Staðan í Grindavík þann 15. Nóvember 2023

Þetta er stutt grein um stöðuna í Grindavík þann 15. Nóvember 2023. Upplýsingar hérna gætu orðið úreltar mjög hratt og án viðvörunnar.

Almennt, þá hefur ekki mikið breyst síðan í gær (14. Nóvember 2023).

  • Það hefur ekki orðið nein breyting á jarðskjálftavirkni í kvikuganginum við Grindavík. Það er sterkur vindur á svæðinu og það veldur því að minni jarðskjálftar sjást ekki á mælum Veðurstofunnar.
  • Hluti hafnar Grindavíkur er farinn að síga samkvæmt fréttum. Hversu mikið veit ég ekki en það gæti verið talsvert sig.
  • Hraði sigs í Grindavík hefur aukist frá 7 sm á sólarhring í 12 sm á sólarhring samkvæmt fréttum. Sum svæði innan Grindavíkur hafa lækkað um 2 metra eða meira.
  • Innflæði kviku er ennþá 75 m3/sek inn í kvikuganginn samkvæmt fréttum í dag. Þetta er mikið innflæði af kviku inn í kvikuganginn. Í eldgosinu í Holuhrauni árið 2014 til 2015, þá var flæði kviku í því eldgosi um 90 m3/sek þegar mest var.
  • Samkvæmt frétt á mbl.is. Þá virðist sem að kvika sé að flæða beint upp úr megin kvikuhólfinu á 20 til 40 km dýpi á þessu svæði á Reykjanesskaga. Hægt er að lesa þá frétt hérna.
  • Hluti af Grindavík hefur tapað rafmagninu, ásamt heitu og köldu vatni vegna sigs og annara hreyfinga á jarðvegi og jarðskorpu á þessu svæðum innan Grindavíkur. Það á að reyna bráðabirgðaviðgerð á morgun ef aðstæður leyfa.
  • Eldgos gæti orðið við Sundahnúka eða Hagafell. Þar er mesta innflæði af kviku samkvæmt Veðurstofu Íslands og fréttum.
  • Það verður líklega eldgos í mörgum gígum á sama tíma. Miðað við það sem ég er að sjá í þessari atburðarrás. Það þýðir að hraun mun ná yfir stærra svæði á minni tíma þegar eldgos hefst. Eldgosin í Geldingadal, Meradölum og síðan við Litla-Hrút voru lítil eldgos þar sem það var bara einn gígur sem gaus.
  • Það er eitthvað sem kemur í veg fyrir að kvikan nái upp til yfirborðs og fari að gjósa. Það er óljóst hvað það er. Hinsvegar er kvika kominn á 500 metra dýpi eða grynnra samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Þetta litla dýpi þýðir að eldgos getur hafist án mikillar viðvörunnar eða án þess að tekið sé eftir því í kvikuganginum.

Það er möguleiki á því að hluti af Grindavík fari undir sjó eftir því sem hlutar af bænum halda áfram að síga niður. Þegar eldgosið hefst, hvað fer undir hraun veltur alveg á því hvar eldgosið kemur upp og er alveg handahófs kennt og ekki hægt að segja til um það hvar hraunið rennur.

Ef eitthvað gerist. Þá mun ég setja inn uppfærslu eins fljótt og ég get. Ef eitthvað gerist á morgun, þá mun ég skrifa um það. Annars ætla ég að skrifa næst grein þann 17. Nóvember 2023. Þar sem breytingar á milli daga eru ekki það miklar þessa stundina.