Samkvæmt fréttum í dag (18-Maí-2022) þá hefur myndast kvikugangur milli fjallsins Þorbjarnar og síðan Eldvörp á Reykjanesi. Eldvörp á Reykjanesi urðu til á síðasta eldgosaskeiði á Reykjanesi á 12 og snemma á 13 öldinni. Nákvæmar dagsetningar eru ekki þekktar. Þessi virkni er í eldstöð sem heitir Reykjanes og tengist ekki eldstöðinni sem gaus árið 2021 sem var eldstöðin Trölladyngja-Krýsuvík (Fagradalsfjall).
Kvikugangurinn er langur og mjór samkvæmt fréttum sem vitna í vísindamenn frá Háskóla Íslands, Jarðvísindadeild og síðan vísindamenn frá Veðurstofu Íslands. Lengd kvikugangsins er 7 til 9 km og dýpið er 4 til 8 km (?). Þetta sést einnig á GPS gögnum og öðrum gögnum sem Veðurstofan hefur aðgang að (ég hef ekki aðgang að þessum gögnum).
Það er ekki hægt að segja til um það hvar eldgos mun hefjast eða á hvaða svæði. Næst þessu svæði er bláa lónið og orkuver HS veitna. Grindavík er aðeins sunnar en þetta svæði og er mögulega í hættu. Hvernig þetta fer hinsvegar kemur alveg niður á því hvar eldgosið kemur upp og hversu stórt það verður. Minni eldgos eru minna vandamál en stór eldgos á þessu svæði. Það eina sem hægt er að gera núna er að fylgjast með stöðu mála.