Áframhaldandi jarðskjálftahrina í Krýsuvík og Reykjanes eldstöðvunum

Í gær (29-Ágúst-2020) jókst jarðskjálftahrina sem hefur verið í gangi í eldstöðunum Krýsuvík og Reykjanes síðustu daga. Ég veit ekki almennilega hvaða eldstöðvarkerfi er um að ræða hérna eða hvort að mögulega sé um að ræða bæði eldstöðvarkerfin á þessu svæði og ef það er raunin þá flækir það málin umtalsvert.


Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga. Mynd notuð með leyfi og höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn í gær var með stærðina Mw3,7 klukkan 19:06 og annar stærsti jarðskjálftinn var með stærðina Mw3,4 klukkan 16:23. Það urðu einnig tveir jarðskjálftar með stærðina MW3,0. Stærstu jarðskjálftarnir fundust í Reykjavík og nágrenni. Þessi jarðskjálftavirkni er hluti af þeirri jarðskjálftavirkni sem hófst á þessu svæði í Janúar og hefur verið í gangi síðan þá. Þessi jarðskjálftavirkni hefur færst austur á síðustu vikum og það er ekki alveg augljóst afhverju það er. Það eru engin merki um að kvikan sé að færa sig upp á yfirborðið þegar þessi grein er skrifuð.