá Kolbeinsey og það er ekkert sem bendir til þess að þarna sé eldgos hafið eins og stendur. Þessi jarðskjálfti kom vel fram á jarðskjálftamælanetinu mínu, á jarðskjálftamælastöðinni í Böðvarshólum. Hægt er að skoða jarðskjálftamælavefsíðuna mína hérna.

Tveir litlir jarðskjálftar í Heklu

Ég biðst afsökunar á því að vera seinn með þessa bloggfærslu.

Á Miðvikudaginn (23-Október-2013) urðu tveir litlir jarðskjálftar í Heklu. Einn jarðskjálfti átti sér stað fyrir utan sjálfa megineldstöðina en í sjálfu Heklukerfinu. Allir jarðskjálftanir voru litlir og var sá stærsti með stærðina 1,6 og dýpið 1,3 km. Þessa stundina er óljóst hvað er að valda þessari jarðskjáfltavirkni í Heklu.

131024_2315
Jarðskjálftanir í Heklu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Hingað til hafa ekki verið nein merki þess að eldgos sé að fara hefjast í Heklu. Vefmyndavél sem vísar á Heklu er að finna hérna (jonfr.com), hérna (Rúv.is) og síðan hérna (livefromiceland.is). Hægt er að fylgjast með jarðskjálftagröfunum mínum hérna. Jarðskjálftamælirinn við Heklu mælir jarðskjálfta alveg niður í 0,0 í góðum skilyrðum. Þannig að ef eldgos hefst í Heklu þá munu merki eldgoss koma mjög vel fram á jarðskjálftamælinum mínum við Heklu.

Jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu

Í gær (18-Október-2013) hófst jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu. Þessi jarðskjálftahrina er lítil og stærsti jarðskjálftinn er eingöngu með stærðina 2,5. Jarðskjálftahrinan er á suðurenda ónefndar eldstöðvar sem er þarna á hafsbotninum.

131019_0030
Jarðskjálftahrinan á Tjörnesbrotabeltinu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er óvíst hvort að mikið verði úr jarðskjálftavirkni á þessu svæði. Eins og stendur er jarðskjálftavirknin þarna lítil til miðlungs en enginn jarðskjálfti hefur náð stærðinni 4,0 á þessu svæði ennþá.

Jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli

Minniháttar jarðskjálftavirkni hefur haldið áfram í Eyjafjallajökli síðan hún hófst í síðustu viku. Þetta eru mjög litlir jarðskjálftar og hefur enginn þeirra náð stærðinni 1,0 ennþá. Þessi jarðskjálftavirkni er einnig mjög grunn, eða á innan við 5 km dýpi. Ég veit ekki ennþá hvað er að valda þessari jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli og ekki er víst að ég muni komast nokkurntímann að því.

131016_2345
Jarðskjálftavirknin í Eyjafjallajökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessa stundina er engin hætta á eldgosi í Eyjafjallajökli. Þar sem engin ný kvika er að flæða inn í eldfjallið eins og er. Hægt er að fylgjast með Eyjafjallajökli hérna (jonfr.com) og hérna (livefromiceland.is)

Jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga

Í dag (13-Október-2013) klukkkan 01:11 hófst jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga. Þessi jarðskjálftahrina var mjög lítil í upphafi þangað til klukkan 07:34 þegar jarðskjálfti með stærðina 4,8 átti sér stað. Sá jarðskjálfti fannst mjög víða, samkvæmt fréttum allt frá Vík í Mýrdal til Hólmavíkur á Ströndum. Talsverð eftirskjálftavirkni hefur átt sér stað í kjölfarið á stærsta jarðskjálftanum. Undan stærsta jarðskjálftanum voru tveir jarðskjálftar með stærðina 3,4 og síðan 3,5 með upptök á svipuðum slóðum. Ekki hefur verið tilkynnt um neinar skemmdir samkvæmt fréttum í kjölfarið á þessum jarðskjálfta.

131013_1415
Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærstu jarðskjálftarnir sáust mjög vel á jarðskjálftamæla-netinu mínu og er hægt að skoða jarðskjálftana hérna á jarðskjálftamæla-vefsíðunni sem ég er með.

131013.073300.ebiz.psn
Jarðskjálftinn sem mældist með stærðina 4,8. Þessi jarðskjálftamælastöð er á Eyrarbakka og útslagið var mest þar eins og sést, þar sem útslagið er meira en hæsta útslag jarðskjálftamælisins. Þessi mynd er undir Creative Commons Leyfi. Nánari upplýsingar er að finna á CC leyfi síðunni.

131013.073300.hkbz.psn
Stærsti jarðskjálftinn á Reykjanesskaga á jarðskjálftamælum í Heklubyggð. Þessi mynd er undir Creative Commons Leyfi. Nánari upplýsingar er að finna á CC leyfi síðunni.

131013.073300.bhrz.psn
Stærsti jarðskjálftinn á jarðskjálftamælinum í Böðvarshólum. Þessi mynd er undir Creative Commons Leyfi. Nánari upplýsingar er að finna á CC leyfi síðunni.

131013.073300.sktz.psn
Stærsti jarðskjálftinn á jarðskjálftamælinum í Skeiðflöt. Þessi mynd er undir Creative Commons Leyfi. Nánari upplýsingar er að finna á CC leyfi síðunni.

Það er ekki hægt að segja til um það hvernig þessi jarðskjálftahrina mun þróast á næstu klukkutímum. Undanfarna klukkutíma hefur dregið úr jarðskjálftavirkni en það er engu að síður hætta á því að jarðskjálftavirknin taki sig upp aftur og aukist á ný. Þetta svæði á Reykjanesskaganum er þekkt fyrir slíka tegund af virkni, það er þó ekki víst að slíkt muni gerast en það er hætta á því. Eins og stendur er ekkert sem bendir til þess að þarna sé kvika á ferðinni og engin hætta á eldgosi eins og stendur. Sú staða gæti breyst en mér þykir það ólíklegt eins og staðan er núna.

Jarðskjálftahrina í Torfajökli

Í dag (10-Október-2013) varð minniháttar jarðskjálftahrina í Torfajökli. Stærsti jarðskjálfti þessar hrinu var með stærðina 2,2 og dýpið var 0,4 km. Jarðskjálftahrinur eru algengar í Torfajökli og boða líklega ekkert sérstakt.

131010_1940
Jarðskjálftahrinan í Torfajökli (norðan Mýrdalsjökuls). Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er möguleiki á því að frekari jarðskjálftavirkni muni eiga sér stað á þessu svæði næstu daga og vikur. Það er ólíklegt að sú virkni muni verða stærri en sú jarðskjálftahrina sem átti sér stað í dag.

Jarðskjálftahrina í Eyjafjallajökli

Í dag (10-Október-2013) varð minniháttar jarðskjálftahrina í Eyjafjallajökli. Þetta var mjög lítil jarðskjálftahrina og enginn jarðskjálftinn náði stærðinni 2,0. Stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 1,0 og á dýpinu 4,3 km. Það hafa ekki komið fram nein merki þess að eldgos sé að fara hefjast í Eyjafjallajökli, og það hafa heldur ekki komið fram nein merki þess að ný kvika sé farin að streyma inn í Eyjafjallajökul. Hugsanlegt er að þetta sé gömul kvika sem er á ferðinni hérna, það er þó erfitt að vera viss um það eins og er. Ef þetta er gömul kvika og ef þetta nær upp á yfirborðið þá verða í mesta lagi sprengingar. Það er hinsvegar ekkert víst að slíkt muni gerast og ekkert bendir til þess eins og er að slíkt sé að fara gerast.

131010_1940
Jarðskjálftahrinan í Eyjafjallajökli. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ástæða þess að svona litlir jarðskjálftar mælast núna í Eyjafjallajökli er sú að SIL mælanetið er orðið mun þéttara í kringum Eyjafjallajökli en var fyrir eldgosið árið 2010. Það þýðir að mun minni jarðskjálftar eru að mælast núna en árið 2010. Á þessari stundu eru þetta ekkert nema jarðskjálftar og ég reikna ekki með neinum frekari atburðum í kjölfarið á þessari jarðskjálftahrinu. Það gæti þó breyst með skömmum fyrirvara ef frekari breytingar verða á Eyjafjallajökli á næstunni.

Eldgosið árið 2010.
Eldgosið árið 1821 – 1823.

Jarðskjálftar suður af Heklu

Í nótt (08-Október-2013) klukkan 04:49 varð jarðskjálfti með stærðina 1,9 sunnan við eldstöðinni Heklu, dýpi þessa jarðskjálfta var 7,3 km. Annar jarðskjálfti átti sér stað klukkan 04:59 og var stærð þess jarðskjálfta 0,8 og var með dýpið 5,8 km. Líklegar ástæður fyrir þessum jarðskjálfta eru þrýstibreytingar í eldstöðvakerfi Heklu.

131008_1615
Jarðskjálftanir fyrir sunnan Heklu síðustu nótt. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það hefur verið óvenjulega mikil jarðskjálftavirkni í Heklu undanfarið og eru ástæður þess ekki ljósar eins og stendur. Það er hinsvegar nauðsynlegt að benda á þá staðreynd að í kringum Heklu eru núna fleiri SIL stöðvar en áður, og það þýðir að fleiri jarðskjálftar eru að mælast núna en á undanförnum árum. Það eru ekki nein merki þess að eldgos sé að fara hefjast í Heklu á þessari stundu, eldstöðin er ennþá róleg eins og hún hefur verið síðustu 13 árin.

Jarðskjálfti suður af Heklu

Í kvöld (28-September-2013) klukkan 21:47 varð jarðskjálfti suður af Heklu. Þessi jarðskjálfti mældist með stærðina 2,0 og dýpið var mælt 2,9 km samkvæmt sjálfvirkum mælingum frá Veðurstofu Íslands. Engin merki hafa komið fram eftir þennan jarðskjálfta sem benda til þess að eldgos sé að fara hefjast, engir aðrir jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu í kjölfarið á þessum jarðskjálfta.

130928_2155
Jarðskjálftinn suður af Heklu í kvöld. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þetta er annar jarðskjálftinn í September sem verður innan eldstöðvar kerfis Heklu. Fyrri jarðskjálftinn átti sér stað í toppi Heklu og skrifaði ég um hann hérna. Ég reikna ekki með frekari virkni í Heklu. Það er þó erfitt að vera viss um það þar sem merki þess að eldgos sé að hefjast í Heklu eru illa þekkt í dag, sérstaklega þegar um er að ræða langan fyrirvara í Heklu. Þessi jarðskjálfti kom vel fram á jarðskjálftamælinum mínum í Heklubyggð og er hægt að sjá hann hérna (uppfærist á 5 mín. fresti).

Minniháttar jarðskjálftahrina í Öræfajökli

Í dag (09-September-2013) varð minniháttar jarðskjálftahrina í Öræfajökli. Þetta var minniháttar jarðskjálftahrina og var mjög grunn og var á dýpinu 2,6 til 4,8 km. Stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 2,0.

130909_1805
Jarðskjálftahrina í Öræfajökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftavirkni er ekki mikil í Öræfajökli og það gerir þessa jarðskjálftavirkni mjög áhugaverða. Þessa stundina er þetta bara jarðskjálftavirkni og ég reikna ekki með því að neitt annað gerist í kjölfarið á þessari jarðskjálftavirkni. Hugsanlegt er að fleiri jarðskjálftar muni eiga sér stað í Öræfajökli næstu dögum og vikum. Þó er alveg jafn líklegt að ekkert meira muni gerast í kjölfarið á þessari jarðskjálftavirkni.