Staðan í Öskju og Bárðarbungu klukkan 14:31

Hérna er staða mála í Öskju og Bárðarbungu. Ég hef ekki haft tíma til þess að fara yfir myndir og finna hentungar vegna þeirra stöðu sem er komin upp núna. Hvað gerist í þessu veit ég ekki ennþá.

Staðan í Öskju

  • Kvikuinnskotið frá Bárðarbungu er komið inn í Öskju. Ekki bara sprungusveiminn frá Öskju, heldur inn í sjálfa eldstöðina.
  • Viðvörunarstig Öskju hefur verið fært upp á gult stig.

Staðan í Bárðarbungu

  • Sigdældir hafa sést í Vatnajökli sem er ofan á Bárðarbungu, þær hafa ekki stækkað í nótt samkvæmt athugun vísindamanna í dag.
  • Það jökulvatn sem bráðnaði við þetta virðist hafa farið í Grímsvötn. Þar sem þau hafa hækkað um 10 til 15 metra á síðustu dögum.
  • Jarðskjálftavirkni er ennþá mjög mikil. Bæði í Bárðarbungu og í kvikuinnskotinu. Í morgun varð jarðskjálfti með stærðina 5,4 (samkvæmt EMSC, USGS) klukkan 08:13. Stærsti jarðskjálftinn átti sér stað í öskju Bárðarbungu eins og flestir stórir jarðskjálftar sem hafa átt sér stað undanfarið.
  • Í gær urðu yfir 1300 jarðskjálftar í norður enda kvikuinnskotsins.
  • Sprungur eru farnar að koma fram í jörðinni milli Dyngjujökuls og Öskju. Þetta þýðir að kvikuinnskotið er komið mun hærra en jarðskjálftavirkni bendir til. Sigdældir hafa einnig sést í Dyngjujökli þar sem hann er hvað þynnstur við enda jökulsins.
  • Órói er ennþá mjög hár á SIL stöðvum í kringum Bárðarbungu.

Ástandið er mjög óstöðugt núna og mun breytast án fyrirvara á næstu 24 til 48 klukkutímum. Hugsanlega fyrr. Ég met að það séu 80% líkur á því að eldgos muni núna eiga sér stað bæði í Bárðarbungu og Öskju. Sérstaklega þar sem lítil eldgos hafa átt sér stað undir jöklinum í Bárðarbungu síðustu daga.