Jarðskjálftahrina nærri Bláfjöllum / Breinnisteinsfjöllum

Á Laugardaginn (16-Nóvember-2013) hófst jarðskjálftahrina á stað sem Veðurstofan kallar Vífilsfell og er heiti á litlum hól á þessu svæði. Í upphafi var jarðskjálftahrinan mjög lítil og fáir jarðskjálftar mældust. Í nótt og snemma morguns þá fór jarðskjálftahrinan hinsvegar að aukast og hefur virknin haldist mjög stöðug síðan þá.

131118_1525
Jarðskjálftahrinan á Reykjanesinu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærstu jarðskjálftanir í þessari hrinu hafa hingað til eingöngu náð stærðinni 2,9 og þeir hafa ekki fundist hingað til. Það er ekkert sem bendir til þess að eldgos sé að fara hefjast eða að þessir jarðskjálftar tengist kvikuhreyfingum á svæðinu. Það er ekki hægt að útiloka slíkar breytingar en það er ólíklegt að slíkt muni gerast. Eins og stendur er jarðskjálftahrinan ennþá í gangi og það er vonlaust að vita hversu lengi þessi jarðskjálftahrina mun standa yfir. Stærstu jarðskjálftanir koma fram á jarðskjálftamælanetinu mínu og er hægt að skoða það hérna.

Minniháttar jarðskjálftahrina nærri Hjörleifshöfða í eldstöðvarkerfi Kötlu

Í dag (17-Nóvember-2013) klukkan 06:21 hófst minniháttar jarðskjálftahrina nærri Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi. Þessari jarðskjálftahrinu lauk klukkan 07:09. Stærsti jarðskjálftinn í þessari hrinu var með stærðina 1,8 og dýpið í kringum 18 km. Þessi jarðskjálftahrina bendir til þess að þarna hafi átt sér kvikuinnskot á dýpi. Það er þó ekki ljóst hvort að þetta táknar einhverja breytingu í hegðun Kötlu, það er ólíklegt að þetta sé undanfari frekari virkni í Kötlu.

131117_1815
Jarðskjálftavirknin nærri Hjörleifshöfða í eldstöðvarkerfi Kötlu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Hjörleifshöfði sjálfur er líklega myndaður í eldgosi fyrir einhverjum þúsundum árum síðan. Þó hef ég ekki nánari upplýsingar um hann. Þó er talið að þetta hafi verið eyja áður en eldgos í Kötlu breytti því fyrir löngu síðan. Hægt er að skoða Hjörleifshöfða úr fjarlægð með Google Maps og Street View hérna.

Jarðskjálfti 15 km norðan við Kolbeinsey

Í dag (15-Nóvember-2013) klukkan 05:32 varð jarðskjálfti með stærðina 3,4 rúmlega 15 km norðan við Kolbeinsey. Dýpið á þessum jarðskjálfta varð 3,9 km samkvæmt Veðurstofu Íslands. Vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu er möguleiki á því að stærð og dýpi jarðskjálftans sé ekki mjög nákvæmt.

131115_1620
Jarðskjálftinn fyrir norðan Kolbeinsey. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Vegna fjarlægðar er erfitt að átta sig á því hvað er að gerast þarna. Hinsvegar hefur engin órói ennþá mælst frá Kolbeinsey og það er ekkert sem bendir til þess að þarna sé eldgos hafið eins og stendur. Þessi jarðskjálfti kom vel fram á jarðskjálftamælanetinu mínu, á jarðskjálftamælastöðinni í Böðvarshólum. Hægt er að skoða jarðskjálftamælavefsíðuna mína hérna.

Tíðni eldgosa á Íslandi

Því er oft haldið fram að eldgos verði á Íslandi á 3 til 5 ára fresti. Samkvæmt þessari trú ætti næsta eldgos að eiga sér stað árið 2014 til 2016. Raunveruleikinn er hinsvegar mun flóknari en almennt er haldið varðandi eldgos á Íslandi. Eldgos eru mjög algeng á Íslandi, það er hinsvegar ekki það sama og að segja að eldgos eigi sér stað með reglulegu millibili. Lengsta hlé á eldgosum var 7 ár síðan almennileg skráning hófst á tíðni eldgosa á Íslandi. Það var þegar Krafla gaus árið 1984 og síðan Hekla árið 1991. Síðan eru það styttri tímabil milli eldgosa, eins og átti sér stað árið 2010 og árið 2011 þegar það gaus í Eyjafjallajöki, Kötlu og Grímsfjalli með nokkura mánaða millibili. Á þessu tímabili urðu tvö stór eldgos (Eyjafjallajökull og Grímsfjall) og síðan tvö lítil eldgos sem þarna áttu sér stað (~10 tímar í Kötlu og ~16 tímar í Harminum). Eldgosið í Grímsfjalli var það stærsta í 140 ár hið minnsta. Síðan varð gufusprenging í Kverkfjöllum núna í Ágúst-2013 (umfjöllum það er að finna hérna og hérna).

Það er ekki óalgengt að nokkur eldgos sé í gangi á Íslandi á sama tíma, þá á sama tíma eða yfir nokkura mánaða tímabil. Það hefur gerst áður í sögu Íslands og mun gerast aftur. Það er einnig algengt að löng hlé séu á eldgosum sem vara í nokkur ár hið minnsta. Eins og stendur er mjög rólegt á Íslandi en sagan sýnir að það er ekki alltaf þannig. Fyrir nánari upplýsingar um sögu eldgosa á Íslandi þá mæli ég með þessum hérna blogg pósti (jonfr.com, á ensku) og einnig þetta hérna (á ensku) yfirlit frá Veðurstofu Íslands.

Minniháttar jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Í dag (04-Nóvember-2013) klukkan 04:03 varð minniháttar jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg. Stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 3,2 og dýpið 12,2 km.

Jarðskjáftahrinan á Reykjaneshrygg. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.
Jarðskjáftahrinan á Reykjaneshrygg. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinur eru algengar á þessu svæði og þarna hafa orðið jarðskjálftahrinur síðustu vikur. Það eru engar vísbendingar um að þarna sé að fara hefjast eldgos og ekkert bendir til þess að það sé raunin. Stærsti jarðskjálftinn sem varð þarna kom vel fram á jarðskjálftamælunum hjá mér og er hægt að sjá jarðskjálftann hérna (næstu 24 klukkutímana) á jarðskjálftamæla-vefsíðunni sem ég er með.

Tveir litlir jarðskjálftar í Heklu

Ég biðst afsökunar á því að vera seinn með þessa bloggfærslu.

Á Miðvikudaginn (23-Október-2013) urðu tveir litlir jarðskjálftar í Heklu. Einn jarðskjálfti átti sér stað fyrir utan sjálfa megineldstöðina en í sjálfu Heklukerfinu. Allir jarðskjálftanir voru litlir og var sá stærsti með stærðina 1,6 og dýpið 1,3 km. Þessa stundina er óljóst hvað er að valda þessari jarðskjáfltavirkni í Heklu.

131024_2315
Jarðskjálftanir í Heklu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Hingað til hafa ekki verið nein merki þess að eldgos sé að fara hefjast í Heklu. Vefmyndavél sem vísar á Heklu er að finna hérna (jonfr.com), hérna (Rúv.is) og síðan hérna (livefromiceland.is). Hægt er að fylgjast með jarðskjálftagröfunum mínum hérna. Jarðskjálftamælirinn við Heklu mælir jarðskjálfta alveg niður í 0,0 í góðum skilyrðum. Þannig að ef eldgos hefst í Heklu þá munu merki eldgoss koma mjög vel fram á jarðskjálftamælinum mínum við Heklu.

Jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu

Í gær (18-Október-2013) hófst jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu. Þessi jarðskjálftahrina er lítil og stærsti jarðskjálftinn er eingöngu með stærðina 2,5. Jarðskjálftahrinan er á suðurenda ónefndar eldstöðvar sem er þarna á hafsbotninum.

131019_0030
Jarðskjálftahrinan á Tjörnesbrotabeltinu. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það er óvíst hvort að mikið verði úr jarðskjálftavirkni á þessu svæði. Eins og stendur er jarðskjálftavirknin þarna lítil til miðlungs en enginn jarðskjálfti hefur náð stærðinni 4,0 á þessu svæði ennþá.

Ný jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Í gær (18-Október-2013) hófst ný jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg. Í þessari hrinu hafa eingöngu 16 jarðskjálftar mælst, sá stærsti mældist með stærðina 3,3 og dýpið 6,1 km.

131018_2320
Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg. Græna stjarnan táknar jarðskjálfta sem eru stærri en 3,0. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ég reikna með frekari jarðskjálftum á þessu svæði á næstu dögum til vikum. Það er þó erfitt að segja til um það hvenær slíkar jarðskjálftahrinur munu eiga sér stað. Það er því best að fylgjast með á vef Veðurstofu Íslands og á vefsíðunni minni með jarðskjálftagröfunum.

Jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli

Minniháttar jarðskjálftavirkni hefur haldið áfram í Eyjafjallajökli síðan hún hófst í síðustu viku. Þetta eru mjög litlir jarðskjálftar og hefur enginn þeirra náð stærðinni 1,0 ennþá. Þessi jarðskjálftavirkni er einnig mjög grunn, eða á innan við 5 km dýpi. Ég veit ekki ennþá hvað er að valda þessari jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli og ekki er víst að ég muni komast nokkurntímann að því.

131016_2345
Jarðskjálftavirknin í Eyjafjallajökli. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þessa stundina er engin hætta á eldgosi í Eyjafjallajökli. Þar sem engin ný kvika er að flæða inn í eldfjallið eins og er. Hægt er að fylgjast með Eyjafjallajökli hérna (jonfr.com) og hérna (livefromiceland.is)

Jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu

Á mánudaginn (14-Október-2013) hófst jarðskjálftahrina á Tjörnesbrotabeltinu. Þessi jarðskjálftahrina hefur verið lítil eins og stendur, stærsti jarðskjálftinn í þessari hrinu hefur aðeins verið með stærðina 2,5.

131015_2210
Jarðskjálftahrinan á Tjörnesbrotabeltinu í dag. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Það virðist sem að þessi jarðskjálftahrina sé ennþá í gangi. Þó er vonlaust að vita hvort að þessi jarðskjálftahrina mundi vara næstu daga eða ekki. Þetta svæði á Tjörnesbrotabeltinu hefur verið mjög virkt undanfarið og því er hætta á frekari jarðskjálftavirkni þarna. Það er ekki hægt að segja til um það hversu mikil sú jarðskjálftavirkni verður.