Staðan í Bárðarbungu Mánudaginn 3-Nóvember-2014

Eldgosið í Holuhrauni hélt áfram um helgina eins og það hefur gert síðustu tvo mánuði, engin breyting átti sér stað á eldgosinu. Vegna slæms veðurs um helgina gekk illa að fylgjast með framgangi eldgossins og virkninni í Bárðarbungu. Eldgosið heldur áfram af fullum krafti eftir því sem ég sá á vefmyndavélum Mílu fyrr í dag. Ég tók einnig eftir því í dag að eldgosið var að senda upp hraunstróka sem náðu 20 – 30 metra upp í loftið, aðal gígurinn hefur byggt upp hlíð sem er rúmlega 90 metra há þannig að ekki sést til eldgossins þar, ég veit ekki hversu stöðug þessi hlíð er og hversu mikið hrynur úr henni, en slík hrun geta átt sér stað án nokkurs fyrirvara.

141103_2210
Jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu síðustu 48 klukkutíma. Höfundaréttur af þessari mynd tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálfti helgarinnar var með stærðina 5,4 en aðrir jarðskjálftar voru minni eftir því sem mig minnir. Það er hinsvegar ennþá mjög mikil jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu og mjög margir jarðskjálftar sem eru stærri en 3,0 eiga sér stað daglega í Bárðarbungu. Fjöldi jarðskjálfta sem er með stærðina 5,0 eða stærri er kominn upp í 61, jarðskjálftar með stærðina 4 – 5 er 228 talsins og það hafa orðið 434 jarðskjálftar með stærðina 3 – 4 síðan í Ágúst. Þetta er samkvæmt frétt Rúv. Magn hraunsins sem komið hefur upp er núna orðið 1,0 km³ og það þekur núna 70 ferkílómetra samkvæmt síðustu mælingu sem ég vissi af. Eldgosið í Holuhrauni er engu að síður fjórtán sinnum minna en Skaftáreldar sem áttu sér stað 1783 – 1784. Eftir því sem ég kemst næst þá eru þetta allar þær fréttir af stöðu mála í Bárðarbungu.

Fréttir af eldgosinu

Stærsta gos síðan í Skaftáreldum (Rúv.is)