Jarðskjálfti með stærðina Mw4,1 vestan við Kleifarvatn

Í dag (7-Ágúst-2022) klukkan 11:52 varð jarðskjálfti með stærðina Mw4,1 vestan við Kleifarvatn. Þessi jarðskjálfti fannst í Reykjavík.

Græn stjarna vestan við Kleifarvatn ásamt rauðum og appelsínugulum punktum sem sýna jarðskjálftana sem hafa verið þar í dag (rauðir) og fyrir nokkrum klukkutímum síðan (appelsínugulir)
Jarðskjálftavirknin vestan við Kleifarvatn. Höfundarréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftavirkni er áframhaldandi á þessu svæði. Það er möguleiki að þetta séu brotajarðskjálftar vegna spennubreytinga vegna eldgossins í Meradölum. Það er hinsvegar óljóst að mínu áliti.

Eldstöðin Reykjanes

Klukkan 10:52 varð jarðskjálfti með stærðina Mw3,0 í eldstöðinni Reykjanes vestan við Grindavík. Það er ekki víst að þetta sé jarðskjálfti vegna spennubreytinga sem koma í kjölfarið á eldgosinu í Meradölum. Eldstöðin Reykjanes mun gjósa einn daginn og þar sem eldstöðin fer út í sjó, þá getur slíkt eldgos orðið út í sjó og myndað þar eyju eða orðið á landi. Hvernig það eldgos verður er að bíða og sjá hvað gerist.

Eldgosið í Meradölum

Nýjustu fréttir af stöðu mála af eldgosinu í Meradölum segja að núna sé kominn púls virkni í stærsta gíginn og það bendir sterklega til þess að gamla kvikan sem er þarna að gjósa núna sé að verða búinn. Þegar sú kvika klárast, þá verður hugsanlega stutt hlé á eldgosinu og síðan mun nýtt og stærra eldgos hefjast þegar nýja kvikan fer að gjósa þarna og á stærra svæði í Fagradalsfjalli. Hvenær og hvernig þetta gerist er ekki hægt að segja til um og það þarf bara að bíða eftir því hvað gerist næst.