Staðan í Bárðarbungu þann 16-Janúar-2015

Ekki hafa orðið miklar breytingar í eldgosinu í Holuhrauni síðan á miðvikudaginn (14-Janúar-2015). Hraunbreiðan heldur áfram að stækka og er núna orðin ~84 km² (ferkílómetrar) að stærð. Brennisteinsdíoxíð mengun er ennþá mikið vandamál eftir því hvert vindurinn blæs mengunni á hverjum tíma. Hraunstreymið er þessa stundina í kringum 50 – 70 m³/sek samkvæmt síðustu mælingum.

150116_2040
Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu síðustu 48 klukkustundirnar. Höfundaréttur að þessari mynd tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Ennþá er mikil jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu, stærstu jarðskjálftarnir hafa stærðina 4,6. Það er orðið talsvert síðan jarðskjálfti að stærðinni 5,0 eða stærri varð í Bárðarbungu. GPS gögn sýna að Bárðarbunga heldur áfram að síga, hægt hefur á þessu sigi síðan það hófst í lok Ágúst, þetta hæga sig Bárðarbungu sýnir að kvika er ennþá að streyma út úr kvikuhólfum innan í eldstöðinni. Jarðskjálftavirkni hefur haldið áfram í kvikuinnskotinu, allir þeir jarðskjálftar sem hafa átt sér stað hafa verið minni en 2,5.

Breytingar á uppfærslum: Þar sem eldgosið í Holuhrauni (Bárðarbungu) er alltaf með mjög svipuðum hætti núna þessar vikunar, þá hef ég breytt þeim dögum sem ég skrifa um Bárðarbungu. Framvegis verður skrifað um Bárðarbungu á Þriðjudögum og Fimmtudögum. Ef eitthvað stórt gerist í Bárðarbungu utan þessara daga þá mun ég skrifa um það eins fljótt og hægt er.