Staðan í Kötlu klukkan 20:36

Eldstöðin Katla er aftur byrjuð með jarðskjálftahrinu.

Jarðskjálftavirkni í Kötlu hefur verið að aukast hratt í dag (06-Október-2016). Eins og stendur er jarðskjálftavirknin ekki ennþá kominn á það stig sem hún var á fyrir viku síðan. Aðstæður eru hinsvegar að breytast hratt þessa stundina og því er ljóst að virknin getur breyst hratt og án mikillar viðvörunar. Stærsti jarðskjálfti síðan í morgun var með stærðina 2,4 og varð sá jarðskjálfti klukkan 14:11. Eins og stendur þá hafa aðrir jarðskjálftar verið minni (þegar þetta er skrifað).

161006_1855
Jarðskjálftavirknin í Kötlu klukkan 18:55. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er einnig mjög áhugavert að jarðskjálftavirknin sé á mjög litlu svæði, það bendir til þess að kvikan sé að reyna brjóta sér leið þar upp með því að „bora“ sig þar í gegn. Ég sá svipað ferli í Bárðarbungu nokkru áður en eldgos hófst þar. Það er ekki hægt að segja til um það hversu lengi þetta ferli mun taka og hvort að þetta ferli muni stoppa, ég tel víst, miðað við þá virkni sem hefur verið undanfarið að það er ólíklegasta niðurstaðan til að koma fram. Ég reikna með því að sú jarðskjálftahrina sem er hafin í dag muni aukast þangað til að nýjum toppi er náð eða eldgos hefst. Það er ekkert eldgos hafið í Kötlu ennþá.

Þessi grein verður uppfærð eftir þörfum.

Hætta á niðurtíma vegna fellibyls

Vegna fellibylsins Matthías þá er hætta á niðurtíma á þessum vef en þessi vefsíða er hýst í Orlando, Flórída. Mesta hættan á niðurtíma er á morgun (Föstudag) þegar aðal veðrið gengur yfir Flórída. Ég mun taka afrit af þessum vef til að eiga ef allt skyldi fara á versta veg. Ég vonast til þess að vefurinn haldist uppi í gegnum þetta veður en það er enginn leið til þess að tryggja að svo verði.