Staðan í Bárðarbungu þann 3-Febrúar-2015

Síðan síðasta uppfærsla var skrifuð þann 30-Janúar-2015 um stöðuna í Bárðarbungu hefur ekki mikið gerst í eldgosinu í Holuhrauni. Það hefur lækkað talsvert í gígnum samkvæmt myndum sem voru teknar í dag og birtar á internetinu. Háir hamrar hafa myndast þar sem hraunáin er, ég er ekki með nákvæma hæð á þeim en ég er að áætla að hæðin sé í kringum 30 til 40 metrar (ég gæti haft rangt fyrir mér).

150203_1840
Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutímana. Höfundaréttur að þessari mynd tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn síðustu 48 klukkutímana var með stærðina 4,6. Annars hefur jarðskjálftavirkni verið með svipuðu móti og síðustu vikur í Bárðarbungu. Ég hef hinsvegar verið að sjá óróapúlsa síðustu daga í Bárðarbungu og það liggur ekki fyrir afhverju þessir óróapúlsar eru að eiga sér stað. Stærsti óróapúlsinn varð þann 30-Janúar-2015, síðan þá hafa minni óróapúslar komið fram. Það er ekki ljós afhverju þessir óróapúslar eru að koma fram núna. Hugsanlegar ástæður eru kvikuhreyfingar innan Bárðarbungu eða breytingar á háhitasvæðum í Bárðarbungu.

Komin er ný vefmyndavél við Holuhraun og hægt er að sjá þessa nýju vefmyndavél hérna.