Þetta er lítil uppfærsla um stöðuna í eldgosinu í Fagradalsfjalli sem er hluti af eldstöðvarkerfi Krýsuvík-Trölladyngju.
Frá 22-Júní til 29-Júní fóru að koma fram breytingar í eldgosinu í Fagradalsfjalli. Í staðinn fyrir að það væri stöðugur straumur af hrauni úr gígnum þá fór að bera á því að hraunstreymið væri stopult og óróinn sem fylgir eldgosinu fór einnig að breytast. Það stig endaði þann 29-Júní um klukkan 19:30 þegar virknin fór að aukast aftur. Það virðist sem að magn hrauns sem kemur upp núna hafi meira en tvöfaldast, miðað við það sem er að sjá á vefmyndavélum (þegar svæðið er ekki falið í þoku).
Það er hugsanlegt að nýr gígur hafi opnast rétt sunnan við stóra gíginn í hrauninu þar. Þetta er rétt við stóra gíginn sem gerir staðfestingu mjög erfiða. Það hefur sést í hraun koma þar upp í slettum. Það er einnig möguleiki að þessi gígur sé nú þegar hættur að gjósa eftir nýjustu breytingar. Ég hreinlega veit ekki stöðuna eins og er.
Það hefur aðeins sést í hraunstrókavirkni í dag og þá sérstaklega síðustu klukkutíma eftir því sem virknin eykst á ný í eldgosinu. Þegar virknin er sem mest þá flæðir hraun núna út um allar hliðar gígsins en það gerðist ekki áður í eldgosinu. Það er eins og virknin detti alveg niður milli þess sem hraunflóð eiga sér stað úr gígnum. Ég veit ekki hvort að þetta er varanleg breyting eða bara tímabundin breyting á eldgosinu. Það gæti tekið margar vikur áður en hraunflæðið verður stöðugt úr gígnum á ný.
Það hefur komið fram í fréttum að meirihlutinn af hraunflæðinu á sér stað neðanjarðar og flæðir hraunið beint út í hraunbreiðuna þar sem það safnast saman í hrauntjarnir áður en það flæðir niður í Meradali, Geldingadali (fullur af hrauni) og síðan Nátthaga.