Staðan í eldgosinu í Meradölum í Fagradalsfjalli þann 4-Ágúst-2022

Þetta hérna er stutt grein um stöðuna í eldgosinu í Meradölum í Fagradalsfjalli. Greinin er skrifuð klukkan 17:04 þann 04-Ágúst-2022.

  • Eldgosið er stöðugt eins og er. Hlutar af sprungunni hafa hætt að gjósa og er mesti hluti eldgossins aðeins í syðri hluta sprungunnar.
  • Gígur hefur ekki myndast útaf hrauntjörninni sem er þarna og kemur í veg fyrir myndun gígs.
  • Það er í kringum 20 m3/sec til 30 m3/sec af hrauni að koma upp í þessu eldgosi núna. Þetta mun breytast án viðvörunar.
  • Dalurinn Meradalir er að fyllast af hrauni og er núna orðin að 800C heitri hrauntjörn sem er þarna á svæðinu. Það er hugsanlegt að dalurinn muni fyllast upp af hrauni eftir um eina viku og er nú þegar byrjað að flæða inn í nálæga dali (sem ég er ekki viss hvað heita eða hvort að þeir hafa nafn). Ef að eldgosið minnkar, þá mun það taka um þrjár til fjórar vikur fyrir hraunið að fylla dalinn.
  • Gossprungan getur farið að stækka í báðar áttir án nokkurar viðvörunnar og það eru vísbendingar um það að norðurhluti þessar sprungu sé á hreyfingu og því getur farið að gjósa þar án viðvörunnar. Suðurhluti sprungunnar er undir hrauni og því er ekki hægt að fylgjast með þeim hluta.
  • Miðbandið í óróanum (1 – 2Hz) heldur áfram að aukast og það segir að aukin kvika sé að flæða um í gegnum kvikuinnskotið. Það er vísbending um að hugsanlega sé stærra eldgos á leiðinni. Hvort að það gerist og hvenær það gerist er ekki hægt að segja til um.
  • Stærsti jarðskjálfti síðustu 24 klukkutímana var með stærðina Mw3,4 klukkan 09:26. Í gær (03-Ágúst-2022) varð jarðskjálfti með stærðina Mw4,6 klukkan 05:42 og síðan varð jarðskjálfti með stærðina Mw4,2 klukkan 12:00. Þessi jarðskjálftavirkni er áhugaverð, sérstaklega jarðskjálftavirknin sem er ennþá í gangi eftir að eldgosið hófst. Minniháttar jarðskjálftar halda áfram þó svo að eldgos sé hafið.
  • Það er meira vatn í þessu hrauni og það eykur gasmagnið þegar kvikan nær yfirborði. Það er einnig meira af SO2, CO, CO2 gasi í þessu eldgosi, þar sem það er meira hraun að koma upp.

Ég mun setja inn uppfærslur á hverjum föstudegi á meðan þetta eldgos er í gangi. Nema ef eitthvað meiriháttar gerist, þá mun ég skrifa grein eins fljótt og hægt er. Á venjulegum degi, þá verða yfirleitt ekki neinar stórar breytingar á þessu eldgosi.