Há leiðni í Jökulsá á Fjöllum líklega vegna Bárðarbungu

Síðustu 10 daga hefur verið há leiðni í Jökulsá á Fjöllum og það virðist sem að þessi háa leiðni í Jökulsá á Fjöllum komi frá Bárðarbungu frekar en Kverkfjöllum eins og talið var í fyrstu. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem Veðurstofa Íslands hefur þá er ekki aukið rennsli úr Kverkfjöllum eins og talið var. Þar að auki þá hefur ekki komið fram neinn toppur í þessu jökulflóði eins og búast mátti við þegar lónið í Kverkfjöllum tæmir sig.

Það er ennþá mjög óljóst hvað er í gangi þarna. Það hafa ekki komið fram nein merki þess að þarna hafi orðið eldgos í Bárðarbungu á undanförnum dögum. Ekki er ljóst hvaðan þetta jökulvatn er að koma þar sem ekki hefur verið hægt að fljúga yfir svæðið á undanförnum dögum vegna veðurs. Það er möguleiki á því að ketill í Vatnajökli sé að tæma sig núna en það vantar samt hefðbundinn topp í slíku jökulflóði. Hinsvegar miðað við það hversu langan tíma þetta jökulflóð hefur varað þá er ljóst að slíkur ketill hlýtur að vera talsvert stór. Þetta gæti einnig þýtt mjög slæmar fréttir fyrir brýr og annað sem er neðar þar sem Jökulsá á Fjöllum rennur um ef að stórt jökulflóð verður skyndilega eða ef eldgos hefst þarna án nokkurs fyrirvara.

Fréttir af þessum atburðum

Upptök frekar í Bárðarbungu en Gengissigi (Rúv.is)