Ég afsaka hvað þessi grein er seint á ferðinni. Ég hef verið að vinna í því að setja upp nýja þjóna tölvu hjá mér og það hefur tekið lengri tíma en ég reiknaði með.
Eldgosinu lauk eftir aðeins 41 klukkustund frá því að það byrjaði. Hraunið brenndi þrjú hús og olli skemmdum á vegum og öðrum innviðum í Grindavík, það er köldu vatni, heitu vatni og síðan rafmagni. Nýr sigdalur myndaðist austan við þann sigdal sem myndaðist þann 10. Nóvember 2023. Niðurstaðan af því er sú að Grindavík er núna orðin stórhættuleg og ekki hægt að fara þar um með neinu öryggi. Þar sem þarna eru sprungur sem eru allt að 40 metra djúpar áður en komið er niður á grunnvatn. Það er erfitt að lesa í GPS gögn, þar sem allt svæðið er orðið beyglað og brotið eftir umbrotin sem hófust þann 10. Nóvember 2023 og síðasta eldgos hefur aukið á þau umbrot. Svæðið er að færast upp eða niður, eftir því hvort um er að austan eða vestan við sigdalina. Það mun taka nokkra daga að sjá hversu hröð þenslan er í Svartsengi núna. Kvikan sem gaus núna virðist hafa komið frá Skipastígahrauni og Eldvörpum í sillu sem er þar undir, vestur af því svæði þar sem gaus núna við Hagafell. Það virðist sem að sillan sem er undir Svartsengi hafi ekki hlaupið núna í þessu eldgosi, þar sem ekkert sig mældist við eldgosið þar í kjölfarið á þessu eldgosi.
Hámarkstími þangað til að næsta eldgos verður er 30 dagar, með skekkjumörkum upp á hámark átta daga. Þetta tímabil gæti þó verið styttra, þar sem þenslan er að aukast. Það er samt mikil óvissa í þessu, vegna þess hvernig jarðskorpan er orðin við Grindavík.
Eldgosin eru að færast suður með þessu svæði og það eru slæmar fréttir þar sem næsta eldgos verður þá inni í Grindavík og niður að höfninni, þegar næsta eldgos verður eftir rúmlega 30 daga. Staðan núna er sú að ekki er hægt að búa í Grindavík vegna þess hversu hættulegt það er vegna sprungna. Það hefur einnig orðið meiriháttar tjón á innviðum í Grindavík og að auki, þá hefur bæst í það tjón sem var fyrir á húsum, vegum og fleiru.