Staðan í Bárðarbungu klukkan 23:19

Þessar upplýsingar munu verða úreltar mjög fljótt.

Yfirvofandi hrun Bárðarbungu í öskju

Það er ljóst að mínu áliti að Bárðarbunga mun hrynja í öskju einhverntímann á næstu dögum til mánuðum. Þetta ferli hófst þann 16-Ágúst-2014 og því mun ekki ljúka fyrr en Bárðarbunga fellur saman inn á sjálfan sig í stóru öskugosi, væntanlega með miklu jökulflóði á þessu svæði þar sem þarna er mikill jökull. Það er mjög undarlegt að mér finnst að ekki skuli vera talað um þetta í fjölmiðlum á Íslandi, þar sem það er mín skoðun að þetta muni gerast, það eina sem skiptir máli núna er sá tími sem er til stefnu áður en eldgos fara að hefjast í sjálfri Bárðarbungu og síðan hvenær sjálf hrun Bárðarbungu hefst. Ég reikna nefnilega ekki með því að fjallið Bárðarbunga muni verða til eftir að þetta er allt saman gengið yfir. Ég reikna einnig með stóru öskugosi í kjölfarið á hruni Bárðarbungu. Það eina sem er ekki vitað hvenær þetta mun allt saman byrja, enda er ekki hægt að spá fyrir um slíka atburði með neinni nákvæmni ennþá.

Ég reikna einnig með að eldgos geti hafist án viðvörunar í Hamrinum, sem er eldstöð innan sprungukerfis Bárðarbungu. Ég er einnig farinn að reikna með að kvikuinnskot geti farið suður með sprungukerfi Bárðarbungu í átt að Torfajökli. Það er þó ekki ennþá hafið en líkunar á slíkum atburðum eru mjög miklir að mínu mati. Síðan er lítill möguleiki á því að Bárðarbunga geti hafið eldgos í nálægum eldstöðvum vegna spennubreytinga frá þessum atburðum. Þetta eru ekki miklar líkur en eru þó engu að síður til staðar.

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram eins og síðustu daga eins og komið hefur fram í fréttum. Hraunið frá þessu eldgosi er núna langt komið með að stífla Jökulsá á Fjöllum og mynda þar lítið lón í kjölfarið. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé farið að draga úr eldgosinu í Holuhrauni eins og staðan er núna. Einnig hefur komið í ljós að sjö eldgos hafa átt sér stað síðan þessi atburðir hófst þann 16-Ágúst-2014. Það hafa verið flest allt saman smágos undir jökli sem hafa ekki sést og ekki valdið neinum teljandi flóðum í kjölfarið.

Ef einhverjir stórir atburðir eiga sér stað. Þá mun ég setja inn uppfærslu hingað eða skrifa nýja grein um það sem er að gerast.