Í dag (13. Apríl 2023) hefur verið lítil jarðskjálftahrina í suðurhluta Brennisteinsfjalla. Fyrir nokkrum vikum síðan var einnig jarðskjálftahrina á sama svæði. Sú jarðskjálftahrina var einnig mjög lítil að stærð. Það sem hefur helst breyst núna er að dýpi jarðskjálftahrinunnar er farið úr 7 km og upp í 3 km virðist vera. Þetta er miðað við núverandi jarðskjálftagögn.
Þessi jarðskjálftavirkni bendir til þess að kvika sé á ferðinni þarna. Það er mín skoðun að kvika sé að troða sér þarna upp. Það mun taka talsverðan tíma, mjög líklega nokkrar vikur. Þar sem ekki er hægt að segja til um gerð jarðskorpunnar á þessu svæði. Ég sá mjög svipað gerast áður en það fór að gjósa í Bárðarbungu árið 2014. Þá tók það kvikuna um þrjá mánuði að brjóta sér leið upp í gegnum jarðskorpuna og þá komu fram svona smáskjálftar eins og sjást núna í Brennisteinsfjöllum. Það er engin leið að vita hversu langan tíma þetta mun taka, þar sem gerð jarðskorpunnar á þessu svæði er ekki þekkt, nema rétt svo efsta lag jarðskorpunnar. Það er mín skoðun að það þurfi að fylgjast með þessari jarðskjálftavirkni, vegna mögulegrar hættu á eldgosi á þessu svæði. Þetta er beint norður af vatni sem er þarna og ef það fer að gjósa, þá er hugsanlegt að hraunið fari beint út í vatnið og valdi vandræðum.
Það er hægt að skoða jarðskjálftahrinuna í hærri upplausn hérna á Skjálfta-Lísu, vef Veðurstofu Íslands.